23.09.1919
Neðri deild: 71. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2450 í B-deild Alþingistíðinda. (2703)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg skal játa það, að lánsheimild fyrir stjórnina er rjettast að samþykkja með lögum frá Alþingi.

Jeg kom fram með brtt við þessa þingsályktun, og sú brtt. fór í þá átt, að stjórninni væri heimilað í þingsál tillögu að taka lán, ef á þyrfti að halda, til þeirra framkvæmda, sem hjer er um að ræða. Kom jeg meðfram með þessa breytingartill. til þess, að vöntunin á lánsheimild yrði ekki brúkuð sem átylla til þess að fella gott mál, en einn hv. þm. hefir þegar borið þessa átyllu fram. Hins vegar var mjer við nánari athugun ljóst, að hægt er að komast af án lánsheimildar, og hefði jeg því getað dregið breytingartillöguna til baka.

En nú hefir hæstv. forseti (Ó. B.), meðan jeg var fjarverandi, úrskurðað, að þessi brtt. geti ekki komið til meðferðar eða atkvgr., vegna þess, að það stríði á móti stjórnarskránni, því að í 26. gr. hennar sje svo ákveðið, að ekki megi stjórnin taka lán nema með lagaboði.

Þessi úrskurður fer í bága við þær þingvenjur, sem orðnar eru um lík mál, og einnig í bága við aðra úrskurði hæstv. forseta.

Ef brtt. hefði verið samþ., þá var stjórninni með því ekki veitt fullgild lánsheimild, en að eins fyrirheit af þingsins hálfu, að það mundi ekki átelja stjórnina fyrir lántökuna, og enn fremur fyrirheit um að staðfesta síðar lánsheimildina á formlegan hátt.

Hæstv. forseta er kunnugt um, að samkvæmt 27. gr. stjórnarskrárinnar má ekkert gjald greiða af hendi án heimildar í fjárlögum eða fjáraukalögum. En þrátt fyrir þetta hefir stjórninni hvað eftir annað verið heimilað að greiða fje úr landssjóði með þingsályktunartill., og í dag er verið að ræða eina slíka tillögu, þar sem stjórninni er heimilað að verja stórfje úr landssjóði, án fjárlaga- eða fjáraukalagaheimildar, og hæstv. forseti hefir ekki gert nokkra athugasemd við þá þingsályktunartillögu.

Hjer stendur nú alveg eins á, þótt um lánsheimild sje að ræða.

Á þingi 1914 var mikið um það deilt, hvort þetta skyldi leyft, en úrskurður fjell svo, að það væri heimilt.

Hæstv. forseti vill ef til vill skjóta sjer undan með því, að slíkar fjárveitingar verði samþyktar í fjárlögum eða fjáraukalögum síðar. En engin vissa er fyrirfram fyrir slíku samþykki, enda gildir alveg sama um lánsheimild með þingsályktunartillögu; hana má á eftir staðfesta með lögum.

En auðvitað þýða þessar heimildir ekki annað en það, að ekki verði komið fram ábyrgð á hendur stjórninni, þótt hún noti fje þetta. Og alveg hið sama er að segja um þessa lánsheimild.

Jeg get því ekki sjeð annað en að hjer komi fram mjög svo mikið ósamræmi í þessum úrskurði hæstv. forseta, svo mikið, að mig stórfurðar á úrskurðinum.