16.09.1919
Neðri deild: 65. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2486 í B-deild Alþingistíðinda. (2740)

158. mál, réttur ríkisins til vatnsorku í almenningum

Jörundur Brynjólfsson:

Það var að eins stutt athugasemd.

Hv. frsm. (G. Sv.) bjóst ekki við, að jeg tæki í þetta mál eins og jeg gerði og færði hann til sem ástæðu það, til hvaða stjórnmálaflokks jeg teldist. Jeg býst nú ekki við, að hann hafi sjeð neina yfirlýsingu frá mjer um það, og hitt held jeg að skifti minstu máli, til hvaða flokks aðrir telja mig. (S. St.: Það er enginn flokkur til í þinginu). Það mun sanni næst, að hjer sje enginn stjórnmálaflokkur, þó þeir kunni að vera til úti um land.

En annars hjelt jeg að það væri málefni sem hjer er um að ræða, en ekki hvaða stjórnmálaflokki þingmenn tilheyra.

En um jafnaðarmenn get jeg sagt hv. þm. (G. Sv.) það, að þeim er ekki svo gjarnt að fara út fyrir það, sem lögin í landinu leyfa. Jeg er ekki þar með að segja, að lögin heimili ekki þessa till. En jeg gat ekki skilið, hvað þessar athugasemdir hv. frsm. (G. Sv.) komu málinu við.

Jeg mótmælti því aldrei að ríkið fengi að halda rjetti sínum, sem það hefir og á. En jeg mótmælti því, að þessi till. verði samþ., því að jeg get ekki sjeð, að það hafi neina þýðingu. Hitt varðar mig heldur ekkert um hvað minni hl. fossanefndarinnar vill; þó hann fylgi þessu, en ekki öðru af því, sem meiri hl. heldur fram, þá kemur það mjer ekkert við.

En jeg lít svo á að margt annað sje í þessum málum meira virði en þetta, því að það hefir Alþingi altaf í hendi sjer. Jeg býst líka við því, að til þess að vötn þessi verði tekin til nota þurfi lagaákvæði sem heimili það.

Hv. frsm. (G. Sv.) drap á það að stjórnin gæti látið þinglýsa þessum kröfum um að taka vatnsrjettindin í afrjettum undir landið. En jeg held, að þær þinglýsingar hefðu lítið gildi, því að ef einhver væri, sem þættist eiga þeirra vatnsrjettinda fyllri rjett, þá mundi hann að eins láta þinglýsa mótmælum. Þetta hefði því enga þýðingu.

Jeg held líka, eins og hv. 1. þm. Árn. (S. S.), að þessi yfirlýsing yrði síst til þess að greiða fyrir heppilegum úrslitum fossamálanna í heild sinni. Jeg gæti hugsað, að hún kæmi illa við suma og yrði síst til þess að bæta vinnubrögðin.

En eins og þingsál. er orðuð, verður ekki sjeð annað en hún nái til allra afrjetta og almenninga. Nú hefir hv. þm. Dala. (B. J.) vitnað til nál. fossanefndar um það, hvað sje afrjettur og hvað ekki. Það stendur nú svo í nál., að afrjettir sjeu ekki annað en það sem sje almenningseign. Það er líka tekið fram, að annað sje ekki kallað afrjettir. En það er ekki rjett. Málvenjan hefir helgað það, að kalla einnig afrjett, þegar einhver jörð á lönd inn til fjalla, lengra en búsmali gengur. Og eftir orðalagi till. nær hún einnig til þessara landa, þótt þau sjeu einstakra manna eign. En ef menn þykjast nú eiga vatnsrjettindi í sínum eigin löndum, þá eiga þeir þau einnig í þessum löndum. Orðalag till. er því mjög óheppilegt og ætti það eitt að vera nóg til þess, að hún yrði ekki samþykt. (B. J.: Heldur háttv. þm. að landamerkjalögin segi ekki til um þetta?) Það er ekki neitt tekið fram um það í till. (B. J.: Þetta er óðs manns æði). Það er nú svo oft æði á hv. þm. Dala. (B. J.), en því get jeg ekki að gert. En nú hagar víða svo til, að einstakir menn hafa keypt jarðir, sem eru mjög víðlendar og liggja upp til fjalla og jeg býst við, að þeir þættust hart leiknir ef svifta ætti þá orðalaust ýmsum þeim rjettindum, sem kaupunum fylgdu. Annars vegar er það víða, að sveitar- eða hreppsfjelög hafa keypt upprekstrarlönd. Vatnsrjettindin yrðu eftir þessu tekin af þeim aftur bótalaust.

Jeg get því ekki betur sjeð en ef ekki er til þess ætlast, að skertur verði rjettur einstakra manna og fjelaga, þá mætti ekki minna vera, en það kæmi skýrt fram í þingsál. þessari.