18.07.1919
Neðri deild: 10. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í C-deild Alþingistíðinda. (2846)

22. mál, sameining Dalasýslu og Strandasýslu

Magnús Pjetursson:

Jeg ætla ekki að fara að andmæla niðurstöðu nefndarinnar um þetta mál, því þar er ekki lagt á móti sameiningu í sjálfu sjer. En ef svo hefði verið, ef þessi dráttur hefði átt að vera til dauða, þá hefði jeg ekki getað orðið með. En jeg get ekki litið þannig á, eins og hæstv. forsætisráðherra virtist gera. Mjer virðist drátturinn meinlaus og mun því greiða atkv. með honum. Jeg álit það engan skaða, þótt málið bíði næsta þings, því þótt sameiningin yrði samþ. á þessu þingi, þá gæti hún þó á engan hátt komist í framkvæmd á þessu ári. Það væri sjerstök tilviljun, ef svo yrði.

Það hefir verið talað hjer um, að óviðkunnanlegt væri að skella þessu á, án þess að spyrja viðkomandi sýslunefnd um álit sitt. Þar get jeg ekki verið á sama máli. Það er t. d. alls ekki víst, að þær sýni vilja meiri hluta sýslubúa. Nú, og þó að svo væri, þá eru þeir ekki bestu dómararnir í þessu efni, því að þeir yrðu hlutdrægir. Þingið, sem ætti að vera óvilhalt, sem ætti að geta litið á málið frá því sjónarmiði, hvað þjóðinni í heild sinni væri fyrir bestu, það eitt ætti vitanlega að gera út um það. Það er öllum kunnugt, að um land alt hafa hafist hróp mikil um fækkun embætta.

Ef mark ætti að taka á því, þá virðist sem það væri almenn ósk þjóðarinnar. En svo er ekki, þegar til kastanna hefir komið. Þegar þingið hefir lagt þægt eyra við hrópunum og ætlað að fækka embættum, þá hafa önnur hróp, oftast hærri og öflugri, æpt á móti. Þau hafa komið frá þeim, sem embættismanninn áttu að missa. Af þessu er það ljóst, að ef þinginu dettur í hug að fækka embættum, þá þýðir ekkert að skjóta því undir dóm málsaðilja. Þeir leggjast oftast á móti því.

Annars álít jeg, að sameining þessi geti vel farið fram. Sýslan yrði ekki erfiðari en margar aðrar. Þó að sýslumaðurinn væri tekinn úr Strandasýslu og fluttur til Dalasýslu, þá væri engu erfiðara fyrir meginhluta Strandasýslu að ná til sýslumannsins, heldur en eins og hann er settur nú, jafnvel betra.

Hæstv. forsætisráðherra talaði um, að þetta frv. þyrfti að bíða eftir launafrv. Það fæ jeg ekki sjeð. Það þarf hvort sem er að ákveða þar laun fyrir bæði embættin, því að sameiningin kæmist ekki á í náinni framtíð, þótt hún yrði samþ. nú. Þótt hún gengi í lög, þá hjeldu sýslurnar áfram að vera aðskildar þangað til önnur hvor losnaði. Þess vegna getur það engin áhrif haft á launafrv., hvort þetta yrði samþ. eða ekki.