17.09.1919
Neðri deild: 66. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2374 í B-deild Alþingistíðinda. (2668)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Frsm. minni hl. (Sveinn Ólafsson):

Hv. frsm. meiri hl. (G. Sv.) hefir nú tekið fram, að þingsályktunartill. á þgskj. 121 sje ekki frambærileg að formi til. Af því hefði mátt ráða, að hún væri að efni til frambærileg. En síðar virtist hann komast að þeirri niðurstöðu, að hvort væri sem annað, form og efni, og hvorttveggja óviðunandi.

Það hefir nú, sem betur fer, verið tekið fram af hæstv. forsætisráðherra, að till. sje að formi til frambærileg, og það mun flestum öðrum hv. deildarmönnum lítast, ef nokkuð má ráða af niðurstöðunni í gær.

Það er alveg sjerstakt mál út af fyrir sig, hvort ríkinu er nauðsyn á að gera þetta eða ekki. En af því að jeg álít þessa nauðsyn talsvert ríka, hefi jeg fyrir mitt leyti hvatt til að samþykkja þessa till., frumtill., eins og hún liggur fyrir. Og það, sem jeg hefi þá einkanlega fyrir augum, er, að þetta vatnsafl Sogsins stígur fremur í verði en fellur, ef framkvæmd dregst. Jeg geri ráð fyrir, að almenn not vatnsafls, þótt ekki sje nema í smáum stíl, verði til þess, að vatnsafl það, sem álitlegast er til virkjunar, stigi í verði. Þess vegna vil jeg, að landið tryggi sjer straks eignarumráð Sogsfossanna. Það vill svo vel til, að leigusamningar þeir, sem gerðir hafa verið um Sogið, gefa nokkurn veginn ljósar bendingar um það, hvað þetta nám Sogsins mundi kosta. Ef leigunni eða árgjaldinu er skift á hestorknafjöldann, þá er hún sem svarar 6 aur. á hverja, og sje leigan miðuð við 5%, þá samsvarar það kr. 1.20 mati á hestorku hverri.

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) vildi láta í veðri vaka, að hlutaðeigendur gætu heimtað þær bætur, sem þeim þóknaðist. Auðvitað er þetta út í hött talað. Óvilhallir menn eiga að meta, ef eigi semur, og varðar því ekkert um kröfur þeirra sem rjettindin hafa, nema eins og upplýsingar. (G. Sv.: Það er undir matinu komið). Það verður að gera ráð fyrir að farið verði að lögum og matsmenn verði samviskusamir menn.

Um leið og jeg minnist á þetta, skal jeg geta þess, að vatnsorka hefir sumsstaðar verið metin enn þá lægra en þetta, sumsstaðar að vísu hærra, en hvergi því verði, sem tíðkanlegt er í nágrannalöndunum, Svíþjóð og Noregi. Í Þjórsá er hún metin sem næst á 60 aura hver hestorka. í Goðafossi 25 aura, og í Brúarfossi í Laxá 9 eða 10 aura.

En þetta verð breytist þegar farið verður að nota vatnsaflið, hækkar þar sem aðstaðan er hentug, og þess vegna á að leggja undir ríkið sem fyrst þetta ágætasta fallvatn landsins, hvort heldur verður með frjálsum samningum eða eignarnámi. Fossalögin frá 1907 gera ráð fyrir að samninga sje leitað áður en lögnámi er beitt. Og jeg tel sennilegast, eins og hæstv. forsætisráðherra (J. M.) tók fram, að aldrei þurfi til lögnáms að koma, því að þessi vatnsrjettur mundi fást með sæmilegum kjörum og án lögnáms.

Háttv. frsm. (G. Sv.) vildi halda því fram, að tilgangslaust væri að gera þetta, vegna þess, að landsstjórnin hefði ekki tækifæri til að reka þarna vatnsiðjufyrirtæki, svo að það borgaði sig, þar sem óhöpp fylgdu oftast fyrirtækjum, sem rekin væru fyrir fje hins opinbera. Þetta getur verið, en þó hefir nú svo farið í seinni tíð, að landsstjórnin hefir haft með höndum störf í þarfir allrar þjóðarinnar, sem eftir atvikum hafa tekist allsæmilega. Og tíminn er altaf að þokast lengra og lengra í þessa átt, að ríkið taki í sínar hendur framkvæmdir, sem einstaklingarnir ekki geta ráðið við eða þá mundu misbrúka. (E. A.: Er þm. (Sv. Ó.) alt í einu orðinn socialisti?). Það þarf engan socialista til þess að sjá hvert stefnir.

Eitt var það einkennilegt, sem hv. frsm. (G. Sv.) tók fram, að nú væri óþarft að nema Sogið handa ríkinu, þar sem von væri á ströngum sjerleyfislögum. Jeg sje ekki, hvaða samband er á milli væntanlegra sjerleyfislaga og lögnámsins á Soginu, því að jeg lít svo á, að þessi sjerleyfislög sjeu nokkurskonar vernd gegn útlendingum, sem seilast til fossaiðju hjer á landi, og „leppum“ þeirra — jafnsjálfsögð, hvort sem Sogið er lögnumið eða ekki.

Jeg skal svo ekki tefja tímann frekar, en vil lýsa því yfir, að jeg álít, að Sogið muni á sínum tíma verða að miklu og góðu liði sveitum þeim og kaupstöðum, er nærri því liggja, ef ríkið tekur það, og í þeirri trú greiði jeg atkv. með till., enda er jeg sannfærður um, að hún er jafnt að formi og efni frambærileg og ríkinu enginn vandi bundinn með að samþykkja hana.