20.09.1919
Neðri deild: 69. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2426 í B-deild Alþingistíðinda. (2691)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg hefi, eins og hv. deild er kunnugt, ekki blandað mjer mikið inn í hinar miklu umræður um fossamálið. Jeg er hvorki lögfræðingur „af prófi eða náð“, og læt því lögfræðisspurningarnar liggja milli hluta. En jeg hefi verið vanastur við að fást við framkvæmdir ýmissa mála, og jeg hefi töluvert hugsað um framkvæmdir tillagna þeirra, sem komið hafa fram í fossamálinu, og þá líka þessa tillögu. Jeg sje ekki betur en að þetta „nú þegar“ í tillögunni hljóti að taka alllangan tíma. En hins vegar geri jeg ráð fyrir, að flutningsmenn tillögunnar fari fram á, að brátt sje byrjað á einhverjum framkvæmdum, en þeir verða sjálfsagt að sætta sig við fyrst um sem, að framkvæmdirnar verði fólgnar í rannsóknum og undirbúningi. Það má gera ráð fyrir, að skortur verði á innlendum mönnum til að vinna að rannsóknunum og undirbúningnum; flestir þeirra, sem til þess eru hæfastir, munu hafa ærið nóg að starfa. Það getur því rekið að því, að fá verði útlendinga til að vinna að þessu, og tefur það að líkindum nokkuð fyrir framkvæmdunum, að menn eru ekki hjer fyrir hendi til að vinna að þeim. Auk þess fer nú vetur í hönd, og þegar hríðar eru komnar og snjór, verður erfitt að rannsaka til hlítar landslag og aðstöðu alla. Er því ekki annað fyrirsjáanlegt en að rannsóknin verði að meira eða minna leyti að dragast til næsta sumars. Þó er af annari hálfu geri ráð fyrir, að stjórnin leggi málið fyrir næsta þing. En eftir því, sem málið horfir við mjer, sýnist mjer hæpið, hvort svo muni geta orðið, einkum ef þingið kemur saman ekki allseint á næsta vetri. Að þessu leyti þykir mjer dagskrá hv. þm. V. Sk. (G. Sv.) aðgengilegri; hún er ekki eins tímabundin eins og tillagan.

Þetta, sem jeg hefi sagt, er að eins skoðun mín sem þingmanns, en eigi sem ráðherra.