18.07.1919
Neðri deild: 10. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í C-deild Alþingistíðinda. (2845)

22. mál, sameining Dalasýslu og Strandasýslu

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg heyrði því miður ekki nema lítið af því, sem hv. framsm. sagði, því jeg var kallaður í síma þegar hann hóf mál sitt. En jeg legg ekki áherslu á málið, og fyrir mjer er það að eins fjármál. Jeg get ekki fallist á að þörf sje að fresta sameining, ef hún á fram að ganga í fyrirsjáanlegri framtíð, enda verður, ef frestun á þessu er samþykt nú, hv. launamálanefnd að ætla báðum sýslunum auknar tekjur.

Það er enginn efi á því, að vel má takast að sameina sýslumannsembættin í Stranda- og Dalasýslu, því fólksfjöldinn í báðum sýslunum er ekki meiri en í meðalsýslu og yfirferðin ekki verri en víða annarsstaðar í einni sýslu. Frv. er því að öllu leyti fullforsvaranlegt af stjórnarinnar hálfu.

Það er nú altaf meir og meir að komast á sú eðlilega skifting í landinu, að aðgreina sýslufjelagsmál frá lögreglustjórn. Hver kaupstaðurinn eftir annar er að fá sjer borgarstjóra, og svona mun halda áfram. Það er þá líka mjög svo eðlilegt, að sýslunefndir kæri sig ekki ætíð um að hafa þann fyrir formann eða oddamann, sem landsstjórnin setur sýslumann.

Jeg skil vel, að Dalasýslubúar leggist á móti þessari sameiningu, ef þeir eru hræddir um að missa sýslumann sinn. Það er mjög eðlilegt, þar sem sýslumannssetur hefir verið þar, og það frægt, frá fornu fari.