16.09.1919
Neðri deild: 65. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2469 í B-deild Alþingistíðinda. (2732)

158. mál, réttur ríkisins til vatnsorku í almenningum

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Jeg skal leyfa mjer þegar í stað að mælast til, að hæstv. stjórn, og þá sjerstaklega hæstv. forsætisráðh. (J. M.), vildi vera við umr. um vatnamálin, sem ræða á í dag. (J. M.: Hvers vegna þá helst forsætisráðherra?). Jeg sje að hann er nú hjer viðstaddur; annars nefndi jeg fyrst landsstjórn, og jeg býst við, að hann kannist við, að hann teljist til hennar.

Hvað snertir þessa till., þá er í byrjun eins að geta, að hún er borin fram í samræmi við þá niðurstöðu, sem milliþinganefndin í fossamálinu komst að um þetta atriði. Samvinnunefnd allri nema einum, þótti rjett, að þetta kæmi fram þannig orðað, eða eitthvað í þessa átt að landsstjórnin lýsi alla vatnsorku í almenningum og afrjettum eign ríkisins: þar af leiðir svo, að landsstjórnin hlýtur að gera ráðstafanir. ef með þarf til þess, að rifting fari fram á gerningum milli einstaklinga eða fjelaga, er í bága kynnu að fara við þennan rjett þjóðfjelagsins. Það er svo sem sjálfsagt, að stjórnin færi að þessu eins og henni þætti best til fallið. Jeg hefi orðið þess var, að í fyrra var af hálfu stjórnarinnar send út auglýsing til allra sýslumanna, sem oddvita sýslunefnda, þar sem ríkið telur sig hafa allan rjett til vatnsorku í almenningum og afrjettum. Mun þetta hafa gert verið af því, að fossanefndin hafi tilkynt stjórninni, að hún hefði komist að þessari niðurstöðu. Þótt nú þessi tilkynning hafi verið send út, þá er mjer ekki kunnugt um, að hún hafi verið þinglesin, en þessu er auðvitað sjálfsagt að þinglýsa. Tel jeg og hv. meiri hluti nefndarinnar sjálfsagt, að stjórnin sjái svo um, að þeir samningar, er gerðir hafa verið um vatnsorku á þessum stöðum, fái ekki haldið gildi sínu: þarf stjórnin, ef til vill, til þess að fara í mál. Og þótt nú samningunum verði rift, getur það ekki komið til mála, að stefnandi, sem verður landsstjórnin, bæti nokkru þeim, er rjettinn missa. Hitt, hvort yfirleitt nokkuð þurfi að bæta, tel jeg óskylt að athuga hjer, eða hvort einstaklingar eða einstök hreppafjelög, sem ef til vill hafa selt vatnsafl í afrjetti, yrðu fyrir málsókn af hálfu kaupenda, fyrir að selja það, sem þau ekki áttu. Er það mjög óvíst, hvort bætur kæmu fyrir af hálfu hreppa, einstaklinga eða sýslufjelaga.

Einn nefndarmaður, hv 1. þm. Ám. (S. S.), óskaði ekki að bera fram með hinum hluta nefndarinnar þessa till. Er mjer ókunnugt, af hverju hann skar sig úr og vona jeg, að hann skýri frá því við þessa umr.

Að svo mæltu sje jeg ekki þörf á að fjölyrða frekar um þessa till. í svipinn.