20.08.1919
Neðri deild: 40. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í C-deild Alþingistíðinda. (2889)

21. mál, landsbókasafn og landsskjalasafn

Frsm. (Einar Arnórsson):

Við forsætisráðherra (J. M.) erum eiginlega sammála, því að hann játaði, að heppilegra væri hjer að greina sundur störfin en að sameina þau undir einum manni. Að eins greinir okkur á um, hvort sparnaður sje að breytingunni. Jeg skil ekki, að hann geti haldið því fram, að breytingin sje til sparnaðar svo nokkru nemi, og verð að halda mjer við það álit nefndarinnar, að hún hafi með tímanum aukakostnað í för með sjer. Það mundi verða þannig, að þessi eini yfirmaður yrði með tímanum verknaðarlítil „toppfigura“. Starf hans mundi aðallega verða fólgið í því, sem landsbókavörður í brjefi sínu færir undir hugtakið „Repræsentation“, og svo brjefaskriftir. Og það er ekki líklegt, að hann fari að gera „púls“-verk, fremur en landsbókavörður nú.

Í áætlun sinni um launin fór mentamálanefnd eftir launafrv. stjórnarinnar um lægri launin, en eftir áætlun í samræmi við það með þau hærri. Og nefndin komst að þeirri niðurstöðu, að 22200 kr. verði launaupphæðin, ef breytingin verður gerð, en annars 20000 kr. Þetta er nákvæm áætlun, og er mjer óskiljanlegt, hvernig hæstv. forsætisráðherra (J. M.) fær út sparnað af frv. sínu. Nú eru skipaðir tveir menn við þjóðskjalasafnið, skjalavörður og aðstoðarskjalavörður, og mundi ekki fært að fækka þeim, þótt skipun sú kæmist á, sem í frv. er farið fram á. Og við landsbókasafnið geta ekki verið færri. Skipulag og tilhögun safnanna yrði yfirmaðurinn að dæma með annara augum, nema hann verði eitthvert „Übermensch“,— afburðamenni, sem fái afkastað meiru en mannlegt er að afkasta. En við þeim mönnum megum við ekki búast, hvorki í þessa stöðu nje aðrar.

Samanburðurinn á þessum embættum og sýslumannsembættunum í Dala- og Strandasýslu getur ekki staðist. Störf sýslumanna eru alveg samskonar í báðum sýslunum, en hjer er alt öðru máli að gegna. Hjer þarf sjerstök skilyrði, bæði hvað verksvit og þekkingu snertir, til hvors um sig, að dómi allra sem til þekkja.