16.09.1919
Neðri deild: 65. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2489 í B-deild Alþingistíðinda. (2742)

158. mál, réttur ríkisins til vatnsorku í almenningum

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Jeg skal ganga inn á það, að ræða ekki jafnaðarmensku við hv. 1. þm. Reykv. (J. B.), því að jeg hefi í rauninni aldrei talið hann jafnaðarmann, þótt hann þættist vera það, svo að við erum sammála.

En þar sem hann eyðir nú svo mörgum orðum að máli þessu, þá vildi jeg biðja hann að athuga nánar till., sem honum þykir of ónákvæmt orðuð.

Hann hafði það út á að setja, að ekki væri tekið fram í meginmáli till. hverjar afrjettir væru undanskildar.

En þess gerist engin þörf, því að þótt þessi yfirlýsing væri gerð, þá kæmi altaf fram, hvar slík tilfelli væru. Ef einstakir menn eða hreppar þættust hafa eignarrjett á afrjettum og vildu halda áfram þessum vatnaviðskiftum, þá kæmi það til úrslita dómstólanna, hvort þeir hefðu rjett til þess.

Við því er aldrei hægt að gera með lagasetningu, að þeir þættust eiga þennan rjett. Þeir verða því að reka sig á, þegar til úrslitanna kemur. En að fara að telja það upp í till., hverskonar afrjetti er átt við, nær engri átt. Þetta voru því óþarfaorð hjá hv. 1. þm. Reykv. (J. B.).

Þá var hæstv. forsætisráðherra (J. M.) vel upp lagður til að gera ítarlegar athugasemdir við till. þessa, og var það ekki nema vel farið, þar sem jeg hafði óskað þess, að hann væri viðstaddur umr.

En jeg get ekki skilið, hvers vegna hann lagði svo mikla áherslu á það, að þetta kæmi fram í lagaformi, þar sem vitanlegt er, að sú gangskör sem hjer á að gera, þarf og á alls ekki að koma fram öðruvísi en í tillöguformi.

En eigi að lögskipa nokkru um þetta mál, þá á það auðvitað að koma fram í sjerstökum vatnalögum. En að fara nú að semja lög um svo einfalt atriði sem þetta, að stjórnin gefi þessa yfirlýsingu, eða fari í mál til að rifta þessum samningum. það nær engri átt.

Þetta verður því einkennilegra, sem þetta er að hans dómi alveg „teoretiskt spursmál“.

Till. sú til þingsályktunar, sem jeg bar fram hjer á þingi 1917, hljóðar um alt það sama og hjer er farið fram a. Hæstv. forsætisráðherra lýsti þá mikilli ánægju sinni yfir till., og hefir látið þá rannsókn, sem þar var lögð til, fara fram síðan. Jeg veit því ekki, hvers vegna nú er lögð svo mikil áhersla á að gera úlfalda úr mýflugunni í þessu, og tel þetta að gera mikið brölt úr litlu efni.