23.07.1919
Neðri deild: 14. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

38. mál, ríkisborgararéttur

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg leyfi mjer að geta þess, að frv. þetta er að skoða sem afleiðing af sambandslögunum og að nokkru leyti sem viðbót við þau. Það er komið fram við samkomulag, er skifta skyldi þegnunum milli ríkjanna, og er bygt á þjóðerni; voru allir málsaðiljar sammála um, að það væri hinn rjetti skiftigrundvöllur. Jeg hygg, að hepnast hafi að haga ákvæðunum þannig, að allir geti vel við unað, enda hefi jeg ekki annað heyrt hjer í þinginu, og báðir hlutar lögjöfnunarnefndarinnar voru ánægðir með þau.

Jeg skal geta þess að ákvæðin í 7. og 9. gr. segja má ske meira en bein ástæða er til. Þar segir, að þegnar annara ríkja en Íslands og Danmerkur, sem lögheimili áttu á Íslandi 1. des. 1918, haldi heimilisfangi sínu þrátt fyrir breytinguna. Meiningin með þessu er ekki önnur en sú, að lög þessi eigi ekki að hafa nein áhrif á ríkisborgararjett þeirra. Það er alls eigi tilgangurinn að fara að gefa reglur um það hjer, hvort ríkisborgarar annara ríkja skuli halda borgararjetti sínum eða ekki. Það heyrir undir hlutaðeigandi ríkisvöld að kveða á um slíkt. Þetta er að eins formleg athugasemd frá minni hálfu og má athuga þetta atriði betur við seinni umr. málsins, ef þörf þykir.