14.08.1919
Neðri deild: 35. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í C-deild Alþingistíðinda. (2867)

9. mál, seðlaútgáfuréttur Landsbanka Íslands

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Jeg þarf ekki að vera margorður að sinni. Það var ekki margt í ræðu háttv. frsm. meiri hl. (E. Árna.), sem í rauninni þarf að svara. — Hann byrjaði ræðu sína með því að segja, að hann vildi fara varlega í þessu máli, því þingið hefði einu sinni misstigið sig. — En þar sem hann nú telur, að það hafi verið misstigið spor að láta Íslandsbanka fá seðlaútgáfurjettinn, þá finst mjer, að honum ætti að vera ljúft að stíga nú spor, til að bæta úr þessu. — Út af heimild Íslandsbanka til að auka hlutafje sitt þá gaf hv. frsm. meiri hl. (E. Árna.) í skyn, að þótt hann gæti ekki ávaxtað fjeð í venjulegum bankafyrirtækjum, þá væru ýmsar aðrar leiðir, t. d. gæti hann lagt fjeð í ýmiskonar gróðafyrirtæki, sem ekki tilheyrðu bankastarfsemi. En þá er þess að gæta, að concession bankans eða leyfi er óbreytt. Og þessi ástæða er því ekki rjett. Hv. frsm. (E. Árna.) sagði, að þetta væri gert á ábyrgð Landsbankans. Jeg vil benda honum á í þessu sambandi, að Landsbankinn getur einmitt ef hann fær seðlaútgáfurjettinn stöðvað Íslandsbanka, með því að segja, að nú sje ekki þörf á fleiri seðlum. En ef við snúum dæminu við og segjum, að bankinn færi út fyrir sína concession, þá mundi hv. frsm. meiri hl. (E. Árna.) má ske sjá, hvort heppilegt sje, að sú stofnun hafi allan seðlaútgáfurjettinn. Hvort bankinn gefur út 1 eða 2 milj. gerir í sjálfu sjer ekki svo mikið til. Þess eru víða dæmi, að bankar hafi leyfi til að gefa út ákveðna upphæð, enda þó þeir sjeu ekki eiginlegir seðlabankar. Það sem skiftir máli er, hvaða banki skamtar seðlaumferðina eftir viðskiftaþörfinni, en það verður Landsbankinn eftir frv. — Jeg vil benda á ákvæðið í 7. gr. frv. Þar stendur:

Ráðuneytið skipar 2 menn til 4 ára í senn, til þess að hafa eftirlit með bönkum þeim, sem seðlaútgáfurjett hafa.

Með öðrum orðum, þar er gengið út frá, að Íslandsbanki verði skoðaður sem seðlabanki, og hann hefir gengið inn á að verða skoðaður sem eiginlegur seðlabanki. Og eftirlitsmennirnir eru því til tryggingar, að hann geri ekkert það, er óviðurkvæmilegt er seðlabanka. — Svo að væri hjer hætta á ferðum, þá væri með þessu frv. girt fyrir hana. En það er þvert á móti, að hún sje nokkur. — Hv. frsm. (E. Árna.) talaði og um það, að Íslandsbanki mundi ekki geta fengið lán, nema sem svaraði litlum hluta af hlutafje hans. En það er misskilningur. Lánstraustið miðast alls ekki við hlutafjeð. Banki getur fengið meira lán en sem svarar öllu hlutafje hans, ef hann að eins gefur nægða tryggingu fyrir láninu. Þá sagðist hv. frsm. (E. Árna.) hafa ætlað að minnast á eftirlit með bönkum, en gleymt því. Það rengi jeg ekki. En það lítur illa út, þegar hvorki er á það minst í nál. nje heldur í framsöguræðunni. — Það, að bankaráðið sje ákjósanlegra en þessir menn, það fæ jeg ekki skilið. Og svo hugsa jeg að sje um fleiri, með tilliti til þess, sem 15 ára reynsla hefir sýnt okkur. Víst er um það, að víða úti um landið hefir það ekki þótt gott hingað til, að þingið kysi bankaráðsmenn. Mönnum hefir þótt brenna við, að bankinn öðlaðist með því fylgismenn, og kosningin hefir þótt valda kapphlaupi um feitan bita. Þetta er ein af þeim ástæðum, sem frá mínu sjónarmiði mæla móti því, að haldið sje í bankaráðið. — Hv. frsm. meiri hl. (E. Árna.) sagði, að það væri ekki á allra meðfæri að dæma um þetta mál, til þess þyrfti bankafróða menn. Og er það rjett. En háttv. meiri hl. nefndarinnar hefir þó leyft sjer að dæma það. Fyrst hann álítur málið svo flókið, að ekki sje öðrum en bankafróðum mönnum fært að dæma það, þá finst mjer, að hann hefði gjarna mátt taka tillit til þess, að í bankanefndinni átti sæti Þorsteinn Þorsteinsson, hagstofustjóri, sem hefir lagt sjerstaka stund á bankamál og er bankafræðingur. Hann, með sinni sjerþekkingu, hefir hugsað mál þetta miklu lengur en meiri hl. nefndarinnar og ekkert fundið athugavert við það. — Allir sjá, hvílík mótsögn er í þessu. Nefndin segir í öðru orðinu, að málið sje svo vandasamt, að hún treysti okkur ekki til að fara með það. En þó hikar háttv. meiri hl. ekki við að leggja alt annað til en er vilji hins bankafróða manns. — Þá skildist mjer á hv. framsm. (E. Árna.), að jeg mundi hafa „agiterað“ í málinu, eða reynt að telja samnefndarmenn mína á að taka frv. En jeg neita, að svo hafi verið, enda er jeg ekki gjarn á slíkt. Nefndarmenn sögðu sjálfir, að þeir hefðu áhuga fyrir þessu máli og hefðu lesið tilheyrandi skjöl. Hv. frsm. (E. Árna.) gaf enn fremur í skyn, að jeg hefði ætlað að hræða deildina til að taka þessu frv. En það er heldur ekki rjett. Það ætti miklu fremur við um hæstv. forsætisráðherra (J. M.). — Jeg sagði áðan, að jeg áliti hyggilegra að drepa ekki málið að svo komnu. En jeg hafði þá ekki tekið eftir, að það er prentvilla á dagskránni, þannig, að þetta er framhald 1 umr., en ekki 2. umr.

Ástæðan til þess, að Landsbankinn og meiri hl. vill ekki að seðlaútgáfurjetturinn sje tekinn af Íslandsbanka, er einungis hræðsla. Þetta kemur einmitt glögt fram í lok nefndarálits hv. meirihl., að þeir treysta ekki Landsbankanum til að takast á hendur stjórn peningamálanna. Þetta stendur skýrum stöfum í nefndarálitinu. Þar stendur: „Fyrir Landsbankann mundi slíkur óvissutími vera hinn hættulegasti til að auka viðskifti nú í stórum stíl og takast á hendur stjórn peningamálanna.“ Þar er því berlega játað, af hv. meiri hl., að með þessu frv. eigi Landsbankinn að takast á hendur stjórn peningamálanna í landinu. En bæði hv. meiri hl. nefndarinn og auk þess stjórn Landsbankans eru því mótfallin. Þetta er hættulegt, segja þeir, því skulum við ekki gera það. Að vísu skal jeg játa, að nú sjeu hættulegir tímar að þessu leyti, en því meiri ástæða væri til fyrir þjóðbankann að taka að sjer stjórn peningamála. Þó sje jeg ekki, að nú sjeu neitt hættulegri tímar en meðan stríðið stóð yfir. Að vísu getur altaf peningakrisis vofað yfir. En einmitt þá er mikilsvert, að stjórn peningamálanna sje í góðum höndum. Og þó Landsbankinn kynni að bíða við það eitthvert tjón, þá gæti það tjón orðið margfaldur hagnaður landinu sjálfu. Jeg þarf ekki að svara neinu í ræðu hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.). Hann talaði aðallega til hæstv. forsætisráðherra og ávítaði hann. Jeg ætla ekki að blanda mjer í það, en þó vil jeg benda háttv. þm. á, að hann er nú orðinn hæstv. forsætisráðherra sammála um það, að ekkert sje að hafa upp úr seðlaútgáfurjettinum. Því fyrst Landsbankinn vill ekkert hafa af því að segja, þá dreg jeg þar af, að það sje álit bankastjórnarinnar, að á því sje enginn hagnaður. — Þetta horfði öðruvísi við fyrir augum háttv. sama þm. (B. Sv.) á þingi 1917. Þá taldi hann þetta vera alveg stórkostleg hlunnindi fyrir Íslandsbanka. Hæstv. forsætisráðherra er sjálfum sjer samkvæmur enn, en háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) ekki. Hann er nú kominn á aðra skoðun. — Það er rjett hjá hv. þm. N.- Þ. (B. Sv.), að seðlabanki hefir altaf talsverðar skyldur gagnvart því opinbera. En þar, sem ekki eru nema tveir bankar, eins og hjer á sjer stað, kemur þessi mismunur lítt fram. Öðru máli er að gegna annarsstaðar víða, þar sem eru margir bankar. Þess munu dæmi, að seðlabönkum sjeu bönnuð ýms venjuleg bankastörf. Um þetta er ekki að ræða hjer, enda rekur Íslandsbanki ýms störf önnur, alveg eins og Landsbankinn. — Að síðustu vil jeg taka það fram, að jeg tel langhyggilegast að taka þessu frumv., þar sem ekki eru betri kostir í vændum.

— Jeg gleymdi að taka það fram í fyrri ræðu minni, að afstaða bankastjórnarinnar var sú, að hún taldi skilyrðin viðvíkjandi seðlaútgáfurjettinum vera viðunandi, og að það væri hagur fyrir bankann að taka við honum með þessum skilyrðum. Hins vegar mun hún ekki hafa verið spurð um, hvort hún áliti þetta hag fyrir landssjóð — Mjer er kunnugt um, að hæstv. atvinnumálaráðherra hefir rætt um þetta við stjórn bankans áður en frv. var lagt hjer fram fyrir þingið og að bankastjórnin samþykti það. En því undarlegar kemur mjer fyrir sjónir, hvernig bankastjórnin snýst nú í málinu, og mig tekur það sárt, að hún skuli nú berjast á móti þróun og vexti landsins eigin banka og það í þágu erlends hlutafjelags, alt samtímis og hún reynir að narta í sparisjóði landsins, og eftir að hún hefir lýst því yfir, að hún vildi veita rjettinum viðtöku. Það er grátlegt, að stjórn bankans skuli verða til þess að drepa hendi við vexti hans.