23.09.1919
Neðri deild: 71. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2453 í B-deild Alþingistíðinda. (2705)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Fjármálaráðherra (S. E.):

Það er rjett hjá hæstv. forseta, að hjer er ekki um fullkomna heimild að ræða, heldur verður að treysta því, að slíkar fjárveitingar verði samþ. síðar í fjáraukalögum.

En sama er að segja um lánsheimildina. Hún væri að eins gefin stjórninni í því trausti, að þær gerðir hennar yrðu samþyktar síðar.

Jeg skal geta þess, að í vetur tók stjórnin á sig ábyrgð á láni til rafveitu Reykjavíkur, í trausti þess, að þingið veitti ábyrgðarheimildina síðar. Öll stjórnin, forsætisráðherra einnig, var samþykk þessari ráðstöfun. Nú er það sýnilegt, að það er jafnmikil áhætta fyrir ríkissjóð að binda hann við stórar ábyrgðir eins og að binda hann við lán.

Ef nú ákvæði stjórnarskrárinnar væru tekin eins stranglega og bókstaflega og hæstv. forseti vill vera láta nú, þá mundi þessi ábyrgð stjórnarinnar sjálfsagt teljast brot á stjórnarskránni.

Engum hefir þó dottið í hug að ákæra stjórnina fyrir slíkt brot. Undir þeim sjerstöku kringumstæðum, sem fyrir hendi voru, taldi þingið með samþykki sínu, að stjórnin hefði farið rjett að.

Jeg býst líka við, að stirt yrði um ýmsar fjárgreiðslur, ef aldrei mætti víkja neitt frá því, sem í fjárlögunum stendur.

Mín till. er því í fullu samræmi við þær venjur, sem hjer hafa gilt, og jeg get ekki sjeð, að sú heimild, sem í henni felst, sje að neinu leyti hættulegri en þær heimildir, að veita fje úr ríkissjóði með þingsályktunum, sem nú við gangast, og hæstv. forseti hefir á ný látið við gangast, með því að gera langa athugasemd við það, þó með þessari þingsályktunartillögu sje heimilað að veita stórfje úr landssjóði, án nokkurrar fjárlagaheimildar.

Ósamræmið hjá hæstv. forseta er greinilegt. Það er öllum auðsætt, sem vilja líta í stjórnarskrána. Annars var mjer ekkert kappsmál, að tillaga þessi væri samþykt, af ástæðum þeim, sem jeg tók fram hjer að framan.