16.09.1919
Neðri deild: 65. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2476 í B-deild Alþingistíðinda. (2737)

158. mál, réttur ríkisins til vatnsorku í almenningum

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Það sýnist svo, sem til þess gæti komið, að samkomulagið um tillögu þessa yrði lítið betra hjer í deildinni en samkomulagið um vatnsrjettindin var í fossanefndinni. Er það merkilegt að svo fari um þessa tillögu, sem bæði jeg og hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) teljum sjálfsagða og beint framhald af því sem á undan er gengið.

Það kemur kynlega fyrir, að hv. 1. þm. Árn. (S. S.) skuli telja tillögu þessa gönuhlaup og er slíkt sagt alveg út í bláinn. Með henni er ekki annað gert en að binda enda á það, sem áður var hafið. Þingið 1917 samþykti þingsályktunartillögu um að fela stjórninni að láta fram fara rannsókn á eignarrjetti til vatnsorku í almenningum og afrjettum landsins eða fastákveða, að ríkið ætti vatnsorku þessa, því að flestir þóttust þegar vita, að sú mundi verða niðurstaða rannsóknarinnar. Og nú kemur nefndin með tillögu þessa, sem yrði að niðurstöðu þingsins í málinu: hún á að gefa til kynna, verði hún samþykt hvað þingið ætlist til að gert sje við málið.

Hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) tók einkennilega óstint upp tillögu þessa. Mjer kom það á óvart að hann, hinn eini „jafnaðarmaður“ þingsins, skyldi ráðast á jafnmeinlausa tillögu og sjálfsagða sem þá að skora á landstjórnina að lýsa ríkiseign vatnsorku þá, sem allflestir telja að sje það í raun rjettri. Það þarf ekki að minna á, í hvílíku ósamræmi þessi framkoma er við skoðanir jafnaðarmanna sem vilja draga alt inn undir yfirráð ríkisins og telja, að það eigi að slá eign sinni ekki einungis á vatnsföllin, heldur landið alt og landsnytjar. Það er undarlegt að hv. þm. (J. B.) skuli hverfa svo mjög frá skoðunum flokksbræðra sinna við það, að flytja í nánd við orkuvötnin, eða þótt hann sje fluttur úr Reykjavík austur í Árnessýslu. Jeg fæ eigi heldur sjeð, hvernig hv þm. (J. B.) getur lýst því yfir, að tillaga þessi sje óþörf og ekki aðkallandi. Jeg hjelt, að það gæti þó aldrei verið óþarft að komast að fastri niðurstöðu um hvað sem væri. Þótt ekki sje það tilætlunin að fara þegar í stað að virkja nokkurt sjerstakt vatn, þá er það þó jafnaðkallandi og sjálfsagt að þingið geri eitthvað út um málið að sínu leyti. Og jeg hefi ekki ástæðu til að ætla annað en að meiri hluti þess muni líta á það sömu augum og nefndin og komast að sömu niðurstöðu sem hún, að sjálfsagður endi málsins hjer sje að bera fram þessa þingsályktunartillögu. Hitt er rjett sem hv. 1. þm. Árn. (S. S.) sagði að af því, að ríkið helgi sjer vatnsorku í afrjettum og almenningum geti leitt málaferli og skaðabótakröfur á hendur þeim, sem hafa verið að braska með vatnsorkuna á þessum slóðum. Það er eigi rjett að fara óviðurkvæmilegum orðum um tillöguna fyrir það.

Jeg hygg, að orðalag tillögunnar sje fullljóst, enda veit jeg ekki betur en að nefndarmenn væru ánægðir með það.

Það kemur þessu máli ekki við, þótt einstakir menn eða hreppar eigi land, sem notað hefir verið sem afrjettur, því að ríkið gerir ekki tilkall til annara vatnsrjettinda en þeirra, sem ekki eru eign einstakra manna eða sveitarfjelaga; enda kæmi það brátt í ljós, þegar farið væri að framkvæma það, sem tillagan gerir ráð fyrir að framkvæmt sje, hvar svo stendur á; því að þegar ráðstafanir yrðu gerðar um, að rifting fari fram á gerningum milli einstaklinga eða fjelaga, þá mundi verða úr því skorið með dómi, hvar ríkið ætti rjett á afrjettum og vatnsorku og hvar ekki.

Þá sný jeg mjer að hæstv. forsætisráðherra (J. M.). Það er rjett, sem hann sagði, að óvíst er, hverjir muni skipa hina nýju stjórn; en eigi getur sú óvissa þó losað stjórnina sem með völdin fer þótt eigi sje nema um stundarsakir við að hlýða á mál manna og taka þátt í umræðum og meðferð mála: stjórnin verður að framkvæma stjórnarstörfin, þótt hún hafi sagt af sjer, þangað til ný stjórn er skipuð.

Jeg þykist að vísu vita, að hæstv. forsætisráðh. (J. M.) geti ekki svarað til þessa máls nema frá sínu eigin sjónarmiði, því að stjórnin sem slík mun ekki hafa tekið afstöðu til málsins, og það dreg jeg af því, að hún virðist ekki hafa látið sig málið nokkru skifta, síðan það kom frá milliþinganefndinni: hún hefir ekki lagt fyrir þingið neitt af frv. milliþinganefndarinnar, nje heldur annað í þeirra stað þótt næst lægi að hún hefði gert það.

Jeg taldi það æskilegt, að stjórnin væri viðstödd á meðan málið væri rætt, svo að þingmönnum gæfist kostur á að kynna sjer afstöðu hennar í því og einkum óskaði jeg, að hæstv. forsætisráðh. (J. M.) væri við, svo að honum, sem öðrum þeirra lögfræðinga, sem í stjórninni sitja, gæfist kostur á að láta í ljós álit sitt á lagahlið málsins og svara til þess, er hana snerti.

Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) sagði að sjer væri ekki ljóst hvernig yfirlýsing sú sem tillagan nefndi, ætti að fara fram, þannig að hún hefði gildi. Jeg svara því þannig, að stjórnin á að láta þinglýsa því í hreppi hverjum, að hún lýsi alla vatnsorku í afrjettum og almenningum ríkiseign. Jeg gat þess, að lík yfirlýsing hefði komið frá stjórninni í fyrra; en hún var ekki undirbygð á sama hátt, og eigi var henni þinglýst þá. Þessi þinglýsing hefir að nokkru rjettarlega þýðingu, þótt eigi skeri hún úr rjettarspursmálinu sjálfu; hún gefur það til kynna öllum, að ríkið telur sig eigandi þeirra nytja er hún nefnir; og hún mundi hafa þá raunverulegu þýðingu, að þeir, sem hefðu í huga að braska með sölu vatnsrjettinda, mundu kynoka sjer við framvegis, er þeir vissu, að löggjafarvaldið hefði falið stjórninni að gefa þessa yfirlýsingu. Í þessu tilliti hefir það ekki þýðingu, frá mínu sjónarmiði, hvort stjórninni er veitt heimildin í þingsályktunarformi eða í lagaformi, því að frá þingsins sjónarmiði er ekki um vafaatriði að ræða og stjórnin getur því hiklaust framkvæmt fyrirskipun þingsins, þótt í tillöguformi sje. Líka er þess að gæta að þótt þingið slægi þessu föstu með lögum, að ríkið ætti vatnsorku í almenningum og afrjettum, þá er þessi úrskurður löggjafarvaldsins ekki óvefengjanlegur, nje fullvíst, að hann standist úrskurð dómstólanna. Meiri hl. nefndarinnar hefir ekki treyst sjer nje þinginu til að fella óyggjandi úrskurð í máli þessu og því hefir hann ekki viljað fara löggjafarleiðina, enda er það ekki einhlítt, því að sjeu lög sett, sem koma í bág við rjettarmeðvitund manna og rjettarvenjur, þá er meira en vafasamt, hvort dómstólarnir mundu dæma eftir slíkum lögum; því hefir nefndin valið þá leið, sem farin er á þgskj. 795, að skora á landsstjórnina að slá eign sinni á tiltekna vatnsorku, svo að dómsúrskurður fáist um það, hver eigi vatnsorkuna í landinu, hvort heldur ríkið eða einstaklingar. Þá fyrst, þegar dómsúrskurður er fallinn um þetta, er tími til kominn að skipa málinu með lögum.

Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) þótti eins rjett að taka til einstakt atriði, þar sem rifting gæti komið til greina; þá mundi spurningin leysast af sjálfu sjer. Þetta er að nokkru leyti rjett. En það er líka rjett, að fram komi skoðun þingsins á því hvern það telji vera rjett landsins í þessu máli, án þess þó að útkljá það, eða útiloka dóm stólana frá því að skera úr því. Það vantar því ekki í tillöguna, að rifting geti farið fram samkvæmt henni; það er einmitt ákveðið í henni, að stjórnin skuli, ef með þarf gera ráðstafanir til, að rifting fari fram á gerningum milli einstakra manna og fjelaga. En hæstv. forsætisráðh. (J. M.) þykir má ske óþarft, að í tillögunni stendur ,,ef með þarf“, þar sem sölusamningar eru vitanlega fram farnir. En þetta er þannig orðað, að ekki er loku fyrir skotið að samkomnlag kunni að komast á, þegar stjórnin fer að leita hófanna, og að þeir, sem keypt hafa rjettinn til vatnsorkunnar, falli frá þessum málamyndarjetti sínum, þegar þeir sjá að stjórninni er alvara með að láta til skarar skríða.

Hvernig sem á málið er litið, sje jeg ekki að stjórnin eða aðrir geti verið móti tillögu þessari nema ef vera skyldi þeir, sem eins er ástatt fyrir eins og hv. 1. þm Árn. (S. S.) játaði hreinskilnislega um sig, að þeir sjeu hræddir um, að það geti leitt til skaðabóta af einhverra hálfu. En jeg sje ekki, að þingið geti tekið svo mikið tillit til þessara manna, að það láti málið falla niður fyrir þá sök.