26.09.1919
Efri deild: 67. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2517 í B-deild Alþingistíðinda. (2832)

Starfslok deilda

Kristinn Daníelsson:

Jeg vil fyrir mitt leyti, og að jeg hygg fyrir hönd allra hv. deildarmanna, kveðja hæstv. forseta, áður en við skiljum að þessu sinni, og að sjálfsögðu sumir fyrir fult og alt, þar sem nýjar kosningar standa fyrir dyrum.

Hverjir kunna að koma aftur og hvernig þá skipast forsetasæti, verður ekki sagt, en hins ber að minnast, að þótt þing þetta hafi brostið samhug og samheldni á ýmsum sviðum, hefir það þó ekki haft áhrif á samvinnuna í þessari hv. deild. Hún hefir verið oss öllum að skapi, og ber þá ekki að gleyma því, hvern þátt hinir góðu hæfileikar og hinn góði vilji hæstv. forseta til að stýra störfum deildarinnar hefir átt í því.

Fyrir það vil jeg þakka honum fyrir hönd deildarinnar og árna honum allra heilla í framtíðinni, um leið og vjer tökum undir þá ósk hans, að hingað megi aftur koma menn, er hafa vit og vilja til að vinna að öllu því, er miðar til heilla fyrir þessa þjóð.

Vil jeg biðja hv. þingdeildarmenn um að votta samþykki sitt með því að standa upp.

(Allir þingdeildarmenn stóðu upp).