01.08.1919
Neðri deild: 23. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í C-deild Alþingistíðinda. (2898)

106. mál, sóttvarnaráð

Bjarni Jónsson:

Það getur verið, að þeim, sem bera harm í huga, sje hugarljettir að því að geta beint sökinni að einum manni. En þó svo væri, þá verður að líta á, hvort þessar ásakanir eru rjettar eða ekki. Það er skýlaus rjettur hvers einasta manns að vera dæmdur rjett og sanngjarnlega. Og það er ekki síður hægt að gera þessa kröfu til þings og þjóðar heldur en til einstaklinga, því að dómur þeirra getur hæglega litast af sorginni. Einn maður hefir hjer verið borinn sökum, og þeim þungum. Það er leiðinlegt, að því skyldi ekki hafa verið komið þannig fyrir, að manninum væri gefinn kostur á að verja sig, úr því hann á sæti á þingi. Það hefði verið hægt, því að vel hefði mátt ræða þessa hlið málsins í sameinuðu þingi.

Eftir því, sem mjer skilst, þá eru þessar ásakanir í tvennu lagi. Það eru sóttvarnir innanlands, eða vörn gegn Reykjavík, og það eru varnir gegn útlöndum, eða að verja Reykjavík. Hvað viðvíkur fyrri ásökuninni, þá veit jeg ekki til þess, að landlæknir hafi verið á móti því, að sóttinni væri varnað að breiðast út frá Reykjavík. Það var rjett, sem hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) tók fram, að ráðstafanir voru gerðar áður en blöðin fóru að ræða málið. Jeg veit þetta, því jeg varð þess áskynja þegar er ráðstafanir voru gerðar. Jeg get því algerlega gengið fram hjá þessum hluta ákærunnar, því hann er órjettur.

Þá kem jeg að hinu, hvort það verði að telja embættisafglöp að verja ekki Rvík. Þá verður það spurning, hvort önnur sótt en inflúensa væri á ferðinni, og hvort menn hefðu ástæðu til að ætla, að sóttin væri önnur og verri. Þess ber einnig að gæta, hvort sóttin hafi ekki verið komin áður, og þess vegna hafi verið ógerningur að verjast henni. Hvort sem menn eru sóttvarnarmenn eða ekki, þá verða þeir að játa, að á þeim tíma lá ekkert fyrir, sem gæti bent á annað en inflúensu. Og enn liggur ekkert fyrir, sem hrekur það. Þó að fleiri gerlar hafi fylgst með, þá var það ekki vitað þá, og ekki hægt að gera kröfu til þess, að nokkur vissi slíkt. Þó að frjettir bærust frá Kaupmannahöfn, að sýkin væri skæð, þá voru þær frjettir ekki þannig lagaðar, að ástæða væri til að ætla, að hún væri sjerstaklega skaðvæn. (G. Sv.: Sjerleg fáviska). Dæmi hv. þm. (G. Sv.) sína eigin fávisku, það kynni að stytta ræðu hans og minka malandann. (G. Sv.: Jeg ætla mjer að dæma hv. þm. Dala. (B. J.)). Verði hv. þm. (G. Sv.) að góðu. Jeg skeyti ekki um dóma fávitra manna, og því síður, ef þeir eru illgjarnir að auki.

Jeg fór á milli í fyrrasumar, og þá lágu menn á leiðinni í þessari sýki. Jeg man t. d., að í ágúst, þá er jeg kom heim, þá lá meðal annars nafni minn frá Galtafelli. Sýkin hafði borist hingað með tveimur skipum, og hreyfði enginn hönd nje fót til varna henni, enda vissi enginn betur en að þetta væri að eins algeng inflúensa. Hjá Andrjesi klæðskera hjer í bænum lá fólkið í þessari veiki um sumarið, en sýktist ekki síðar, því þetta var sama veikin.

Þá er eftir að líta á, hvort hægt sje að ámæla landlækni fyrir að hafa ekki tafið veikina, en lofað henni að breiðast viðstöðulaust um bæinn. Þetta getur verið álitamál. Jeg býst við, að jeg hefði gert það fyrra í sporum landlæknis, og þá aðallega gert það til að firra mig ámæli. En afglap getur þetta á engan hátt talist. Það er að eins skoðanamunur um, hvað heppilegra verði, þegar alt kemur til alls. Í Kaupmannahöfn var reynt að stemma stigu fyrir útbreiðslu sýkinnar, og afleiðingin var sú, að hún lá þar lengur, en fór ekki eins geyst yfir. Í Stokkhólmi var önnur leið valin, eða sú, að láta veikina geysa yfir. Þeir gerðu þetta með ráðnum hug, til þess að minna tjón stafaði af sýkinni. Þeir vildu forðast vetrarkuldann, vera búnir með veikina þá. Hjer er því að eins um skoðanamun að ræða, eins og jeg tók fram áðan, og þess vegna ekki rjett að viðhafa eins hörð orð og gert var. Jeg hefi hjer að eins talið ástæðurnar, sem jeg álít að liggi fyrir framkomu landlæknis, og mjer virðist öll sanngirni mæla með því, að fleira sje athugað en eitt eða tvent, sem ofan á kann að fljóta og mest ber á við fyrstu athugun.

Jeg þykist vita, að stjórnin muni gefa frekari skýrslu viðvíkjandi landlækni, og ætlast til, að menn sjeu rjettlátir og sanngjarnir. Aðra kröfu geri jeg ekki. Jeg er ekki hjer að verja allar gerðir landlæknis. Til þess er jeg þeim ekki nógu kunnur. Mjer hefir að eins fundist, að hann væri beittur hjer órjetti, þar sem það hefir verið látið bitna á honum, hvað afleiðingar sóttarinnar voru miklar og illar. En það kom öllum á óvart, ekki síður honum en öðrum, og það var ekki hægt að heimta, að hann gæti sjeð afleiðingarnar fyrir. Það hefði verið ósanngjörn krafa.