14.08.1919
Neðri deild: 35. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í C-deild Alþingistíðinda. (2863)

9. mál, seðlaútgáfuréttur Landsbanka Íslands

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Háttv. frsm. meiri hl. (E. Árna.) hefir nú gert grein fyrir sínu áliti. Skal jeg þess vegna leyfa mjer að fara nokkrum orðum um nefndarálit minni hlutans, því að það er oft svo, að „ekki er nema hálfsögð sagan, er einn segir frá“. Og jeg get ekki neitað því, að mjer finst nál. meiri hlutans nokkuð einhliða.

Það er þá fyrst og fremst gjald Íslandsbanka. Það þykir meiri hlutanum of lágt. Minni hlutinn telur líka, að það hefði mátt vera hærra. En það var ekki hægt að fá það hærra. En benda vil jeg á, að fyrst hv. meiri hl. þykir 50 þús. krónur lágt fyrir 2% milj. kr., þá ætti þeim að þykja gott að taka við seðlaútgáfurjetti að ef til vill jafnmiklu fyrir ekki neitt. Með öðrum orðum: Fyrst 50000 kr. þykir lágt gjald frá Íslandsbanka fyrir rjettinn, ætti Landsbankanum að þykja nokkurs um vert að fá samskonar rjett fyrir ekkert. Hjer verður að athuga, að Íslandsbanki hefir fengið seðlaútgáfurjett í 30 ár, gegn árlegu gjaldi, en algerðu skattfrelsi. Þess vegna greiðir hann þessar 50 þús. kr. fyrir seðlaútgáfurjettinn, en engan skatt. Af þessu má sjá, að Íslandsbanki metur ekki seðlaútgáfurjettinn jafnlífis og háttv. frsm. meiri hl. (E. Árna.), sem álítur, að hann muni jafnvel verða Landsbankanum til byrði. Seðlaútgáfurjetturinn er mikilla peninga virði, en meiri hl. heldur, að Landsbankinn muni skaðast á honum. Hann á að tryggja sem næst 2/5 af seðlum. Með öðrum orðum: Ef hann gefur út 100 krónur, þá á hann að hafa 40 krónur trygðar í fyrirliggjandi gulli eða verðbrjefum. Hinar 60 krónurnar eru án tryggingar, og vextirnir af þeim teknir svo að segja á þurru landi, að öðru en kostnaðinum við seðlana. Ef dæmið er stækkað og tekin t. d. 1 miljón, þá fást 30 þúsund krónur greiddar á ári í vexti, ef þeir teljast 5%, af 2 milj. 60 þús. kr., sem er þá hagur af seðlaútgáfunni. Nú var seðlaútgáfan um 9 milj. kr. við síðustu mánaðamót. Af þessu sjest, að hjer er ekki um neitt smáræði að tefla.

Mig stórfurðar á því, að hv. meiri hl. skuli slá því fram, sem hjer stendur prentað í nál., að peningalegur gróði Landsbankans sje mjög tvísýnn. Jeg get ekki sjeð, í hverju sú tvísýna á að liggja. Hagurinn sýnist auðsær, þegar ekki þarf að tryggja nema 2/5 hluta. Háttv. framsm. (E. Árna.) talaði mikið um kostnaðinn við að prenta seðlana. í nál. minni hl. segir, að kostnaðurinn árlega muni ekki verða minni en samninganefndin hafi gert ráð fyrir, og miklar líkur til, að hann verði hærri. Jeg veit, að Íslandsbanki hefir fengið tilboð um prentun á sínum seðlum, sem er allmiklu lægra heldur en samninganefndin gerir ráð fyrir. Jeg hefi sjeð brjefið með tilboðinu. Sem sagt má búast við, að kostnaðurinn verði allmikill, en hjá þeim kostnaði verður ekki komist, ef rjetturinn er tekinn, og enginn þarf að reyna að telja mjer trú um, að Íslandsbanki vildi halda áfram að gefa út seðla, ef ekkert væri upp úr því að hafa.

Svo er annað atriði. Það var áður álit margra, að kostnaðurinn við seðlaútgáfuna kæmi upp við það, hve mikið tapaðist af seðlum í umferð. Það vita allir, að seðlar bankanna koma ekki allir til innlausnar. Þeir tapast á margan hátt, brenna í eldsvoðum, eða glatast er skip farast, týnast o. s. frv. En það er hagur bankans. Bankinn er búinn að fá borgun fyrir þá seðla, en þeir koma aldrei til innlausnar.

Hv. meiri hl. segir, að naumast sje ábyggilegt að reikna með meðaltali seðla þeirra, sem úti eru síðustu dagana í hverjum mánuði, því að það meðaltal myndi verða of hátt. Mjer er óskiljanlegt, á hverju háttv. meiri hl. byggir þetta. Það eru engar skýrslur til um það, hve mikil seðlaútgáfan er, aðrar en þær, sem miðaðar eru við lok hvers mánaðar. Bankinn gerir ekki daglega skýrslu um það, heldur að eins í lok hvers mánaðar. Jeg sje ekki heldur minstu líkur til þess, að meira sje úti í lok mánaðarins en t. d. um hann miðjan eða hvern annan dag. Getur því ekki hjá því farið, að þetta verði nokkurn veginn rjett og ábyggilegt, ef jafnan er fylgt sömu reglunni. Það kemur hjer fram, sem oftar, að hv. meiri hl. málar eins svart og hann mögulega getur og tortryggir að ástæðulausu.

Þá skal jeg víkja nokkrum orðum að skilyrðunum, sem Íslandsbanki hefir sett fyrir því, að láta af hendi hindrunarrjettinn, og svara þá um leið hv. framsm. meiri hl. (E. Árna.).

Um fyrsta skilyrðið hefi jeg þegar talað og sýnt, að auðsær sje gróði af seðlaútgáfunni. Það getur hver reiknað, sem vill, þar sem hjer um bil 3/5 af vöxtunum eru teknir á þurru landi, ef svo má að orði kveða, eða tryggingarlaust. Til samanburðar skal jeg geta þess, að bönkum þykir gott að fá sparifje til að ávaxta, þótt þeir þurfi að greiða 4% í vexti. En hjer ætti bankinn ekki að hagnast neitt, eftir áliti meiri hl., þótt hann fái fje fyrir ekki neitt. Jeg skal skjóta því hjer inn í, að samninganefndin leit svo á, og líka minni hl. fjárhagsnefndar, að það væri sama, hvort Landsbankinn græddi eða ríkissjóður; það gæti gengið á milli. Það er alt annað að eiga við Landsbankann en Íslandsbanka, sem er útlendur hlutafjelagsbanki og hefir fengið hjer seðlaútgáfurjett til 30 ára, leyfi, sem ekki verður hróflað við fyr en sá tími er liðinn, nema með hans samþykki, og nú liggur einmitt þetta samþykki fyrir.

Þá er annað skilyrðið, yfirfærslurjetturinn. Það er rjett, að hjer er öllu snúið við um skyldur og rjettindi bankanna, vegna þess, að hjer er skift á um útgáfurjettinn. Það er auðvitað skilyrði, sem betra væri að losna við, en í samningi milli tveggja aðilja er ekki hægt að vænta þess, að annar aðilinn fái að búa til alla skilmálana. Þar verður að vera samkomulag.

Í nefndarál. meiri hl. er bent á, að ef svo skyldi fara, að dönsk og íslensk mynt breytti verðhlutfalli, þá gæti Landsbankinn tapað á því. Hjer er nú nokkuð langt seilst, þar sem bæði löndin hafa sömu mynt. Það er auðvitað mikið rjett, að þetta gæti breyst. En þá ætti hv. meiri hl. að athuga orðalag 6. gr., „án sjerstakra ómakslauna“. Jeg verð að minna hv. meiri hl. á, að ómakslaun og gengismunur er sitt hvað. Þetta er svo mikill misskilningur, svo mikil fjarstæða, að mig stórfurðar, að hv. meiri hl. skuli geta komið þetta gat til hugar, og það sýnir hversu grunt hv. meiri hl. ristir í þessu máli.

Það er náttúrlega satt, að það getur orðið dálítið tap fyrir Landsbankann, ef hann getur ekki selt þá peninga, sem hann t. d. á niðri í Danmörku. En jeg vil benda hv. meiri hl. á, að það getur eins vel verið hagur fyrir bankann, og sjest þetta með því að snúa dæmi hv. frsm. meiri hl. (E. Árna.) við. Segjum t. d., að Landsbankinn eigi 200000 kr. í Kaupmannahöfn, og Íslandsbanki vilji fá þær fluttar heim, svo að Landsbankinn eigi þar ekkert inni. Næsta dag kemur maður, sem ætlar að fá peninga flutta til Kaupmannahafnar, og greiðir peningana hjer, segjum 200000. Þá er alt komið í samt lag aftur, og Landsbankinn hefir grætt á þessu. Þetta sýnir, að skilyrðið getur verið til hags, og er erfitt að meta hvort þyngra verður á metunum, tap eða gróði. Að segja, að þetta sje mjög varhugavert, er að gera úlfalda úr mýflugu, og víst er um það, að Íslandsbanki, sem hefir þessa kvöð nú, telur hana lítils virði.

Þá er ákvæðið um, að Íslandsbanki megi leggja inn seðla sína í Landsbankann gegn 3% vöxtum. Við hefðum helst viljað losna við þetta skilyrði, en það var ekki hægt. En annars get jeg ekki sjeð, að hjer sje nein hætta á ferðum. Þetta er sett til að tryggja, að seðlar þeir, sem Íslandsbanki má gefa út, 2½ milj. kr., sjeu altaf í umferð, og meðan bankarnir keppast við að ná í sparisjóðsfje gegn 4% vöxtum er það næsta undarlegt og ósamrýmanlegt heilbrigðri skynsemi, að það sje til tjóns fyrir seðlabanka að fá peninga fyrir 3%. Að minsta kosti trúi jeg þessu ekki, hversu lengi sem hv. meiri hl. stagast á því.

Þá telur meiri hl. nefndarinnar leyfið um takmarkalausa aukning hlutafjár til handa Íslandsbanka hættulegt. En jeg sje ekki, í hverju sú hætta liggur, því að sá hemill er á bankanum, að hann verður að sjá um að ávaxta fje sitt. Ágóðinn má tæpast vera undir 10%. Getur háttv. meiri hl. þá verið svo viss um, að bankinn auki ekki hlutafje sitt, þótt hann hafi seðlaútgáfurjettinn? Sú stefna hefir einmitt verið uppi í þinginu, að aukning hlutafjárins eigi að fara eftir aukning seðlaútgáfu. Hjer er því ekki um neina hættu að ræða. Það getur vel komið fyrir, að bankinn auki hlutafjeð, en það er í sjálfs hans „Interesse“ að auka það ekki meira en svo, að hann geti ávaxtað það. Og ef þörf er til slíkrar aukningar, þá er ekki rjett að setja sig upp á móti því. Þá skal jeg minnast dálítið á bankaráðið. Því hafði nú aldrei verið spáð, að það yrði til að frelsa þetta land. En nú virðist meiri hl. helst líta svo á, að það sje ómissandi. En það besta, sem um það er hægt að segja, er það, að það geri ekki neitt, sje „húmbúg“, spillandi bitlingur og ekki annað. Og jeg skil ekki, að það breytist á næstu 15 árum þannig, að í því verði menn, sem skifta sjer af störfum bankans. Svo hefði háttv. meiri hluti átt að geta þess, hefði hann viljað vera samviskusamur, að ekki er slept eftirlitinu með bankanum. Samkvæmt 7. gr. frv. á ráðuneytið að skipa tvo eftirlitsmenn, sem jeg held að gætu orðið eins hollir fyrir bankana og ríkið eins og þetta blessað bankaráð, sem nú er. Og að komast þannig að orði, að það sje til beins tjóns fyrir landið, ef bankaráðið yrði afnumið og tveir menn settir í staðinn, er staðleysa ein, og skil jeg ekki annað en meiri hlutinn finni til þess sjálfur.

Háttv. meiri hl. segir um 9. gr. frv., að það sje auðsætt, að breytingin eigi að fara fram smátt og smátt. Er mjer óskiljanlegt, hvernig hann hefir fundið það út. Vil jeg með leyfi hæstv. forseta lesa upp greinina:

„Ráðuneytið ákveður í samráði við báða bankana, hvernig breytingu þeirri á seðlaútgáfurjettinum, sem ræðir um í lögum þessum, skuli fyrir komið, og eru bankarnir skyldir að hlíta úrskurði þess þar um.“

Hjer stendur ekki orð um, að breytingin eigi að fara fram smátt og smátt. En í greinargerðinni segir, að breytingin verði að fara fram eftir því, sem viðskiftaþörfin krefur, og það er líka auðvitað sjálfsagður hlutur. Á hinu á ekki að þurfa að vera nein hætta, að ríkið missi nein rjettindi, og það verður þá því að eins, að stjórnin verði of eftirlát. Og rjett á eftir kemur það óbeinlínis fram í nál. meiri hl., að það sje töluvert varið í seðlaútgáfurjettinn, þar sem talað er um, að fullur rjettur komi ekki fyr en seint og síðar meir. Þar er meiri hl. sýnilega hræddur við hömlur á hinum aukna seðlaútgáfurjetti. En það er auðvitað ástæðulaust að treysta ekki ráðuneytinu til að stjórnabreytingunni þannig, að ekki verði til tjóns fyrir viðskiftin. Það er rjett skýrt frá hjá hv. frsm. meiri hl. (E. Árna.), að fjárhagsnefnd hafi haft fund með bankastjórn Landsbankans. En það hefði þá verið rjett að geta þess um leið, að skoðun hennar, sem fram kom á þeim fundi, væri ekki hvað minsti þátturinn í nál. meiri hl. því áður en bankastjórnin kom á fundinn voru a. m. k. tveir meiri hl. manna minni hl. samdóma, en snerust svo. þetta ættu þeir hv. þm. að kannast við og „motivera“ rjett sinnaskiftin, þ. e. a. s. með því, að þeir vilji ekki gera bankastjórninni á móti skapi, en segja ekki, að seðlaútgáfurjetturinn sje einskis virði.

Háttv. meiri hl. segir, að Íslandsbanki hafi grætt mikið á stríðsárunum. eins og aðrir seðlabankar. Það er alveg rjett. En af hverju? Af því, að hann var seðlabanki og auðgaðist af seðlaútgáfunni. Og vegna þess, að Íslandsbanki hefir grætt svona mikið, vill meiri hlutinn láta hann taka við afleiðingunum af því, ef „krisis“ yrði í peningamálunum. En á „krisis“-tímum væri einmitt miklu heppilegra að láta Landsbankann, sem er ríkiseign, standa fyrir peningamálum landsins, en að láta útlent hlutafjelag gera það. Er ekki hugsanlegt, að útlent gróðafjelag næði þá eignarhaldi á ýmsu fjemætu, er alþýða hefði ekki peninga? Ætli það væri ekki eins heppilegt að láta Landsbankann miðla peningum og gefa út meiri seðla þá en ella? En þessu hlutverki vill meiri hl. kasta frá Landsbankanum og í hendurnar á erlendu hlutafjelagi.

Að síðustu vil jeg benda á það, að meiri hl. gerir ekkert ráð fyrir, hvað gera skuli í þessu máli framvegis, en leggur að eins fram rökstudda dagskrá til að svæfa málið fyrir fult og alt. Á þá að láta sjer nægja með það sem er? Meiri hl. hlýtur að vera viðbúinn að koma með till. um, hvað gera skuli. Að öðrum kosti er framferði hans óforsvaranlegt. Áður en nefndin klofnaði vildi hann láta fresta málinu um eitt ár, en eins og jeg benti þá strax á, þá er það ekki hægt. Málið má ekki biða svo lengi, því seðlar Íslandsbanka eru þrotnir, og verður því að láta fara að prenta nýja. Eins og kemur fram í nál. meiri hl., þá býst hann við, að Íslandsbanki haldi áfram að hafa seðlaútgáfu þau 15 ár, sem eftir eru af leyfistímanum. Þess vegna vildi jeg skjóta því til hv. deildar, að brjóta ekki af sjer þá brú, sem verið er að leggja með frv., fyr en eitthvað er gert. Og það má ekki dragast að gera eitthvað, því annars hefir Íslandsbanki hindrunarráðin, og jeg býst við, að hann noti þau. Gæti þá skeð, að meiri hl. kæmist að því, hversu gott verður að fá hjá honum þau fríðindi, er með þarf. Eða ætlar deildin virkilega að láta bankann sjá, að hún hafni nú tilboði hans, svo að hann á eftir geti sett hvaða skilyrði sem honum sýnist? Ef rökstudda dagskráin verður samþ., væri það undarlegur endir á málinu.

Það var mikið rætt um það á þinginu 1914, hvort Íslandsbanki ætti að fá seðlaútgáfurjettinn, og nú 1. september næstkomandi er tíminn út runninn. Á meðan á stríðinu stóð var það ætið tekið fram, að þetta væri að eins stríðsráðstöfun. En nú er stríðið úti, og stjórnin hefir nú komist fyrir um, með hvaða kjörum seðlaútgáfurjettur Íslandsbanka fengist. Og svo ætti að afgreiða málið með þessari rökstuddu dagskrá!

Jeg þykist vita, að hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) taki hjer til máls. Hann lýsti því yfir á þinginu 1917, að aukning seðla- útgáfu Íslandsbanka væri „stórkostleg hlunnindi“ fyrir bankann. En nú segir sami háttv. þm. (B. Sv.), að það sje svo langt frá því, að hjer sje um stórkostleg hlunnindi að ræða, heldur sje mjög tvísýnt, hvort Landsbankinn hefði ekki skaða af að öðlast slíkan rjett. Það verður gaman að heyra, hvernig háttv. þm. (B. Sv.) fer að samræma þetta.

Nei, hjer er ekki hægt að fella frv. með þeirri „motiveringu“, að það borgi sig ekki fyrir Landsbankann að taka við seðlaútgáfurjettinum, því að með því væri deildin að gefa sjálfri sjer löðrung, eftir framkomu hennar 1917 að dæma. Annað mál er það, að skilyrðin sjeu slæm, en jeg hefi reynt að sýna fram á, að svo er ekki. En hvað sem ofan á verður, þá tel jeg sjálfsagt, að deildin lofi frv. til 2. umr. og athugi það þannig nánar.