17.07.1919
Neðri deild: 9. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (286)

33. mál, tollalög

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg er þakklátur fjárhagsnefnd fyrir það, hve vel hún hefir tekið þessu frv. En að því er snertir brtt. á þgskj. 102, þá verð jeg að mæla á móti því, að hún verði tekin til greina. Mjer finst óskiljanlegt annað en menn verði að viðurkenna, að þessi hækkun, sem frv. fer fram á, er rjettlát, þegar tillit er tekið til þeirra tíma, er við lifum á. Ef við lítum til annara þjóða, þá sjáum við, að þær velja einmitt þessa leið. Þær hækka toll að miklum mun á samskonar vörum og þeim, sem frv. ræðir um. Þar sem stjórnarfrv. fer fram á 8 kr. toll af vindlum, þá getur það ekki talist of mikið. Þessarar vöru neyta aðallega efnaðri menn, og hækkunin verður þess vegna ekki tilfinnanleg.

Aðalástæða háttv. flutningsmanns þessarar brtt. var óttinn við tollsvikin, og háttv. 2. þm. S.-M. (B. St.) talaði um háseta, sem bæru tóbak í land í pokum og pinklum. Jeg get ómögulega litið svo á, að þessi rök sjeu nægileg til að byggja á brtt. Hækkunin, sem frv. fer fram á, ætti ekki að hafa í för með sjer meiri smyglun en nú er. Þeir, sem eru þannig skapi farnir, að þeir finni hjá sjer hvöt til tollsvika, mundu eins smygla inn hvort heldur þeir fengju einni krónu meira eða minna. Annars er það dálítið einkennilegt að vera á móti tollhækkun af hræðslu við tollsvik. Það lægi óneitanlega miklu nær að reyna að skerpa eftirlitið, þannig að smyglunin minkaði af því, en ekki vegna þess, að tollarnir væru lágir.

Jeg vona, að háttv. deild taki frv. vel og fari ekki að draga úr þessari sanngjörnu hækkun. Ef svo verður gert, ef brtt. á þgskj. 102 verður samþ. þá veit jeg ekki hvar lendir, því sú breyting drægi aðrar á eftir sjer. Við getum ekki farið þá leið, því landsjóði er bráðnauðsynlegur tekjuauki. Það munar ekki mikið um liðinn a. Jeg fyrir mitt leyti skal ekki leggja á móti því, að þessi hækkun á sódavatnstollinum nái fram að ganga. Sama má segja um d., og hvað viðvíkur skatti á innlendum brjóstsykri, þá virðist mjer hann sanngjarn. Að vísu gæti hann ekki fært landssjóði mikið, en það safnast þegar saman kemur. En um liðina b. og e. hefi jeg að endingu það eitt að segja, að jeg vil eindregið mæla með því, að þeir verði feldir, því jeg fæ ekki annað sjeð en þessi hækkun á tóbaks- og vindlatolli sje í alla staði sanngjörn, auk þess sem hún er nauðsynleg landssjóði.