16.08.1919
Neðri deild: 37. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í C-deild Alþingistíðinda. (2872)

9. mál, seðlaútgáfuréttur Landsbanka Íslands

Frsm. meiri hl. (Einar Árnason):

Jeg býst nú við, að þetta mál fari að verða útrætt frá minni hálfu. Þetta frv. er þannig vaxið, að óþarfi er um það að deila. Gallarnir eru auðsæir. Í framsöguræðu minni reyndi jeg að haga svo orðum mínum, að ekki þyrfti að komast hiti í umræðurnar. En mjer finst ekki laust við, að nokkurs kapps hafi kent af hálfu hv. minni hl. nefndarinnar. Háttv. frsm. minni hl. (M. G.) sagðist vera hissa á, hvað meiri hl. gerði þetta mál svart í augum þingsins. En jeg undrast engu minna, hvað mikið hann reynir að gylla frv. — Það virðist svo, sem hv. frsm. minni hl. (M. G.) þyki einskis vert, að um leið og lagðar eru þungar kvaðir á Landsbankann, þá er Íslandsbanka veittur rjettur til að auka hlutafje sitt og veltufje um miljónir króna, og með því gefið tilefni til þess að kasta sjer út í allskonar fjárgróðafyrirtæki, sem gætu orðið hættuleg fyrir landið og Landsbankann. Hv. framsm. minni hl. (M. G.) finst ekki heldur skifta miklu máli, þótt ríkið sleppi íhlutunarrjetti þeim, sem það hefir nú um rekstur Íslandsbanka, svo að hann geti hagað öllum framkvæmdum eftir eigin geðþótta, og það þótt ofan á þetta bætist, að gjald hans til ríkissjóðs er minkað stórum, einmitt á þeim tíma, sem bankar í nágrannalöndunum greiða fje, sem skiftir miljónum, til ríkisþarfa. — Hjer er því greinilega farið í öfuga átt við það, sem tíðkast annarsstaðar. Og þetta telur minni hl. alls ekkert athugavert. En þegar svo langt er komið blindninni í þessu máli, þá er tilgangslaust fyrir meiri hl. að ræða það öllu meira; jeg geri ráð fyrir, eins og málið nú er komið, og eftir gyllingar hv. minni hl., að þá muni ekki þýða að halda uppi deilum. Að eins vildi jeg fá að drepa á fáein atriði. — — Háttv. framsm. (M. G.) gat þess í ræðu sinni, að jeg teldi þingið hafa misstigið sig í þessu máli áður fyr, og því ætti mjer að vera ljúft að stíga spor til baka. — Þetta er rjett; enda skal jeg fúslega fylgja hv. framsm. minni hl. (M. G.), þegar jeg sje, að hann er á rjettri leið í málinu. En það spor, sem hann er nú að stíga, leiðir út í enn meiri ófæru. — Enn vildi hv. frsm. minni hl. (M. G.) gera mjög lítið úr áhrifum bankaráðsins á rekstur Íslandsbanka. Það kann rjett að vera, að þeirra hafi lítið gætt. En það er ekki lögunum að kenna, heldur þinginu, og úr því er auðvelt að bæta. — Þá eru eftirlitsmennirnir, sem mælt er fyrir um í þessu frv. Um þá er það að segja, að jeg legg ekki meira upp úr þeim en hv. minni hl. upp úr bankaráðinu, því valdsvið þeirra er miklu minna heldur en bankaráðsins. Hið eina, sem þeir geta haft hönd í bagga með, er að gæta þess, að bankinn gefi ekki út of mikið af seðlum. Að öðru leyti geta þeir engin áhrif haft á starfsemi bankans. — Þá sagði hv. framsm. minni hl. (M. G.), að afstaða Íslandsbanka til ríkisins væri óbreytt eftir frv. Það er ekki rjett. Eftir frv. verður Íslandsbanki ekki lengur seðlabanki í eiginlegri merkingu, og hefir því ekki sömu skyldum að gegna og venja er um slíka banka. Hann getur því tekið sjer fyrir hendur eitt og annað, sem honum er óleyfilegt sem seðlabanka. Viðvíkjandi því, sem háttv. frsm. minni hl. (M. G.) sagði, að bankinn gæti fengið nægilegt fje að láni, þó að hann yki ekki hlutafje sitt, þá get jeg ekki gengið inn á, að svo sje. Því þegar bankinn tekur lán, verður hann að gefa tryggingu fyrir því, og til þess hefir hann ekki annað en hlutafjeð. Lánstraust bankans er því bundið við upphæð hlutafjárins. Enn fremur sagði hann, að það hefði mátt skilja orð mín á þann veg, að hann hefði reynt að hafa áhrif á skoðanir nefndarmanna. Það sagði jeg ekki. Heldur hitt, að er málið var rætt við bankastjórn Landsbankans, þá hefðu komið fram margar nýjar skýringar á því. Jeg er ekki að lá hv. frsm. minni hl. (M. G.), þótt hann hafi skýrt málið frá sjónarmiði hv. minni hl. Það er ekki nema eðlilegt. Og jeg læt ósagt um, hvort hann hefir ætlað að „agitera“ fyrir málinu í nefndinni. Þá talaði hann um, og taldi miklu tryggilegra, að eins og ástandið væri, þá hefði Landsbankinn seðlaútgáfuna, og tæki þar með að sjer stjórn peningamálanna. Því skal jeg ekki bera á móti. Að eins er spurning um, hvort bankinn sjer sjer það fært, eins og hjer er í pottinn búið. Að minsta kosti álítur bankastjórnin það ekki. Hins vegar er óhætt að fullyrða, að Landsbankinn getur haft allmikil áhrif á fjármálastefnurnar, með þeim stuðningi, sem löggjafarvaldið getur látið honum í tje. Sú skoðun kom líka fram í deildinni — það var víst bæði hv. framsm. minni hl. (M. G.) og hæstv. forsætisráðherra (J. M.) — að það væri nauðsynlegt að eiga þetta frv. í fórum sínum, ef snurða kæmi á þráðinn í samningum við Íslandsbanka um seðlaútgáfurjettinn. Þetta er nokkuð nýtt hjer. Og það verður varla skilið á annan veg en þann, að Íslandsbanki mundi ekki vilja þiggja framlengingu á seðlaútgáfurjettinum, ef þetta frv. næði ekki fram að ganga. En fyrir mitt leyti er jeg viss um, að bankinn hefir hyggnari fjármálamönnum á að skipa en svo, að þeim kæmi slíkt til hugar. En hvað sem um þetta er, þá bætir það ekki málstað hv. minni hl. Íslandsbanki hefir svo marga viðskiftamenn og stóra, að honum mundi ekki haldast uppi að draga saman seglin og innheimta stórfje. Það yrði til stórtjóns, ekki einasta viðskiftamönnunum, heldur og bankanum sjálfum. Þetta kemur því ekki til mála, allra síst sem meðmæli með þessu frv. — Líka var því haldið á loft hjer í deildinni, að meiri hl. nefndarinnar bakaði sjer talsverða ábyrgð með því að leggja á móti frv. Því fer fjarri, að jeg geti fallist á, að þetta sje rjett eða sanngjarnt á nokkurn hátt. Málið er þannig vaxið í stuttu máli, að undanfarin þing hafa framlengt rjett Íslandsbanka til seðlaútgáfu um víst tímabil. Nú hafa staðið samningar við bankann um að fá þessu breytt, ef það sje mögulegt. Þessir samningar eru svo lagðir hjer fram fyrir hv. þingdeild í frumvarpsformi. Ef nú þinginu þykir þessir samningar óaðgengilegir, þá fellir það frv., og þá stendur málið nákvæmlega á sama grundvelli og á undanförnum þingum. Jeg get heldur ekki sjeð, að það sje móðgun gagnvart Íslandsbanka á neinn hátt. Þá kom það og fram hjá hv. frsm. minni hl. (M. G.), að hann teldi dagskrána vera skrítinn og óviðkunnanlegan endi á þessu máli. Þar er jeg honum heldur ekki sammála. Jeg get ekki skilið, að það þurfi neina sjerstaka viðhöfn til að fella þetta frv. Hvort dagskráin er borin upp nú þegar, eða ekki fyr en við 2. umr., ef frv. kemst þá svo langt, það læt jeg mig engu skifta. Jeg skal láta þess getið, að meiri hl. er fús til að láta það bíða til 2. umr. Annað mál er það, að atkv. get jeg ekki greitt með málinu áfram; jeg sje enga ástæðu til að tefja þingtímann með því að halda líftórunni í máli, sem sjálfsagt er að fella.

Mjer er ekki kunnugt um það, hvernig málið stendur í deildinni, en færi svo, að frv. yrði samþ., þá get jeg ekki annað en óskað þess, að það reyndist happadrýgra fyrir landið heldur en meiri hl. fjárhagsnefndar þorir að vona.