16.09.1919
Neðri deild: 65. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2480 í B-deild Alþingistíðinda. (2738)

158. mál, réttur ríkisins til vatnsorku í almenningum

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg skal geta þess út af því, sem hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sagði, að stjórnin hefði enga ákveðna afstöðu tekið í þessu máli að henni var það bókstaflega ekki unt, því að frv. meiri hluta fossanefndarinnar komu fyr til þingsins en til stjórnarinnar: enda hefði málið ekki getað komið fyrir þetta þing, ef það hefði átt að koma frá stjórninni. Því að nefndin, eða mestur hluti hennar hafði af ástæðum, sem teljast mega eðlilegar, ekki lokið störfum sínum að öllu leyti fyr en fram á þing kom. Og síðan málið kom til þingnefndarinnar hefir stjórnin ekki haft neitt færi á að blanda sjer inn í það; mjer vitanlega hefir nefndin ekki heldur leitað neinnar samvinnu við stjórnina. enda er ekki víst, að það hefði haft nokkra þýðingu, því að síðan hún sagði af sjer er hún að eins starfandi stjórn, en ekki pólitísk, en mál þetta er fullkomlega pólitískt mál, og því er ekki að búast við miklum framkvæmdum af hendi stjórnarinnar í því, að svo stöddu máli.

Ágreiningurinn milli mín og hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) er einkum sá og jeg tel þá leið sem hv. nefnd hefir valið, hvorki heppilega nje rjetta. Það hefði átt að koma fram yfirlýsing um málið í lagaformi; því að þessi vanbrúkun á þingsályktunartillögum, sem svo mjög er farin að tíðkast á þessu þingi, þekkist vart í öðrum þingum, enda eru þingsályktunartillögur, slíkar sem þessi er þýðingarlausar; þær geta átt við þegar um framkvæmd umboðsstarfa er að ræða: en í öðrum eins málum og þessu er lagaleiðin eina rjetta leiðin.

Jeg hefi áður tekið fram, að jeg tel það afskaplega misbrúkun á þingsályktunartillögum að nota þær eins og gert hefir verið að undanförnu, og slíkt má ekki halda áfram nú, eftir að landið hefir fengið fullveldi. Það var eðlilegt á meðan laganeitanir voru tíðar, þótt þingið gripi til þeirra; þær áttu þá að nokkru leyti að koma í stað laga. En nú, eftir að lagasynjanir eru burtu fallnar, þá ættu þingsályktunartillögur einnig að hverfa að mestu leyti úr sögunni. Jeg tel það t. d. mjög óheppilegt, að stórar upphæðir sjeu veittar úr landssjóði með þingsályktunartillögum. Aftur á móti er nokkuð öðru máli að gegna, þótt ákveðið sje með þingsályktun, að atkvæðagreiðsla skuli fara fram um bannmálið eða annað slíkt. En rjett er þó, að þingið skipi fyrir með lögum um allra flest af því sem það vill láta framkvæma.

Einmitt af því að mál þetta er borið fram í þingsályktunarformi, hefir yfirlýsing sú, sem tillagan ætlast til að komi frá stjórninni ekki lagalega þýðing. Auk þess er hægt fyrir næsta þing að segja, að það líti alt öðruvísi á málið en nú er gert: það er miklu hættara við þess háttar hringli en ef um lög er að ræða. Það eru yfir höfuð vandræði fyrir löggjafarvaldið að skipa stjórninni að gefa út yfirlýsingar, sem enga þýðingu geta haft. Að vísu má svo vera, að yfirlýsing frá stjórnarinnar hálfu leiddi til þess að menn hikuðu við að kaupa og selja vatnsrjettindi meðan rjettarspurningin er óútkljáð. En eftir að málinu hefir á annað borð verið hreyft og sú skoðun fengið allmikið fylgi, að landið eigi vatn alt í almenningum og afrjettum, mun sjerstök yfirlýsing um það ekki vera nauðsynleg eða hafa mikla þýðingu.

Jeg skil annars ekki í, að jafnglöggur og skarpur lögfræðingur eins og hv. þm. V.-Sk. í G. Sv.) er skuli ekki geta sjeð, hvílíkur munur er hjer á því, hvort lög eru sett um málið eða þingsályktun að eins gerð um það.

Jeg sný ekki aftur með það, að það ætti að koma fram í lagaformi, ef þingið vill, að ríkið helgi sjer eignarrjett vatns í afrjettum; og þetta ætti að vera því sjálfsagðara, þar sem flestir virðast vera á þeirri skoðun, að kenning sú sem hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) heldur fram, sje rjett. Þetta mál er annars ekki jafnóbrotið eins og það virðist í fljótu bragði: og kemur hjer ýmislegt til athugunar. Það getur verið, að sveitarfjelag hafi þegar eignarrjett yfir afrjett og til þeirra afrjetta virðist tillagan ekki ná. Þá getur hún ekki heldur náð til þess lands, sem ríkið á því að þar á það vatnið líka, og því óþarfi að vera að gefa út yfirlýsing um það. En þar sem vafi er á um eignarrjett til almenninga og afrjetta, þá er ekki víst að úr honum greiðist, þótt farið sje að rifta samningum um fallvötn á þeim slóðum: með því er ekki beinlínis skorið úr um eignarrjettinn yfir landinu og vatninu sem á því rennur. En það er hálfleiðinlegt að standa í löngum deilum um þetta, sem öllum kemur saman um að efninu til, bæði meiri hluta og minni og að svo stöddu máli hefir ekki svo ýkjamikla þýðingu, þar sem ný löggjöf getur breytt allri aðstöðu í málinu.

Að öðru leyti get jeg ekki sagt um, hvernig stjórnin muni snúast við tillögu þessari.

En eins og jeg hefi áður tekið fram tel jeg miklu rjettara, að þessi yfirlýsing kæmi fram í lagaformi, hvort sem það nú væri á þessu þingi eða næsta ár eða jafnvel ekki fyr en síðar.

Jeg hefi líka altaf haldið því fram, að varasamt sje að nota svo mjög þingsál. sem gert er.