16.08.1919
Neðri deild: 37. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í C-deild Alþingistíðinda. (2875)

9. mál, seðlaútgáfuréttur Landsbanka Íslands

Gísli Sveinsson:

Jeg ætla ekki að blanda mjer inn í það í þessu máli, sem kalla mætti ádeilu milli einstakra manna. Jeg ætla ekki að blanda mjer í það, þótt einstaka þm., svo sem hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) geri nú upp við stjórnina sína, en þess vil jeg þó láta getið, að þótt jeg og fleiri háttv. þm. hefðum ýmislegt út á stjórnina að setja, þá hefir okkur þó aldrei komið til hugar að bregða neinum ráðherranna um, að þeir væru föðurlandssvikarar.

Annars furðar mig á, hversu margir bankafræðingar eru alt í einu risnir upp hjer í hv. deild. Og mig furðar á, eftir ummæli þau, er hv. frsm. meiri hl. (E. Árna.) ljet falla, að það væri ekki allra færi að dæma um þetta mál, og gætu hv. þm. alment ekkert sagt af viti um það. Þetta er alveg rjett, því að aðstaða seðlabanka gagnvart þjóðfjelaginu og til annara banka er eitthvert mesta og flóknasta mál bankapólitíkurinnar um öll lönd, og er því einkennilegt, ef þeir, sem ekki eru meira bankafróðir en búandmenn þessarar hv. deildar hljóta að vera, geta sagt, hvað eigi að gera og hvað eigi ekki að gera í slíkum málum. Að vísu eru hv. þm. meiri hl., þeir hv. 2. þm. Eyf. (E. Árna.), hv. 1. þm. Árn. (S. S.) og hv. þm. Barð. (H. K.), efunarlaust mikilhæfir menn. En að þeir væru bankafróðari en alment gerist um menn með líkri mentun, það vissi jeg ekki. Jeg hefði því kunnað betur við, frá almennu sjónarmiði, að þessir hv. þm. (E. Árna., S. S. og H. K.) hefðu látið sjer nægja að skýra frá skoðun þeirra manna, er þeir hefðu trúað að skyn bæru á málið, t. d. bankastjóra Landsbankans, eða einhvers annars, og lýsa svo yfir því, að þegar þessir menn legðu þetta til, t. d. að fella frv., þá treystust þeir ekki að hallast að því, einkanlega er það hefir nú líka komið fram hjá háttv. framsm. meiri hl. (E. Árna.), að hann hefir ekki frekari rök fram að færa en þau, sem um er getið í nefndarálitinu.

Að því er mjer virðist, er það aðallega þrent, sem deilt er um. Fyrst og fremst, hvort Landsbankinn mundi hafa hagnað eða tap af seðlaútgáfurjettinum. Meiri hl. hv. nefndar segir, að hann mundi tapa, ef hann taki seðlaútgáfurjettinn nú. Auðvitað er þetta, eins og allir sjá, ekki annað en ágiskun, staðhæfing. Þá er spurningin um, hvort þessi staðhæfing sje á nokkrum rökum bygð. Verðum við þá að líta til þeirrar reynslu, er við höfum þessu viðvíkjandi, því að reynslan er og verður altaf öruggasti og besti leiðarvísirinn í þessu máli, sem öðrum. Vjer getum í þessu máli litið til reynslu einnar stofnunar, og er það Íslandsbanki. Hefir hann grætt eða tapað á seðlaútgáfunni? Jeg býst við, að allir háttv. þm. sjeu sammála um, að hann hafi grætt á henni. Að minsta kosti hefir hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), sem nú hefir verið settur bankastjóri um tíma, á undanförnum þingum hamrað á því, bæði í tíma og ótíma, hversu óforsvaranleg hlunnindi seðlaútgáfan sje Íslandsbanka. Hefir hann tæmt málið að stóryrðum til þess að auglýsa þetta hneyksli. Það er því ekki að undra, þótt mann furði, að nú skuli hann leggjast þvert á móti því, að Landsbankinn fái seðlaútgáfurjettinn, af því að hann tapi á því. (B. Sv.: Jeg sagði aldrei, að hann mundi tapa á honum). Hv. þm. (B. Sv.) sagði, að allar líkur væru til þess, að Landsbankinn tapaði, eins og nú stæðu sakir. Nú hefir Íslandsbanki grætt á útgáfunni, og hver eru þá rök til þess, að Landsbankinn tapi? Eftir þeim spyr jeg.

En ef það eru nú ekki hlunnindi fyrir Landsbankann að fá seðlaútgáfurjettinn, þá býst jeg við, að þessir sömu háttv. þm. muni og framvegis verða því mótfallnir, að Landsbankinn fái hann, þó að sá tími sje kominn, er liðin eru þessi 15 ár, sem Íslandsbanki á eftir að hafa hann enn. Verða þessir hv. þm. því líklegast að fara fram á, að Íslandsbanki vildi gera svo vel að halda honum áfram, vildi gera svo vel að halda áfram að gefa út seðlana eftir viðskiftaþörfinni. En hver er reynslan í þessu máli? Á henni á, eins og jeg sagði áðan, að byggja umr. Og reynslan er sú, að dómi allra þeirra, utan lands og innan, sem vit hafa á, að seðlaútgáfa sje yfirleitt mikil hlunnindi. Hvernig stendur þá á því, að Landsbankinn skuli þurfa að tapa á seðlaútgáfunni, þegar Íslandsbanki og allir aðrir bankar, sem slík hlunnindi hafa, græða, annaðhvort beinlínis eða óbeinlínis? Jeg læt mjer nægja að spyrja þessarar spurningar.

Enn fremur er því haldið fram af þeim, er fella vilja frv., að ef það gangi fram, þá falli burtu öll trygging fyrir eftirliti með starfrækslu Íslandsbanka af hálfu hins opinbera. Eftirlitsmennirnir, sem 7. gr. frv. gerir ráð fyrir, verði ekki að neinu haldi. Jeg spyr, hver er reynslan viðvíkjandi þessu, viðvíkjandi bankaráðinu? Hún er nú orðin svo þjóðkunn, að það veit hvert mannsbarn, sem sje, að þessir bankaráðsmenn hafa aldrei verið annað en „humbug“. Bankaráðsstarfið hefir aldrei verið veitt öðruvísi en sem bitlingur. Hafa í þessa stöðu einatt verið skipaðir menn, sinn af hverju landshorni, menn, sem því engan veginn gátu stöðuglega litið eftir starfi bankans, eða aðrir, sem alls ekki voru færir til þess; enda ekki til þess ætlast. Fyrir þessu hefir Alþingi staðið, og hverjar líkur eru til, að bankaráðið yrði eftirleiðis öðruvísi skipað? Mjer sýnist svo á horfast hjer í þinginu, að bitlingasýkin fari ekki minkandi. — Nei, það er ekki furða, þótt hátt láti í bitlingamönnum þingsins, núverandi eða tilvonandi, er til tals kemur að afnema þetta bankaráð!

Þetta eru aðalatriðin, sem jeg vildi taka fram, viðvíkjandi málinu alment.

Hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) taldi, að það væru engin dæmi til, að „privat“- banka hafi verið veitt slík hlunnindi sem þau, að fá að auka hlutafje sitt. Veit þá hv. þm. (J. B.) ekki, að „privat“-bankar eru einmitt miklu frjálsari en þjóðbankar? Á þjóðbönkunum og seðlabönkunum hvíla miklu fleiri hömlur vegna skyldunnar, sem þeir hafa að gegna við alþjóð.

Þegar litið er á það, hvernig á þessu máli muni standa, þá er það sjeð og vitað, að þingið hefir sjálft samþykt, að farið skyldi inn á samningaleiðina. Og þessi tilraun var gerð af mönnum, sem eg býst við að enginn dirfist að efast um, að þeir hafi verið fullvel til þess fallnir. Jeg veit að minsta, að einn þessara manna muni vita meiri deili á þessum efnum heldur en hinir hv. 3 eða 4 þm., sem dæma um þessa samninga. En tilgangurinn gat ekki verið sprottinn af öðru en því, að koma í veg fyrir, að Íslandsbanki hjeldi seðlaútgáfurjettinum áfram. Og jeg fæ ekki betur sjeð en að þetta hafi verið þjóðlegasta stefnan, að ná seðlaútgáfurjettinum, þótt ekki væri í bráð nema að nokkru leyti, í hendur landsins, eða Landsbankans. Jeg geri ráð fyrir, að þeir, sem vilja fara þessa leið, verði hjer eftir, eins og nú um stund hefir bólað á, stimplaðir sem þjóðníðingar. Því að svo hefir málið verið rætt, m. a. í blaði einu, sem stendur nærri sumum mönnum hjer í deildinni. (E. A.: Þar á meðal atvinnumálaráðherra). Það er nú víst að kveðja hann. En því er þó ekki að leyna, að blaðið styður atvinnumálaráðherra, sem hefir lagt frv. fyrir þingið. Og það er þó fullyrt, að bankastjórar Landsbankans hafi ekki sjeð neitt í vegi fyrir þessu, er málið var borið undir þá í byrjun. En nú bregður svo kynlega við, að þeir treysta ekki bankanum til að taka við seðlaútgáfunni, jafnvel þótt í stjórn bankans sitji nú um tíma maður, sem hæst hefir látið um þetta áður. Nú er bankastjórnin orðin svo kjarklaus, að hún treystist ekki til að taka hluta af seðlaútgáfurjettinum í sínar hendur. Nú heldur hún, að það mundi verða landinu til stórtjóns. Eftir þær umbætur, sem nú hafa verið gerðar á stjórn bankans, þar sem stjórn hans skipa 3 menn, hver með þekkingu á sínu sviði, að því er ætla skal, skyldi maður hafa ætlað, að bankastjórnin hefði reynt að taka við þessum hlunnindum, eða þá koma með einhver rök fyrir höfnuninni. Og mjer eru það mikil vonbrigði, að bankastjórnin skuli ekki treysta sjer að taka tilboðinu. En einkennilegast virðist mjer það þó vera, að bankastjórnin skyldi ekki vita þetta meðan verið var að semja. Því að þá hefði aldrei til þess komið, að frekar yrði af samningum. Jeg geri að minsta kosti ráð fyrir, að málið hefði aldrei komið fram gegn eindregnum mótmælum bankastjóranna. Þess vegna neyðist maður til þess að efast um, að bankavitið hafi flust inn í Landsbankann við breytinguna.

Jeg verð að taka undir það með ýmsum öðrum, að mjer er forvitni á að vita, hvað meiri hl. ætlast fyrir. Jeg á ekki við það, hvort á að semja við Íslandsbanka um, að hann auki seðlaútgáfuna nú um sinn. Hann verður vitanlega fús á það, því að það er hans hagur. Jeg lít rýmra á málið. Jeg spyr: Hvað á að gera framvegis ? Á að vera loku fyrir skotið, að landið nái nokkurn tíma seðlaútgáfurjettinum af Íslandsbanka? Það sýnist vera um aldur og æfi beinn óhagur eftir till. meiri hl. Mjer er forvitni á að vita, hvað nefndin hugsar sjer að gera við málið í framtíðinni. Meiri hl. verður að svara til. Á nú að leggja árar í bát í þessu þjóðmáli, sem að þessu hefir verið áhugamál svo margra góðra manna?