17.09.1919
Neðri deild: 66. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2387 í B-deild Alþingistíðinda. (2673)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Forsætisráðherra (J. M.):

Það er leiðinlegt að tala við þá menn, sem sjá hvorki nje heyra, eins og hv. þm. Dala. (B. J.). Jeg þóttist hafa tekið það fullskýrt fram áðan, að jeg teldi stjórninni ekki skylt að framkvæma þingsályktunartillögur, sem hún teldi ekki rjettar vera. Þessi stjórn, sem nú fer með völdin, hefir beðið um lausn og hefir þegar fengið hana. Ætlast hv. þm. (B. J.) til, að hún fari enn á ný að beiðast lausnar? Því trúi jeg varla. Að öðru leyti er það á þingsins valdi, hvað það gerir og hve nær því þóknast að benda á nýja stjórn. Það liggur við, að það sje broslegt að heyra hv. þm. (B. J.), sem er orðinn nokkuð gamall í þingsessi, vera að tala um, að stjórnin eigi að fara frá, ef hún framkvæmi ekki tillögur þingsins. Hv. þm. (B. J.) veit þó ofurvel, að til stjórnarinnar hefir verið beint allmörgum tillögum af þinginu, sem hún hefir ekki látið sjer detta í hug að framkvæma; og þó hefir hvorki þessi hv. þm. (B. J.) nje aðrir heimtað, að stjórnin legði niður völdin fyrir þá sök.

Því segi jeg, að það er undarlegt að heyra hv. þm. (B. J.) vera að stagast á þessu nú; þar sem hann veit, hvernig stjórnin hefir farið með þingsályktunartillögur áður, og hann þá þagað við því.

Hvað þýðir það líka að vera að deila um tillögu, sem feld var í gær með allmiklum meiri hluta atkvæða, eða að vera að halda langa fyrirlestra um það, sem ekki kemur þessu máli við? Er það til að lengja þingtíðindin, eða hvað?

Hv. þm. (B. J.) fór ekki rjett með það, sem hann taldi mig sagt hafa, enda er varla við því að búast, þar sem hann leggur það mjög í vana að ganga út úr salnum, er hann hefir lokið ræðum sínum, og hlustar ekki á andmælendur sína. Hann ljet mig hafa sagt, að ekki væri rjettaróvissa um þetta deiluatriði. Það sagði jeg ekki, en jeg sagði, að sjálfur væri jeg fyrir mig ekki í neinni óvissu um þá rjettarspurningu, sem jeg var að tala um. Jeg skil ekki heldur, hvað það á að þýða fyrir hv. þm. (B. J.) að vera að taka það upp aftur, sem hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) hafði sagt; jeg sje ekki, að það sje til annars en að lengja umræðurnar, öllum hv. þingdm. til sárra leiðinda.

Hitt skil jeg vel, að hv. þm. (B J.) hefir komið með brtt.; frá hans sjónarmiði er það rjett að fá út úr þingsályktunartillögunni mesta deiluatriðið, enda hallast jeg að því, að svo muni vera í raun og veru. En að öðru leyti ræður hv. deild, hvað hún gerir við till. í heild sinni.

Jeg held, að það hafi annars ekki verið neitt sjerstakt í ræðu hv. þm. (B. J.), sem jeg tel þörf að svara.