17.07.1919
Neðri deild: 9. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í B-deild Alþingistíðinda. (287)

33. mál, tollalög

Pjetur Ottesen:

Jeg skal ekki vera langorður. Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) vildi gera lítið úr óttanum við tollsvik, og vildi ekki telja það næga röksemd fyrir framkomu brtt. okkar, um niðurfærslu tóbakstollsins. Hvað sem um það verður sagt, þá er það víst, og það undirskrifa líklega flestir, að freistingin til tollsvika hlýtur að aukast við hækkun tollsins. Nú er ætlast til, að hann verði helmingi hærri heldur en hann var fyrir fáum árum. Þá var hann 2 kr., 1917 var hann færður upp í 3 kr., og frv. stjórnarinnar fer fram á að hækka hann nú upp í 4 kr. Meðan hann var 2 kr., þá komu þráfaldlega fyrir tollsvik, og það í stórum stíl, t. d. hjer í Reykjavík. Nú á að gera tollinn tvöfalt hærri en þá, og það dylst víst engum, að freistingin, og þá tollsvikin, verði meiri. Ástæðu okkar, hvað þetta snertir, er því enn ekki hnekt.

Mjer skilst, að þessi hækkun sje rökstudd með því, að landssjóður þarfnist tekna, hvað sem það kostar, og þá sje rjettast að hækka tolla á þeim vörum, sem ekki sjeu nauðsynjavörur. Tóbak er ekki kallað nauðsynjavara; en hvað um það; margir telja sig alls ekki geta án þess verið. Jeg hefi heyrt marga tóbaksmenn halda

því fram, að þeir vilji heldur vera svangir en tóbakslausir. Þó að þeir kjósi þetta ef til vill ekki til lengdar, þá nægir þetta þó til að sýna, að tóbak er vara, sem menn afla sjer í lengstu lög, og það þó þeir verði að neita sjer um ýms önnur þægindi til þess.

Mig minnir, að það væri hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.), sem komst að þeirri niðurstöðu 1917, er tóbakstollurinn var þá til umræðu, að meðaltóbaksnotkun væri um 4 kg. á mann. Setjum nú svo, að það sjeu 5 menn á sama heimili, sem neyta tóbaks; þá er þessi tveggja ára tollur 40 kr. skattur á slíkt heimili, af þessari einu vörutegund.

Það hefir verið talað um, að þessi hækkun kæmi aðallega við ríku mennina; en svo er ekki. Þeir borga ef til vill mest af tollinum, en hann kemur þó ekki tilfinnanlegast við þá; jeg tel ekki eftir þeim að borga hann. Þeir, sem mest finna til hans, verða fátæklingar og gamalmenni, sem geta ekki neitað sjer um tóbak. Þeir slíta sjer út og hafa slitið sjer út í þágu þjóðfjelagsins, hafa átt við þröng kjör að búa, hafa, sumir hverjir, lítils notið af gögnum og gæðum lífsins. Einasta ánægjan þeirra í ellinni er ef til vill pípan eða pontan. Sjer til skap- og hugarljettis taka þeir í nefið eða þess háttar. Svo á að fara að taka af þessum mönnum ánægjuna, eða gera þeim erfiðara fyrir að geta veitt sjer hana; það á að leggja á þá byrði, í stað þess að ljetta af þeim.

Stjórnin ber fyrir sig, að auka þurfi tekjurnar, og það er satt. Helst hefði þurft að taka alla tollalöggjöfina fyrir og endurskoða. En ekki vil jeg kasta hnútum að stjórninni, þó henni hafi ekki unnist tími til þess. Á þessu þingi verður því að reyna að lappa eins mikið og hægt er upp á þetta margbætta fat, til þess að það geti hulið nekt landssjóðs. En það get jeg ekki fallist á, að altaf eigi að bæta á þessa sömu tekjustofna, og þá einkum þessa sömu vörutegund, sem þó ber mikið fyrir. Hún er heldur ekki að minsta kosti meiri óþarfi en margt annað, og get jeg þar nefnt brjóstsykurinn. Við viljum láta hækka á honum, og jeg er hissa á, hvað hæstv. fjármálaráðherra tók því fálega. (Fjármálaráðherra: Jeg var því meðmæltur.) Já, að vísu, en gerði afarlítið úr því, sem þó er ekki rjett. því hækkunin næmi miklu, þar sem mikið er flutt inn, og svo höfum við, flm. þessarar brtt., hugsað okkur að koma með frv. um toll á brjóstsykri, sem búinn er til hjer á landi. Og lítinn skaða gæti jeg talið það, þó þess háttar væri ríflega tollað. Brjóstsykurinn gerir ekkert annað en æsa upp og egna fýsnir barna og unglinga, og skaðskemmir tennur þeirra. Nú er svo komið, í kaupstöðum að minsta kosti, að önnur hver manneskja er tannlaus um fermingaraldur og mikið af brjóstsykuráti.

Þá mætti líta víðar og tolla og hækka toll á ýmsum nýlenduvörum, svo sem rúsínum og kryddvörum. (E. A.: Ekki eru þær óþarfi.) Menn geta að minsta kosti vel án þeirra verið. (E. A.: Komast menn af án grauts?) Ekki ef ekki gæti annað komið í hans stað, og enginn er of góður til að jeta hann rúsínulausan.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) benti á aðrar þjóðir í þessu sambandi, hvað þær sjeu nú djarftækar í skatta- og tollaálögum, og dettur mjer þá í hug að vekja athygli hæstv. fjármálaráðherra á því, að Englendingar hafa í hyggju að koma á piparsveinaskatti, og mætti vel athuga það. (Hlátur.) Jeg álít að minsta kosti, að betra væri að hæfa gjaldþol þeirra, áður en farið verður að níðast á fátæklingum og gamalmennum. (B. J.: En því ekki líka piparmeyjaskatt ?) Háttv. þm. Dala. (B. J.) getur komið fram með tillögu um það, ef hann álítur, að það fækki piparmeyjum.