08.07.1919
Efri deild: 4. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2505 í B-deild Alþingistíðinda. (2782)

47. mál, stjórnarskrármálið

Flm. (Eggert Pálsson):

Frv. um breytingu á stjórnarskránni hefir þegar verið lagt fyrir hv. Nd., og þó yfirleitt sje ekki hægt að vita mikið um gang mála hjer í þinginu, þá má telja víst, að frv. þetta komi síðar til álita þessarar deildar. Sumum kynni samt að virðast fullsnemt að skipa nefnd í málið nú þegar, en jeg vil benda mönnum á, að það gæti verið heppilegt í tvennu tilliti. Annars vegar er hugsanlegt að ýms frv. berist deildinni, sem eigi að meira eða minna leyti skylt við stjórnarskrárbreytinguna, og væri þá hentugt að geta vísað þeim til sömu nefndar. Hins vegar er á það að líta, að hv. Nd. hefir þegar sett nefnd í málið, og væri það mikill vinnu- og tímasparnaður, að stjórnarskrárnefndir beggja deilda gætu starfað saman. Ef hv. deild lætur aftur á móti dragast að skipa nefndina, getur um enga samvinnu orðið að tala. Með þetta fyrir augum vona jeg, að hv. deild taki vel í þingsál.till. og samþykki hana.