17.07.1919
Neðri deild: 9. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í B-deild Alþingistíðinda. (289)

33. mál, tollalög

0289Frsm. (Einar Árnason):

Báðir háttv. flm. brtt. á þgskj. 102 (P. O. og B. St.) eru fjárhagsnefndinni sammála um það, að brýn þörf sje á að auka tekjur ríkissjóðs. Það lægi því nærri að ætla, að þeir vildu styðja hana að málum í þeim sökum.

En það er ekki nóg að viðurkenna þörfina, en gera ekkert til þess að bæta úr henni.

En besta hjálpin, sem þeir gætu veitt, væri sú, að taka aftur brtt. sínar.

Nú er jeg alls ekki viss um það, þótt tollhækkun þessi komi í gildi, að hún nemi þá meiru en sem svarar verðfalli peninga. En allir sjá, að ríkissjóður getur ekki staðist það, að fá tekjur sínar svo að segja í sviknum eyri, en verða þó að greiða gjöld sín í fullum mæli.

En hvað hefir svo verð á tóbaki verið hjer undanfarandi? Það hefir komist upp í 20 til 30 kr. pundið, og sýnir það, eins og jeg hefi áður sagt, að hjer er ekki um það spurt, hvað varan kostar, heldur hitt, að hún að eins fáist.

Ein aðalástæðan, sem flutt er fyrir brtt., er tollsvikin. En það er hið sama og altaf hefir kveðið við síðan fyrst var um tolla talað.

Á þingi 1917 flutti jeg, ásamt fleirum háttv. þm., frv. um tollhækkun á þessum sömu vörum, og var þá einnig borin fram sama ástæðan á móti, og meira að segja talið víst, að tekjuaukinn mundi enginn verða fyrir landssjóð.

Jeg skal nú ekki segja um, hvort tollsvik hafa aukist síðan, en hitt veit jeg, að tollur þessi hefir orðið landssjóði talsverður styrkur.

Auðvitað verður ekki hjá því komist, að einstöku skipverjar komi tollsvikum við, en það er engin ástæða móti frv. þessu; það mætti þá eins segja, að hætta yrði við alla tolla af þeim ástæðum.

Aðallega mun tóbak vera flutt á land hjer í Reykjavík, og því skal ekki neitað, að tollgæsla er hjer helst til lítil. En hins vegar verður það að teljast vel mögulegt, að hún verði aukin, og sömuleiðis í öllum stærstu kauptúnum landsins.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) talaði í sömu átt og jeg, og hefi jeg því ekki ástæðu til að segja fleira. Að eins vil jeg, fyrir nefndarinnar hönd. leggja það fastlega til, að b.- og e.-liður brtt. á þgskj. 102 verði feldir. Hina liðina tvo mun nefndin ekki gera að neinu kappsmáli.