20.09.1919
Neðri deild: 69. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2410 í B-deild Alþingistíðinda. (2685)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Benedikt Sveinsson:

Vjer flm. till. á þgskj. 121 höfum nú gert nokkuð rækilega grein, í umr. þeim, er fram hafa farið um hana, fyrir því, hve mikil er nauðsyn þess, að þessu máli sje hraðað svo, að það nái fram að ganga á þessu þingi. Þarf jeg varla að rifja það upp aftur.

En jeg vil að eins stuttlega drepa á það, að nú stendur fyrir dyrum, að rafveitu verði á komið hjer í Reykjavík. En þá er um tvent að velja fyrir bæinn. Annaðhvort er að koma upp rafveitu við Elliðaárnar, eða fá raforku frá Soginu, með atbeina ríkisins. En ef ekki er vitað með vissu, að landið taki Sogið í sínar hendur, heldur verði það áfram í vörslum þess fossafjelags, er nú telst eiga, þá verður ekki hjá því komist, að Reykjavíkurbær reisi stöð við Elliðaárnar. Undirbúningur er þegar hafinn, svo að hægt sje að hefa verkið, ef ekki sjest fyrir haustið, að landið taki Sogið til virkjunar. Verður þá Reykjavíkurbær að leggja of fjár í litla og óróga stöð við Elliðaárnar, sem mun verða sú dýrasta, sem dæmi eru til. Hún mun kosta að minsta kosti 2½ milj. kr., en krafturinn þó ekki meiri en 1000 hestöfl, og kostar þá 2500 kr. hvert hestafl. Allir sjá, hve andstætt þetta er, þar sem verðið er annarsstaðar, þar sem líkt stendur á, t. d. í Svíþjóð, um 200 kr. hvert hestafl til jafnaðar, eða meira en tíu sinnum minna en verkfræðingur hefir áætlað í stöðinni við Elliðaárnar. En ef þingið lætur undir höfuð leggjast að tryggja landinu yfirráð við Sogið á þessu þingi, þá mun bærinn þykjast neyddur til að lúta að þessu tormiðlaða og dýrkeypta afli úr Elliðaánum.

En það er og önnur ástæða til þess, að undinn sje að þessu bráður bugur En hún er sú, að ef ráðið verður að taka Sogið landinu til handa, þá verður að gera það sem fyrst, vegna verðsins. Sogið hækkar árlega í verði, ef lögnámið dregst. Því nær sem líður því, að vatnið sje tekið til hagnýtingar, því meira er gert að mælingum og öðrum undirbúningi, og því dýrara og erfiðara verður að ná því.

Í þriðja lagi er hætt við meiri mótstöðu síðar meir gegn lögnámi vatnsorkunnar í Sogi til landsþarfa, þegar fossafjelögin hjer. Ísland og Títan, hafa færst meir í aukana. Eins og kunnugt er, eru það enn sárfáir menn hjer á landi, sem bundnir eru við þessi fjelög. En þeir verða að líkindum miklu fleiri síðar. Þetta er rík ástæða til þess, að hafist sje handa, áður en hin ríka, erlenda Gullveig hefir náð hjer meira tangarhaldi.

Það hafa komið fram ýms andmæli gegn till. á þgskj. 121. En jeg er hræddur um, að þau sjeu ljettvæg, þegar brotin eru til mergjar.

Ein höfuðmótbáran hefir verið sú, að enginn vissi, hve mikið afl ætti að taka, og myndi þetta því setja stjórnina hjer í mestu vandræði. Svo ramt hefir að þessu kveðið, að einn hv. þm. hefir fært þetta sem ástæðu til þess, að hann gæti ekki greitt atkvæði með till. En þetta er alveg á sandi bygt. Í fyrsta lagi er í till. mælt svo fyrir, að stjórnin skuli taka alla vatnorku í Sogi. En annars hefði þessi háttv. þm. ekki þurft annað en líta í 13. gr. fossalaganna frá 1907, eina gr., sem skírskotað er til í till. Þar er svo fyrir mælt:

„Stjórnarráð Íslands ákveður í hvert skifti, hversu mikið skuli af hendi látið samkvæmt 12. gr.

Hjer er því í lögunum sjálfum algerlega ákveðið, hversu að skuli farið í þessu efni og að alt skuli undir því komið, hvað stjórninni þykir henta í hvert sinn. Menn sjá því, að það, sem hjer háir mönnum, er að þeir hafa ekki lesið meira en 12. gr., því að ef þeir hefðu einnig lesið 13. gr., hefðu þeir ekki borið fram jafnveigalitla mótbáru, sem bygð er á misskilningi og engu öðru.

Hjer er því ekki um nein vandkvæði að ræða. Það er algerlega á valdi stjórnarinnar að dæma um það á sínum tíma, hve mikið hún skuli taka, og eru því engir agnúar á till. í því efni.

Þá hefir það verið tekið fram af einum hv. þm., að rjett sje að reyna fyrst að fara samningaleiðina, áður en önnur leið sje upp tekin. En jeg vil benda honum og öðrum á, að slíkt er einmitt tilætlun till. á þgskj. 121. Samkvæmt henni fer stjórnin eftir lögunum um þetta efni, sem skírskotað er til, en í þeim er beint ákveðið í 14. gr., að samningaumleitanir skuli fyrst og fremst fara fram. Samkvæmt till. og lögunum er gert ráð fyrir, að samninga sje freistað fyrst. En svo er sagt í gr., að „ef samningum verði ekki við komið“, þá skuli taka fossana, að undangengnu mati. Þessi önnur höfuðástæða gegn till. er því á engum rökum bygð, fremur en hin fyrri.

Þá hefir tilvitnunin í fossalögin frá 1907 verið sumum þyrnir í augum. Hefir þeim þótt, sem hjer væri verið að teyma inn í deildina ákveðinn skilning á eignarrjettarspurningunni í fossamálinu. En eins og áður hefir verið tekið fram, þá fer fjarri, að tilætlunin væri sú, enda sje jeg alls ekki, að þann skilning þurfi að leggja í till. Það er alls ekki í þeim tilgangi vitnað í fossalögin frá 1907, heldur af því að þar eru ákvæði um, hvernig eignarnám skuli gera á fossum. Við flm. þektum ekki önnur lagaákvæði um það. Nú hefir hv. þm. Dala. (B. J.) flutt brtt. um að fella þessa tilvísun niður, og kveðst þá munu veita till. fylgi sitt. Jeg sje nú ekki nokkurn hlut á móti því frá mínu sjónarmiði að þessi tilvísun sje feld burtu. Jeg sje ekki annað en að það komi í sama stað niður. Stjórnin framkvæmir lögnámsgerðina samkvæmt ákvæðum laganna, hvort sem tilvísunin er í till. eða ekki Kemur það því í einn stað niður. Ef það er hv. þm. (B. J.) geðfeldara, að tilvísunin sje ekki í till., er mjer hjartanlega sama þótt jeg sjái ekki, að með því sje nein efnisbreyting gerð á till.

Aðalatriðið er, að landið nái skilyrðislaust og deilulaust tangarhaldi á vatnsorkunni í Soginu.

Þá vil jeg enn fremur minnast á nokkur atriði, sem komið hafa fram hjá einstökum hv. þm. Verður þá fyrst fyrir mjer hv. þm. S.-Þ. (P. J.). Hann talaði nú sem fyr eindregið móti því, að landið helgaði sjer vatnið í Soginu. Var það skiljanlegra að heldur en við 1. umr., þar sem það er bert orðið, að hann er hluthafi í fossafjelaginu „Ísland“ og einn í stjórn þess. Áleit hann algerlega óþarft að gera eignarnám, þar sem landið hefði engin tök á að nota sjer vatnið fyrir kostnaðar sakir, en einkum lagði hann áherslu á, að ekki væri kominn tími til að taka Sogið eignarnámi, því að fyrst þyrfti að tryggja fjeð. Hjer finst mjer meir kenna þess, að hv. ræðumaður er gamall „factor“ — hann hefir um langan aldur stýrt stórri verslun (kaupfjelagi) — heldur en að hann er íslenskur þingmaður. Þrautreyndur kaupsýlumaður sjer, að varan muni hækka í verði og er því eðlilegt, að hann vilji, sem góður stjórnari, draga söluna. Hitt er aftur minni hagsýni af landinu, að nota ekki rjett sinn sem fyrst, og ekki verður fátæku landi hagfeldara að kaupa síðar dýrara verði. Enda sagði þessi sami hv. þm. (P. J.), að ef ríkið ætlaði að virkja fossana, mætti það ekki dragast, og er þetta alveg rjett hjá honum, því að þörfin knýr á þar sem Reykjavík er, og einmitt hennar vegna er nauðsynlegt, að eitthvað sje hafist handa nú þegar. Svo sneri hv. þm. (P. J.) aftur við blaðinu og sagði, að það væri óþarft fyrir íslenska ríkið að leggja fje fram til þess að beisla Sogsfossana hefði það annað við sitt fje að gera. Jeg skal ekki neita því, að Ísland hefir nóg við sitt fje að gera, en þar sem það er alment viðurkent, að fossavirkjun borgar sig oftast ágætlega, hví má þá ríkissjóður vor ekki leggja fje í þetta á móti Reykjavík og öðrum bæjum eða fjelögum hjer innan lands, þar sem þörfin fyrir rafmagn er mikil, bæði fyrir höfuðstað landsins og aðra bæi og sveitir hjer nærlendis? Hv. þm. (P. J.) vildi geta þess til, að virkjunin kostaði 20–30 milj. kr. Jeg held, að hann hafi lagt of mikið í, því að eins og jeg gat um áður, kostar hestorka í Svíþjóð ekki meira en 200 kr. til jafnaðar, og í Noregi hefir hún kostað helmingi minna, þar sem best hefir staðið á. Samkvæmt þessu kostaði ekki meira en 12 miljónir að taka alla orku í Soginu, en nú er engin nauðsyn á að nota alt aflið í einu, og sjálfsagt að sníða sjer stakk eftir vexti. Mjer er nær að halda að hestorkan yrði ekki mikið dýrari í Sogi heldur en hún hefir verið í Noregi, þar sem vel stendur á. Aðgætandi er, að það, sem oft hleypir kostnaðinum gríðarmikið fram, er það, að gera þarf afarstóra vatnsgeyma með geysimiklum stíflum, sem kosta of fjár, en slíkir geymar gerðir af mannahöndum, munu varla hafa tekið meira en þúsundasta hluta af því, sem sá geymir tekur, er Sogið fellur úr og náttúran sjálf hefir fengið Íslendingum ókeypis, en það er Þingvallavatn. En geymirinn tryggir og jafnar því betur vatnsmegnið, sem hann er stærri. Mjer er því nær að halda, að virkjun Sogsins sje sú allra ódýrasta, sem völ er á, og er hún t. d. miklu ódýrari en virkjun Þjórsár, því að þar er enginn geymir af náttúrunnar hendi, er að haldi komi, heldur er það ýmist, að áin grynnist mjög, eða hún fer beljandi yfir bakka og eyrar. Veit jeg þó ekki betur en að útlend gróðafjelög sækist fast eftir að fá að virkja þetta breytilega stórfljót. Ólíklegt er, að Títan ætli sjer að leggja fje í þetta fyrirtæki til þess að tapa því. Þá sagði sami hv. þm. (P. J.), að það yrði snubbótt svar, sem fossafjelagið Ísland fengi við beiðni sinni um að mega virkja Sogið, ef þessi till. yrði samþykt og ekki annað. Mjer liggur það nú satt að segja í ljettu rúmi, hvað þessu erlenda fossafjelagi kann að þykja snubbótt, enda veit jeg ekki betur en að hið íslenska ríki sje engum vanda bundið þessu fjelagi. Það er útlent prangarafjelag, sem náð hefir valdi á vatni austur þar, en svo kemur það nú upp úr kafinu, að það ætlar ekki að nota þetta vatn sjálft, heldur afhenda rjett sinn öðrum útlendingum eða vera leppur fyrir annað fjelag. Þetta fjelag þarf því ekki að vera neinn þjóðardýrlingur Íslendinga. Slíkar mótbárur sem þessar ættu ekki að heyrast hjer, og því síður ætti ríkið að taka nokkurt tillit til þessa fjelags.

Hv. 2. þm. Árn. (E. A.) mælti gegn till. vegna þess, að ekki lægju fyrir frumdrættir af virkjuninni, enda gæti orðið dómstólamál, hvort landið mætti taka vatnið eignarnámi. Jeg held, að það sje næg ástæða fyrir hendi, þar sem er almenningsheill sem krefur þessa, og álít jeg, að þingið sje fært um að dæma, hvort hún er fyrir hendi eða ekki. Og að það þurfi að vera til frumdrættir af mannvirkjunum tel jeg fjarstæðu eina. Annars þurfa menn ekki að vera hræddir við fossafjelagið „Ísland“, þótt það fengi þetta svar, því að fjelagið hefir náð valdi á öðru vatni, þar sem Gullfoss er, en getur að vísu ekki hagnýtt sjer hann nema leyfi þings og stjórnar komi til. Þessu fjelagi þýðir því ekki að reisa sig hátt að svo stöddu, því að svo fremi sem það vildi streitast gegn því, að landið hagnýti sjer Sogið, sem það getur að vísu ekki, þá mundi með öllu vonlaust, að því yrði nokkurn tíma leyft að taka hjer nokkurt vatnsafl sjálfu til notkunar.

Þá sagði þessi sami þm. (E. A.), að verðið yrði nú hærra en það, sem keypt var fyrir. Þetta er nú fyrst og fremst undir samningunum komið, og svo matsmönnunum, og þótt þeir metti svo hátt, að ríkinu fyndist það ekki geta við unað, þá væri hægur vandinn að skipa yfirmatsmenn. Þetta er því ekki á fullum rökum bygt, og mun ríkið altaf geta haft yfirhöndina og gætt þess, að ekki verði okrað á vatninu. Þar sem þessi sami hv. þm. (E. A.) vitnaði í hlutafje fossafjelagsins

„Títans“ og sagði það 12 milj., þá vil jeg láta þess getið, að þetta er ekki fjeð sem lagt hefir verið fram til kaupa á fossaflinu, heldur hefir því verið safnað til þess að leggja í fyrirtækið. (B. J.: Þeir hafa búið sjer þetta hlutafje til með því að kalla fossana svona mikils virði). Þetta er öfugt við það, sem annar maður úr fossanefndinni segir, því að hann segir, að fjelagið hafi safnað tólf miljónum til verklegra framkvæmda, er fossaflið sjálft hefir kostað mjög lítið móti því. Þetta er því gripið úr lausu lofti.

Hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) kvaðst ekki geta greitt þessari till. atkv. sitt af því, að ekki gæti stjórnin vitað, hversu mikið ætti að taka. Stjórnin verður búin að átta sig á því, þegar að því kemur, að fremja skal eignarnámið. Yfir höfuð fanst mjer hans ástæður vera mjög veigalitlar. Fetaði hann trúlega í fótspor hv. þm. S.-Þ. (P. J.) og taldi hann engum trúandi fyrir að virkja Sogið nema þessu útlenda fjelagi.

Jeg hefi nú athugað allar helstu mótbárur hv. þm. og sýnt fram á, að þær eru ekki á miklum rökum bygðar. Það sem mestu máli skiftir er það, að ríkið nái tökum á Soginu meðan Reykjavík þarf þess við, og áður en það stígur í verði, og áður en útlendir peningar ná meira valdi á hugum manna, bæði utan þings og innan, heldur en enn þá er orðið.