01.08.1919
Neðri deild: 23. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í C-deild Alþingistíðinda. (2893)

106. mál, sóttvarnaráð

Frsm. (Þorleifur Jónsson):

Eins og kunnugt er, var vísað til allsherjarnefndar frv. því um heilbrigðisráð, er stjórnin lagði fyrir Alþingi.

Í frv. stjórnarinnar er farið fram á þá breytingu á stjórn heilbrigðismála landsins, að landlæknisembættið sje lagt niður, en starf landlæknis fengið í hendur heilbrigðisráði, sem 3 læknar eigi sæti í. Allsherjarnefnd hefir nú athugað þetta mál á ýmsa lund; meðal annars hefir hún átt tal við landlækni um málið. Hann hjelt hinu sama fram við nefndina sem í brjefi sínu til stjórnarinnar, þar sem hann er að sýna fram á, hvílíkum erfiðleikum það sje bundið fyrir einn mann að hafa á hendi stjórn heilbrigðismálanna o. s. frv. Af annari hálfu lá fyrir nefndinni álit læknafundarins í vor, þar sem ekki er talin þörf á breytingu þeirri, sem frv. gerir ráð fyrir, og að landlæknisembættið sje ekki ofvaxið einum manni, ef hann gefi sig óskiftan að því.

Eftir að nefndin hafði athugað málið, komst hún að þeirri samhljóða niðurstöðu að mæla ekki með frv. stjórnarinnar. En þótt hún vildi ekki fallast á það, þótti meiri hl. nefndarinnar varúðarvert að láta landlækni einráðan um stjórn sóttvarnarmála landsins. Það er oft vandasamt að ráða fram úr þeim á heppilegan hátt, en getur verið mikið í húfi og alþjóð háski búinn, ef mistök verða á í slíkum ráðstöfunum. Nefndin vildi því reyna að finna veg til þess að gera stjórn heilbrigðismálanna sterkari og ábyggilegri en hún er nú; því hefir hún komið fram með frv. á þgskj. 205. Í því er ætlast til, að tveir góðir læknar sjeu skipaðir til aðstoðar landlækni í sóttvarnarráðstöfunum. Til sem bestrar tryggingar er lagt til, að þessir aðstoðarmenn sjeu kosnir af læknadeild háskólans. Það er gert ráð fyrir því, að þeir hafi sjálfstæðan tillögurjett, og beri því fulla ábyrgð á öllum tillögum sínum. Með þessu virðist vera fengin töluverð trygging fyrir því, sem almenningur heimtar, og á rjett á að heimta, að lagst sje á fremsta hlunn með að hindra, að næmar og skæðar sóttir berist inn í landið. Þetta er öryggisráðstöfun frá sjónarmiði nefndarinnar. — Jeg þykist ekki þurfa að tala meira um frv. að svo stöddu. Þó deildin líti öðruvísi á mál þetta, að því er snertir landlæknisembættið, mun nefndin eigi taka sjer það mjög nærri. Hins vegar mun nefndin eigi geta aðhylst frv. stjórnarinnar, eins og það er, en leggur til, að það verði á sínum tíma felt.