23.09.1919
Neðri deild: 71. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2460 í B-deild Alþingistíðinda. (2710)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Jörundur Brynjólfsson:

Það var örstutt athugasemd út af orðum hæstv. forsætisráðh. (J. M.).

Það, sem jeg fann stjórninni til foráttu, var, að hún hafði ekkert gert til að afgreiða það erindi, sem hv. fjárhagsnefnd kom með út af frv. hv. þm. Dala. (B. J.) og þingið þá vísaði til stjórnarinnar. Tilætlun fjárhagsnefndar og þingdeildarinnar var sú, að stjórnin athugaði og undirbyggi þetta mál sem fyrst að unt væri, og einmitt þau atriði, er frv. fjallaði um. Mjer er ekki kunnugt um, að stjórnin hafi gert nokkuð í þessu.

Jeg vona, að það sjeu ekki mjög margir með líkum hugsunarhætti og þm. S.-Þ. (P. J.). Hann talaði um, að fram kæmi galgopaleg hugsun í málinu frá okkur flm. þessarar tillögu og þeim, er greiddu henni atkvæði. En sje litið á málið frá sjónarmiði þjóðfjelagsins, en ekki frá sjónarmiði fossafjelagsins „Íslands“, þá er jeg í engum vafa um, að hjá honum í þessu máli lýsir sjer hið mesta ábyrgðarleysi, og ólíkt meira en okkur, sem viljum fá till., samþ.