07.07.1919
Neðri deild: 3. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í C-deild Alþingistíðinda. (2842)

22. mál, sameining Dalasýslu og Strandasýslu

Bjarni Jónsson:

Jeg má til að bera fram auðmjúkar þakkir fyrir það tillit, sem hæstv. stjórn tekur til mín, er hún þorir ekki að koma með ástæður fyrir frumvörpum. sínum, nema heyra áður álit mitt. Er það einn sá hlutur, er jeg má miklast af í elli minni, ef mjer verður langs lífs auðið.

Jeg verð að minnast nokkuð á frv. þetta. Það er svo ástatt í Dalasýslu, að ýms stjórnarvöld hafa gerst til þess að rýra hag hennar og gengi. Ein grein stjórnarinnar hefir t. d. orðið til þess að svifta hana póstgöngum og hefir flutt þær norður á Hornstrandir, jeg veit ekki hvert. (M. P.: Þingmaðurinn ætti að lesa betur Lýsing Íslands). Má vera, að þessi póstleið finnist þar, þótt jeg sje svo ófróður að vita það ekki. Nú er og svo komið, líklega af tilviljun, að ekki er nema einn prestur eftir í sýslunni. Þetta tvent þykir undarlegt, en svo á nú að taka af þeim sýslumanninn. Hvers vegna þá ekki að svifta þá lækninum líka? (G. Sv.: Þeim er nóg að hafa þingmanninn). Það er ekki víst, hve lengi þeir halda honum. En þeir eru svo gamaldags, Dalamenn, að þeir telja það hjeraðsbót að hafa hjá sjer lærða menn.

Jeg varð hissa, er jeg sá hve mjög þeim liggur á að slá af annan sýslumanninn í þessum tveim sýslum. Hjer stendur einhversstaðar í frv., að stjórnin skuli hlutast til um, að embættasameining þessi komist á sem fyrst. Mikið þykir þeim í húfi!

Þá vísaði hæstv. stjórn til athugasemdanna við frv. Og þar er þá launanefndin sæla enn á ferðinni. Og er það hvorki meira nje minna en annar liðurinn af starfsemi þeirrar nefndar. Stjórninni var falið, samkvæmt þingsályktun, sem er á þgskj. 171 árið 1914, að „taka til rækilegrar athugunar, hvort unt sje að aðskilja umboðsvald og dómsvald og fækka sýslumönnum að miklum mun, og ef svo virðist, að það sje hagkvæmt og mun kostnaðarminna en það fyrirkomulag, sem nú er, að leggja þá frv. til laga í þá átt fyrir næsta Alþingi.“ Þessi rannsókn var svo falin launanefndinni. Og nú er hjer lagt til að afnema eitt sýslumannsembætti, og er það ekki svo lítið. En það er ekki lagt til að aðskilja umboðsvald og dómsvald, því að sennilega á þessi eini sýslumaður að fara með hvorttveggja. Hefði hjer verið farið fram á að fækka dómurum og setja einn dómara fyrir báðar sýslur og láta hann að eins vera dómara, þá hefði jeg vel skilið það. En þetta, að fækka að eins um einn sýslumann, þykir mjer harðla einkennilegur skilningur á þingsályktuninni. Mönnum kann nú ef til vill að virðast það hártogun af mjer að bendla þessa þingsál. við frv. En það er ekki hártogun, því að nefndin gerir það sjálf. Hún segir í athugasemdum sínum við frv., að á Alþingi 1877 — það var víst ekki 877 — hafi verið farið fram á þessa sameiningu, en málið þá felt í Ed. Svo segir nefndin, að ekki hafi verið minst á þessa samsteypu þangað til á þinginu 1914, en þá var flutt áðurnefnd þingsál., um fækkun sýslumannaembætta. En í henni sjest ekkert um sameining Dala- og Strandasýslu. Svo höfuðástæðan, sem nefndin flytur, er þá þessi, að 1877 flutti þáverandi þingm. Dalamanna frv. um sameining Dalasýslu og Strandasýslu, og gerði það eftir ósk kjósenda sinna. Mönnum verður þá strax hugsað til kjósendanna, hve vel fer á því að farið var að ósk kjósenda, og að svo er enn á þingi. Er það rjett, því að þingmenn eru ekkert annað en fulltrúar kjósenda. En það er einkennilegt hjá nefndinni, að hún telur rjettara að fara að vilja kjósenda, sem dauðir eru og komnir yfir um til Furðustranda, en hinna lifandi. Það má telja sennilegast, að sárfáir kjósenda frá 1877 sjeu nú á lifi. En hins vegar hefir kjósendum fjölgað stórmikið, svo að þótt allir kjósendur frá 1877 væru á lífi nú og þótt þeir væru allir með málinu, þá gætu þeir vel verið í minni hluta.

En hvers vegna telur launamálanefnd og hæstv. stjórn rjettara að fara eftir vilja kjósenda í Dalasýslu 1877 en kjósenda þar nú? Nú er það alveg áreiðanlegt, að allir kjósendur í Dalasýslu eru á móti sameiningunni. Skal jeg nú færa sönnur á mál mitt. Í ferð minni vestur í kjördæmi mitt í vor gat jeg ekki haldið þingmálafundi í norðursýslunni, en hefi gert ráðstafanir til þess, að svo verði gert, og munu gerðir þeirra funda sendar Alþingi. Annar funda þeirra, er jeg hjelt, var í Hjarðarholti. Voru þar 30 manns, og var þar samþ. svofeld till.:

„Fundurinn er því algerlega mótfallinn, að Dalasýsla sje sameinuð Strandasýslu, og skorar á þingmanninn að fylgja því fram, að svo verði eigi.“

Hinn fundurinn var háður í þinghúsi Miðdalahrepps, að viðstöddum 80 kjósendum, og var þar samþykt yfirlýsing þessi:

„Fundurinn mótmælir harðlega sameiningu Stranda- og Dalasýslu í eitt lögsagnarumdæmi.“

Úr hinum hreppunum mun vafalaust koma sama yfirlýsing, því að ekki einn einasti kjósandi í Dalasýslu vill þetta.

Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar. Jeg býst við, að málinu verði vísað til nefndar, og er það því hæfilegur andlátsumbúnaður. Mun jeg því ekki veita því frekari nábjargir nú.