27.09.1919
Sameinað þing: 4. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2500 í B-deild Alþingistíðinda. (2769)

158. mál, réttur ríkisins til vatnsorku í almenningum

Bjarni Jónsson:

Mjer hefir borist til eyrna, að hv. Ed. hafi breytt þingsályktunartillögunni sakir þess, að deildarmenn hjeldu, að hún tæki til lands, er einstakir menn eða sveitarfjelög ættu. En sú hugsun lá ekki til grundvallar tillögunni. Í skjölum fossanefndar er orðið „afrjett“ skilgreint svo:

„Skilgreining Grágásar er rjett enn í dag. Afrjett (eða afrjettr) er sumarbeit manna og geldfjárhöfn, ítak í ríkisland, en ekki landeign einstakra manna eða hjeraða, nema þar sem menn taka fje til upprekstrar í heimaland sitt, og kallast afrjett, þótt það sje eigi afrjett“.

Í þessu sambandi vil jeg einnig minna á tillögu til þingsál., er samþykt var á þingi 1917, í byrjun ársins, og hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) flutti. Hún hljóðar svo: „Neðri deild ályktar að skora á landsstjórnina að gæta hagsmuna þjóðfjelagsins og rjettar landssjóðs til fossa og annara verðmæta í almenningum landsins og afrjettum, þeim er eigi heyra til neinni ákveðinni jörð einstakra manna eða sveitarfjelaga“ o. s. frv.

Nú hefi jeg leyft mjer að bera fram samhljóða brtt. Það er yfirsjón ein, að till. var ekki orðuð greinilega frá upphafi. Jeg geri ráð fyrir, að enginn ágreiningur verði um brtt., og tel till. skýrari svo breytta.