23.09.1919
Efri deild: 63. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2492 í B-deild Alþingistíðinda. (2749)

158. mál, réttur ríkisins til vatnsorku í almenningum

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Þessi till. er ein af þeim nokkuð mörgu ályktunum þingsins, er fela í sjer áskorun til stjórnarinnar. Má þó svo að orði komast, að landið sje stjórnlaust, þar sem stjórn sú, er nú situr að völdum, er að eins til bráðabirgða.

Þarf jeg ekki að rekja sögu þess stórmáls, sem till. þessi er angi af. Öllum hv. þingdeildarm. er hún kunn, þó fossamálið hafi ekki enn komið til umræðu hjer í deildinni.

Jeg skal að eins geta þess, að á aukaþinginu 1917 skoraði Alþingi á stjórnina að athuga þetta og fal hún þáverandi landritara, Klemens Jónssyni rannsókn þess, en fyrir eðlileg atvik skilaði hann ekki áliti sínu, þar sem hann var þá kominn í stjórn fossafjelagsins „Titans“.

Fossanefndin tók þetta síðan til athugunar, og loks samvinnunefndin í fossamálinu, og lítur ekki út fyrir, að ágreiningur hafi orðið um að halda þessari skoðun fram, en aðferðin til að framkvæma hana liggur í þessari tillögu.

En jeg álít, að ekki hafi verið athugað nógu vel, hvort valin hafi verið heppilegasta framkvæmdaleiðin, þ e. hvort mögulegt sje að ná markmiðinu með því að fara þessa leið.

En eins og kunnugt er, hefir oftar orðið ágreiningur hjá hinu háa Alþingi um leiðina til að ná markmiðinu heldur en um markmiðið sjálft. Má í því sambandi benda á flest atriði sjálfstæðisbaráttunnar, og nú síðast ágreininginn um búsetuskilyrðið.

Jeg er ekki vanur lagasetningu, en hefi aftur orðið að framkvæma ýms þau lög heima í hjeraði, er sett hafa verið, og finst mjer þau stundum hafa verið næsta óljós, og sama er að segja um till. þessa.

Hvers vegna er öræfum slept? Er það vegna þess, að öræfi og almenningar merki það sama? Svo er þó ekki í mæltu máli.

Afrjett getur ýmist verið partur úr heimalandi jarðar eða jarðsvæði, sem er sameign sveitarfjelaga og ekki notað til ábúðar, t. d. jörð, sem keypt hefir verið í því skyni.

Það hefði verið kostnaðarlaust að orða þetta betur, svo ekki verði misskilið. Það verður örðugri framkvæmd, fyrst ónákvæmlega er orðað, einkum þar sem sýnt er, að till. muni leiða af sjer málaferli. Sem þingmaður hefi jeg viljað láta í ljós skoðun mína, þó ekki komi til þess, að jeg greiði atkvæði um áskorun til stjórnarinnar.