17.07.1919
Neðri deild: 9. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

33. mál, tollalög

Pjetur Ottesen:

Jeg skal ekki vera langorður, því að jeg veit, að allir bíða með eftirvæntingu næsta máls á dagskrá.

Háttv. frsm. (E. Árna.) gat þess, að við flm. brtt. 102 mundum báðir viðurkenna þörfina á því, að auka tekjur ríkissjóðs, en vildum þar hins vegar hvergi nærri koma.

Jeg veit þó ekki betur en að við höfum stutt öll þau tollafrv., sem komið hafa frá háttv. fjárhagsnefnd hingað til.

Jeg verð því að telja það algerlega rangt og ástæðulaust af háttv. þm. (E. Árna.) að beita okkur þeim orðum.

Þá gerði hann lítið úr því, að tollsvik mundu aukast eftir því, sem tollur hækkaði.

En það verð jeg þó að álíta beina afleiðingu, svo framarlega sem eftirlitið er ekki aukið, og má geta nærri, hvernig fara mundi, þegar tollurinn á tóbaki er orðinn meira en helmingi hærri en innkaupsverðið á „normal“-tímum.

Háttv. frsm. (E. Árna.) sagði, að verðið hefði nú komist upp í 20–30 kr. pundið. En það verð þekki jeg ekki. Hjer á Suðurlandi hefir það að minsta kosti tæplega komist upp úr 8 kr., eða þar um bil.

En væri nú svo, að menn keyptu það við slíku verði, þá mælir það mjög sterklega á móti þeirri fullyrðingu hæstv. fjármálaráðherra, að tóbakið sje ekki nauðsynjavara, því að hverjum mundi koma til hugar að gefa 20–30 kr. fyrir eitt einasta pund af því, ef hann teldi sjer það ekki nauðsynlegt?