01.08.1919
Neðri deild: 23. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í C-deild Alþingistíðinda. (2897)

106. mál, sóttvarnaráð

Fjármálaráðherra (S. E.):

Sannast að segja, þá tók jeg ekki eftir því fyr en í morgun, að þetta mál var á dagskrá, og því síður grunaði mig, að þessar umræður mundu verða hjer í dag. Jeg get því ekki rakið ýms atriði eins ítarlega eins og jeg mundi annars hafa gert og vildi gjarnan hafa gert. Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) talaði um ýmsa vanrækslu stjórnarinnar í inflúensuveikindunum. Að vísu heyra þau mál ekki undir mig, heldur forsætisráðherra (J. M.). En í fjarveru forsætisráðherra fór jeg með þau mál, og fyrir þann tíma ber jeg því aðalábyrgðina á þeim.

Hnútur þær, sem flogið hafa í minn garð úr einstöku áttum fyrir framkomu mína, hefi jeg tekið mjer ljett, því að mín eigin samviska ásakar mig ekki neitt fyrir framkomu mína, því jeg reyndi að gera alt, sem í mínu valdi stóð í þessu máli, og jeg kannast alls ekki við, að í því hafi verið nokkur mistök frá stjórnarinnar hendi. Ef jeg væri mjer vitandi, að jeg hefði gert mistök í málinu, og orðið þannig sök í mannfallinu mikla, þá hefði mjer verið það svo mikil raun, að dómar annara um það hefðu ekkert vegið.

Með „Botníu“ kom veikin hingað, og hafði jeg þá ekki tekið við forsætisráðherraembættinu, en jeg vakti þá athygli á því, hvort ekki ætti að stöðva skipið og hafa varnir. Var það borið undir landlækni, og jeg held hjeraðslækni, enda mun lögreglustjóri á meðan ekki hafa látið hafa samband við skipið, en niðurstaðan varð sú, að skipinu var leyft að hafa samband við land.

Rjett á eftir fór forsætisráðherra utan, en veikin var komin hingað, er jeg tók við embættinu. Eftir að frjest hafði hingað, að búið væri að loka háskólanum í Kaupmannahöfn, skrifaði jeg landlækni um, hvort ekki ætti að gera ráðstafanir til sóttvarna hjer. En hann taldi það ekki gerlegt. Átti jeg þá einkatal við prófessor Guðmund Magnússon, og eftir ráðum hans símaði jeg til Kaupmannahafnar fyrirspurn um það, hvernig veikin hagaði sjer, og var svarið afhent landlækni. Nú er svo fyrir skipað í gildandi lögum, að stjórnin getur ekki í tilfellum eins og þessu haldið uppi sóttvörnum, nema með samþykki og eftir ráðum landlæknis. Sjá því allir heilvita menn, að ef stjórnin hefði fyrirskipað sóttvarnir strax, þá var það hreint og beint lagabrot. Stjórnin gerði það eina, sem hún gat, er hún benti landlækni á, hvort ekki væri ástæða til þess að hefjast handa. En landlæknir sá ekki ástæðu til þess, og er jeg sannfærður um, að það hefir verið af því, að hann hefir ekki trúað á, að veikin yrði eins afskapleg og hún varð. En það er hægra að áfella á eftir en að vera spámaður á undan. Þetta tek jeg hjer fram, enda þótt jeg vildi hafa sóttvarnirnar.

Þegar tilmæli komu frá háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) um heimild til að halda uppi sóttvörnum fyrir sýsluna, þá fjelst landlæknir á það þegar í stað, og um líkt leyti fjelst landlæknir á það, að sóttvarnarráðstafanir væru gerðar í ýmsum öðrum hjeruðum landsins, og heimilaði jeg þá þegar þær sóttvarnir, sem nú er haldið uppi. Lá jeg þá að vísu í rúminu sjálfur, en jeg átti tal við hlutaðeigandi sýslumenn, en landlæknir aftur við læknana. Voru þessar ráðstafanir allar um garð gengnar áður en blöðin eða blaðið, sem hæst hafði, fór að hreyfa sig. Yfirleitt get jeg sagt það með fullum sanni, að stjórnarráðið var vakið og sofið í því að vinna að þessum málum, og þarf því engan að biðja afsökunar. Stjórnin sneri sjer, eins og kunnugt er, til prófessors L. H. Bjarnasonar um að halda uppi og veita forstöðu hjálparstarfsemi hjer í bænum. Jeg veit ekki betur en að það sje viðurkent af öllum, að þessi hjálp hafi orðið að mjög miklu liði. Jeg verð líka að halda því fram, að sú hjálp, sem stjórnin veitti hjeruðunum úti um land, sem urðu að bera byrðar pestarinnar, kom að miklum notum. Hjeruðin voru líka mjög þakklát fyrir hjálpina og fyrir það, hve fljótt hún hefði komið. Voru þeim sendir læknar, hjúkrunarkonur og meðöl, og tveir menn voru sendir um sjúku hjeruðin hjer nærlendis, til þess að kynna sjer ástandið þar og brýna ýms heilræði fyrir fólkinu.

Jeg álít ekki rjett að tala um aðgerðaleysi; jeg veit ekki betur en að alt hafi verið gert, sem hægt var að gera. En það var vitanlegt, að stjórnin gat ekki farið eftir öðru en því, sem læknar sögðu og ráðlögðu. Engin stjórn mundi hafa farið beint á móti ráðum æðsta læknis-„autoritets“, og þá sjerstaklega þegar það varð ekki gert án þess að brjóta lögin.

Ástæðan fyrir því, að stjórnin flutti þetta frv., var sú, að hún vill hafa sem mesta sjerþekkingu að byggja á í þessum efnum. Reynslan hefir einmitt sýnt það, hve mikil þörf er á henni, því að allir mega vera þess fullvissir, að hvaða stjórn sem er mun jafnan fara eftir tillögum þeirra, sem sjerþekkinguna hafa í þessum efnum. Og því verður að hafa hana sem öruggasta. Jeg get ekki kannast við, að hjeraðsstjórnir hafi farið sinna ferða, og það stundum þvert ofan í fyrirmæli stjórnarinnar og landlæknis. Það var fullkomið samræmi þar á milli, en hitt er satt, að það þótti heppilegast að hafa hjeraðsstjórnir sem mest með í ráðum um það, sem gert var, og fór einmitt mjög vel á því.

Annars sjá allir, að stjórnin með þessu frv. vill búa til öryggisráðstöfun gegn yfirvofandi sótthættum í framtíðinni, og því get jeg ekki betur sjeð en að rjett sje að samþ. það.