16.09.1919
Neðri deild: 65. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2472 í B-deild Alþingistíðinda. (2734)

158. mál, réttur ríkisins til vatnsorku í almenningum

Sveinn Ólafsson:

Þessi þingsál. á þgskj. 794 er komin fram í samræmi við niðurstöðu milliþinganefndarinnar um vatnsrjettindi í öræfum og almenningsafrjettum. En það er meira um till. að segja. Hún er komin fram á þeim tíma, þegar nefndin var óskift, eða áður en sú nýstárlega kenning kom fram, að ríkið ætti alt vatn á löndum einstakra manna. Till. styðst við það, að ríkið eigi almenningana. Nefndin var vitanlega í upphafi öll þeirrar skoðunar, að landið helgaði sjer vatnið, og af því að engir einstakir menn eða hreppar eiga öræfin, þá eru þau ríkiseign. Þetta er undirstaða þessarar till.

Það mætti segja, að stjórnin hefði fallist á þessa niðurstöðu, því að hún hefir látið lögreglustjóra hvarvetna tilkynna, að hún gerði kröfu til vatnsrjettar á þessum svæðum, fyrir hönd landsins, og mætti því líta svo á, að þetta væri útkljáð og þessum rjetti væri lýst nægilega. En engin þingsákvörðun hefir verið tekin í málinu, og þess vegna er rjett að samþykkja till. Hún er beint framhald af þeirri þingsályktun, sem samþ. var á þingi 1917. um rannsókn á þessum rjetti, og borin var fram af háttv þm. V.-Sk (G. Sv.), eins og líka af niðurstöðu milliþinganefndar, og er rjett, að þessi skoðun fái þinglega viðurkenningu.

Jeg veit, að með þessari till. er ekki skorið úr því, hvar takmörkin eru milli rjettar einstaklingsins og ríkisins. Sumir afrjettir eru eign eða hluti af fasteign einstakra manna eða hreppa. Þess vegna er líklegt, að deilt verði um það, hvar línuna eigi að draga. En það virðist eiga að vera dómstólamál, þar sem þær eru óglöggar og eigi semur. Og er jeg þar sammála samvinnunefnd. Hitt er ekki að efa að þar sem um almenninga er að ræða þar á ríkið orkuna og enginn annar.

Jeg ætla að leyfa mjer að geta þess út af ummælum, sem iðulega hafa komið fram í blöðum og víðar, um að deilur og málaferli hafi staðið um langt skeið um vatnsrjettindi í Noregi, milli ríkisins og landeigenda, þá er þar oft blandað málum. Það er rjett, að nokkur mál hafa staðið um það, hvar mættust rjettur einstaklingsins og ríkisins, þar sem einstakir menn áttu land að almenningum. Takmörk á eignum einstaklinga hafa ekki verið skýr og hafa þau ekki verið ákveðin nákvæmlega fyr á tíð, en nú sumstaðar með dómi. Menn hafa þar víða í seli. og selbændur töldu sig eiga alt landið í kring. Það hefir verið um það deilt, hvort þetta væri rjett á litið eða ekki, og hafa allar vatnadeilur staðið um þetta eða þá landamerkin, en aldrei um hitt hvort einstaklingarnir ættu vatnið á sínu eigin landi. Deilan hefir ekki staðið um vatnið, heldur landið því að sá á vatnið, sem landið á undir því, eins þar sem hjer og Norðmenn hafa aldrei dregið það í efa.

Hv. 1. þm. Árn. (S. S.) lagði á móti þessari till. og fanst hún ekki tímabær.

Hann taldi, að hún mundi valda eignatjóni þeim einstökum mönnum og hreppum, sem fargað hafa vatnsrjettindum í óbygðum. Það er rjett að ekki verður hjá því komist að rifta samningum einstakra manna eða hreppa á slíkum rjettindum, ef till. gengur fram, þó mildilega verði á tekið, af því að selt hefir verið í góðri trú.

En þar sem hv. þm. sagði, að ekki lægi á þessu, vegna þess að orkan yrði ekki notuð í bráð, þá er það ekki rjett. Jeg skal benda á það, að þó Hvítá t. d verði virkjuð fyrir neðan Hestvatn, hvað þá heldur ef hún verður virkjuð ofar, þá hefir það í för með sjer, að gera verður vatnsmiðlun í Hvítárvatni. Líkt er að segja um aðrar stórár. Það yrði að grípa til vatna í óbygð, til þess að þurfa ekki að taka haga eða engi undir vatnsmiðlun, sem óhjákvæmileg væri. Þetta er því ekki rjett hjá hv. 1. þm. Árn. (S. S.).

Jeg ætla ekki að fara lengra út í þetta mál að sinni, en legg með því, að till. verði samþ., því hún er fyllilega tímabær og nauðsynleg.