17.09.1919
Neðri deild: 66. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2377 í B-deild Alþingistíðinda. (2669)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Benedikt Sveinsson:

Háttv. frsm. meiri hl. (G. Sv.) rjeðst á móti till. á þgskj. 121, og kom það mjer á óvart. Fann hann henni það til foráttu, að í henni væri fólginn úrskurður um það, hver ætti fossana í landinu. Þetta var ljóslega rætt við 1. umr., og ljet jeg þá í ljós, að ekki væri hægt að sjá, hvernig hægt væri að tryggja landinu Sogið, nema farið væri eftir fossalögunum frá 1907, en önnur lög um eignarnám á fossafli eru ekki til mjer vitanlega. Annars eru mjer, sem leikmanni í lögfræði, töluvert torskildar þær kenningar lögfræðinganna, sem vilja láta oss greiða atkvæði eins og fossalögin frá 1907 væru ekki til, meðan þau eru eigi úr lögum numin, og mjer er ekki kunnugt um, að þau hafi verið feld úr gildi enn þá.

Tillögunni, sem feld var hjer í gær gat jeg ekki greitt atkvæði, meðal annars af því, að stjórnin kvaðst ekki sjá sjer fært að framkvæma hana, þar sem hún væri ekki lögleg samkvæmt skilningi hennar, enda var dálítið undarlega komist að orði í þeirri till., t. d. þar sem skorað var á stjórnina, að „kasta eign sinni á“ það, sem hún á áður, að skoðun flutningsmannanna. Annars eru nú sumir menn orðnir svo leiknir í hártogunum og útúrdúrum í þessum fossamálum, að þeir svo að segja geta haft fataskifti daglega.

Það leikur ekki á tveim tungum, að landið á að fá og getur fengið Sogið, og það á að ná í Sogið, af því að það er hagkvæmast að virkja af öllu vatni. Auk þess er það ekki enn fullákveðið, með hverjum hætti Reykjavík ætlar sjer að raflýsa bæinn. Það hefir að vísu verið hugsað um Elliðaárnar, en ekkert mun fullráðið um það enn, og að öllum líkindum mun ekki borga sig fyrir bæinn að leggja 2–3 miljónir í það fyrirtæki, þar sem ekki fást nema 1000 — eitt þúsund — hestöfl. En það er hætt við, að það verði þó hrapað að því fyrirtæki, sakir hagsmuna einstakra manna, ef það verður ekki víst, að bærinn muni eiga greiðan gang að Soginu. (E. A.: Hefir bærinn ekki selt fossa sína í Soginu?). Hann hefir keypt fossarjettindi í Soginu, en ekki er mjer kunnugt um, að hann hafi selt þau, og ekki hefir það heyrst í bæjarstjórn.

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) fór mörgum orðum um, og vildi gera ískyggilegt, að nú væri ráðist í að lögnema vatnsafl í Soginu, og taldi að mikið umstang og geysikostnaður mundi verða því samfara, og enn fremur sagði hann, að það væri alls ekki skylda landsins að kaupa Sogið, þótt einhver bæjarstjórn óskaði þess. Það hefir heldur enginn sagt, en þótt þingið tæki nokkurt tillit til þarfar höfuðborgarinnar, þá væri það engin goðgá. Og þingið hefir þá líka farið eftir vilja bæjarstjórnar í því, að ábyrgjast 2. milj. króna lán, er hún tæki og verði til raflýsingar, svo að Alþingi og stjórn lætur þetta mál Reykjavíkur ekki algerlega afskiftalaust. Og þótt nú yrði farið að ráðast í að setja rafmagnsstöð við Elliðaárnar. er ekki þar með fullnægt þörf bæjarins, því að hann þarf á meira rafmagni að halda, en þetta yrði að eins gert út úr neyð. Hitt er ekki nema ókunnugleiki hjá hv. þm. (G. Sv.), þegar hann er að tala um að þegar sje farið að vinna að notkun Elliðaánna til raflýsingar. Þetta mál er ekki nema á tilraunastiginu enn þá, og hefir ekkert verið samþykt í bæjarstjórninni um að ráðast í það fyrirtæki fyr en málið væri fullrannsakað og þetta þætti tiltækilegt. En það, sem meðal annars mælir mjög með því, að Sogið verði tekið er það, að rjettast er að nema það meðan vatnsaflið er ekki orðið dýrara en það er, og í öðru lagi, að Reykjavík þarf að fá að vita það sem fyrst, hvort hún fær afl í Soginu, og með hverjum kjörum. Ef þetta þing ræður ekki fram úr þessu nú, þá mun varla hægt að verjast lengur gegn ákafa þeirra, sem vilja virkja Elliðaárnar. Þar sem hjer er nú að ræða um fyrirtæki, sem landssjóður ábyrgist, ætti það að ýta undir þingið til að hefjast nú handa og taka það ráð, er flestum sýnist best, en það er að lögnema Sogið, eða ná því með samningum.

Þá rjeðst hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) á þá hugmynd, að vilja nú lögnema Sogið; taldi hann það þýðingarlaust, óhagkvæmt og jafnvel skaðlegt. Þetta þykir mjer harla undarlegt, þar sem ekki er lengra síðan en í gær, að hann var einn flutningsmanna að samskonar till., og er 2. liður hennar svona — með leyfi hæstv. forseta —.

„Falli hæstarjettardómur í væntanlegu máli út af vatnsorkunáminu á þann veg, að einstaklingar eigi vatnsorku þá, er þeir hafa talið sjer, en eigi ríkið — að gera ráðstafanir til þess, að ríkið þá engu að síður nái, gegn bótum, fullum umráðum og notarjetti á vatnsorku Sogsfossanna“.

Þá er það nauðsynlegt að taka Sogið! Jeg fæ ekki betur sjeð en allar röksemdir hans móti vorri till. sjeu fallnar með þessu, og sje jeg ekki betur en að hann sje nú að glíma við sjálfan sig, eða þá að honum hafi enginn hugur leikið á því í gær, að þessi till. hans yrði samþykt. En ef menn vilja gera tilraun um eignarrjettinn á vatni með því að láta dómstólana skera úr, þá má velja til þess einhverja sprænu, sem litlu skiftir þótt ekki fáist dómur um í bráð, en hitt væri óhæfa, að velja Sogið til slíkra tilrauna og tefja þar með fyrir virkjun þess, og koma jafnvel öllu málinu í óefni með slíkum drætti, eins og margsinnis hefir verið sýnt fram á.

Jeg álít óþarft að deila meira um þetta. Það virðist vera orðið kappsmál sumra manna að vilja fyrirlíta sum lög þjóðarinnar, án þess þó að vilja afnema þau, og ganga svo hreint til verks. Jeg veit, að það mundi valda miklum vonbrigðum, ekki að eins hjer í bænum, heldur og úti um sveitir, ef þessi till. yrði feld. Þjóðin er öll á því, að landið eigi að ná í Sogið, því að hún vill ekki, að það lendi í höndum erlendra auðfjelaga eða braskara. Jeg býst því við, að hv. deild greiði þessari till. atkvæði sitt, og einkum þegar landsstjórnin hefir lýst yfir því, að hún hafi ekkert á móti því, að tillagan verði samþykt.