16.09.1919
Neðri deild: 65. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2488 í B-deild Alþingistíðinda. (2741)

158. mál, réttur ríkisins til vatnsorku í almenningum

Sigurður Sigurðsson:

Jeg hefi ekki mörgu að svara og skal því vera stuttorður.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) lagði mikla áherslu á, að till. þessi yrði samþ. Taldi hann það meðal annars nauðsynlegt, ef til þess kæmi, að ráðist yrði í virkjun Hvítár niðri í bygð við Hestvatn. En jeg skal þá gefa honum þær upplýsingar, að þótt stofnað yrði orkuver við Hestvatn, eða hjá Kiðjabergi, þá mundi það ekki standa í neinn sambandi við Hvítárvatn. Vatnsrenslismiðlun við Hvítárvatn kæmi ekki til greina, þótt orkuver yrði reist við Hestvatn, og liggja til þess margar ástæður, sem óþarft er að rekja hjer.

Jeg gat þess, að mjer þætti till. þessi fljótfærnisleg. Með því átti jeg ekki við, að sú niðurstaða væri fljótfærnisleg, sem milliþinganefndin í fossamálum hefði komist að, sem sje að vatnsorka í afrjettum væri almenningseign. Jeg skal engan dóm á það leggja. En það þykir mjer fljótfærnislegt og ótímabært að hefjast nú handa í þessu máli, og á þennan hátt, sem till. ræðir um.

Þá niðurstöðu fossanefndar, að vatnsafl í afrjettum sje eign landsins, er þegar fyrir löngu búið að tilkynna, og það ætti að nægja fyrst um sinn.

Að öðru leyti skal jeg ekki eyða tímanum í frekari ræður um málið, þar sem bæði hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) og hæstv. forsætisráðherra (J. M.) hafa nú talað um tillöguna frá sama sjónarmiði og jeg, og þannig stutt minn málstað í þessu efni.