20.09.1919
Neðri deild: 69. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2427 í B-deild Alþingistíðinda. (2692)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Einar Jónsson:

Eins og öllum er kunnugt, var það fyrirsjáanlegt, að mörg stórmál mundu koma fyrir þing þetta, og eitt af þeim er fossamálið. Margir höfðu búist við því og spáð því, að það mundi verða betur undirbúið en önnur mál, sem fyrir þingið yrðu lögð, þar sem það hafði ein tvö ár verið til meðferðar í milliþinganefnd. En þrátt fyrir þetta sýnast þó vandræðin ætla að verða mest með þetta mál. Það er hörmulegt til þess að vita, að fossanefndin, jafngóðum mönnum sem hún er skipuð, skyldi ekki komast að annari niðurstöðu en að lenda út í eignarrjettarspursmálið og sitja þar föst; mun það þó ekki hafa verið lagt fyrir hana að fást við það. Af hinum skammarlega löngu ræðum undanfarna daga, og að miklu leyti óþörfu málalengingum, hefi jeg komist að þeirri niðurstöðu, að aldrei hefði átt að hreyfa við þessu spursmáli; það var líka allsendis óþarft, því að almenningur hefir fyrir löngu útkljáð það sín á milli.

Eftir alla þá tugi þúsunda króna, sem eytt hefir verið í þetta mál, ætlar það að engu að verða í höndunum á þinginu, og það af því einu, að nefndin vakti upp þennan óþokkadraug, sem þingið hefir einlægt verið að glíma við. Það er hörmulegt, að svona skyldi fara. Nú höfum við fengið yfirlýsing frá hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), af hverju allur þessi háski stafi. Hann segir, að það komi til af því að sæti hafi átt í milliþinganefndinni hv. þm. Dala. (B. J.) og hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), því að þeim geti aldrei komið saman um nokkurn hlut, og þá var svo sem vitanlegt, að þeir mundu finna sjer til eitthvert ágreiningsefnið. Þetta held jeg að sje rjett athugað, og það var ljóta slysnin af stjórninni að setja þá saman í nefnd þessa. En skaðinn er nú skeður, og tjáir ekki um að tala. En til að gera nefndinni ekki eintóma skömm, þá held jeg, að hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) hafi hitt besta ráðið og hyggilegasta með tillögu sinni, til að sýna, að í raun rjettri hafi ekkert verið gert í málinu. Þó er þetta má ske ofurlítið ofmælt, því eftir því, sem mig minnir, lítur út fyrir, að almenningarnir ætli að fljóta ofan á. Það hefir komið fram í umræðunum, að um eignarrjettarspurninguna þurfi ekki að ræða, því að hún væri ákveðin og afgerð í lögum og hefði nefndin því ekki þurft að fara neitt út í það, og með því vekja alla þessa þrætu, sem líklega leiðir það af sjer, að fossagullnáman verður að líkindum ekki opnuð um langan tíma enn. Það er undarlegt, að þar sem við kveinum og kvörtum yfir þungum skattaálögum, getum við þó horft á þessa gullnámu ónotaða, eða að minsta kosti sýnist hv. þm. Dala. (B. J.) ekki sjerlega ant um að flýtt sje fyrir að ausa fje úr henni.

Mjer hefði ekki dottið í hug, að tímanum hjer yrði varið til þess að taka upp dag eftir dag sömu atriðin og vera sí og æ að stagast á því, hvaða hætta þjóðerninu væri búin af innflutningi útlendinga. Jeg er orðinn þreyttur að hlusta á alt þetta mas, og hefi ekki annað að segja en það, sem aðrir eru búnir að segja, en mjer dettur ekki í hug að eyða tímanum í þann óþarfa. Það mega þeir gera fyrir mjer, sem gaman hafa af því.

Jeg skal svo enda þessa stuttu ræðu með því að segja, að það sje best að láta þá endalykt verða á öllu þessu mikla máli, að gera ekki neitt, og því skulum við samþykkja dagskrá hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.); þá getum við sagt kjósendunum, þegar heim kemur, að eftir öll afrek milliþinganefndarinnar hafi þingnefnd setið með sveittan skallann yfir málinu mestallan þingtímann, og að mestu ósköp hafi verið talað um málið í þingdeildinni, en að alt hafi endað með því, að málið sitji í sama farinu, eins og þegar á því var byrjað.