01.08.1919
Neðri deild: 23. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í C-deild Alþingistíðinda. (2900)

106. mál, sóttvarnaráð

Magnús Pjetursson:

Það er stutt athugasemd út af atriði í ræðu hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.). Mjer heyrðist hann segja, að margir læknar hafi ekki talið þörf á að verja hjeruð sín, vegna þess að það var ekki lagaskylda. Ef mjer hefir heyrst rjett og skilist rjett, þá verð jeg að mótmæla þessu mjög ákveðið. Allur fjöldinn af læknum gekst fyrir vörnum í hjeruðum sínum, og það voru fleiri en hv. þm. (G. Sv.), sem að fyrra bragði sóttu um heimild til slíks, áður en fyrirskipanir komu.

Jeg gerði það t. d., og jeg veit um marga fleiri.

Jeg ætla líka að drepa á það, að stjórnin sagðist hafa snúið sjer til sýslumanna og heimilað þeim að halda uppi vörnum. Þetta er alveg rjett, að stjórnin gerði það, en mjer kemur kynlega fyrir, að hún skyldi velja þessa leið, í stað þess að snúa sjer til rjettra aðilja, sem voru læknarnir. Þetta hefði verið rjett, ef læknar hefðu vanrækt skyldu sína, en hitt gat ekki annað en valdið ruglingi og ringulreið, verið óhagstætt og óheppilegt, að láta sýslumenn fara að vasast í þessu að læknunum fornspurðum.

Jeg vil ekki fara að blanda mjer í þá deilu, sem hjer hefir orðið, en jeg get tekið undir það með hv. þm. Dala. (B. J.), að landlæknir gerði það, sem í hans valdi stóð, til að verja ýmsa landshlutana, og veitti læknum þar aðstoð sína. Jeg veit ekki betur en að hann hafi gengið þar fram eins og hann var vanur, og ekki sje hægt að setja út á framkomu hans í þeim efnum.

Svo jeg snúi mjer að sjálfu frv., þá sje jeg ekki annað en að það sje uppsuða úr stjórnarfrv. og komi eins í bága við samþykt læknafundarins eins og það gerði. Jeg get verið sammála háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) og háttv. þm. Borgf. (P. O.), að engin ástæða sje til að samþykkja það. Jeg vil að eins bæta því við, að þó það sje þægilegt fyrir mann í ábyrgðarstöðu að fá stuðning og geta dreift ábyrgðinni, þá felst þó engin trygging í því fyrir því, að starfið verði betur rækt. Það er vitanlegt, og jeg held að það sje einnig viðurkent af öllum, að aukin ábyrgð gerir menn áhugasamari, samviskusamari og skylduræknari. Mjer þykir athugavert að rjúka í að stofna umsjónarembætti með embættismanni, eða fella embætti niður, þó eitthvað þyki einhvern tíma fara aflaga hjá manni, sem situr í embættinu í það skifti.

Eins og menn vita, þá leggja menn altaf misjafna dóma á embættisfærslu ýmsra manna, og þess vegna tel jeg misráðið, að stofnað sje nýtt embætti eða breytt til um embætti í hvert skifti er slík óánægja kemur fram.