01.08.1919
Neðri deild: 23. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í C-deild Alþingistíðinda. (2904)

106. mál, sóttvarnaráð

Gísli Sveinsson:

Háttv. þm. Dala. (B. J.) komst aftur inn á gerlana. En satt að segja voru það hans orð, sem gáfu mjer tilefni til að segja það, sem jeg sagði um það atriði. Annars hefði jeg ekki nefnt gerla í sambandi við þetta mál.

Það er meira en nóg, að sótt þessi reyndist drepsótt, og það var næg ástæða til þess, að heilbrigðisstjórnin átti í tíma að gera ráðstafanir til varnar, hvað sem „gerlunum“ leið.

Annars var það, sem háttv. þm. (B. J.) sagði, hið sama og áður. Hann þóttist vera að færa hið rjetta fram í málinu. En því neita jeg, að jeg hafi viljað halla rjettu máli. Skal jeg óhræddur leggja það undir annara dóm. Jeg býst ekki við, að sá dómur verði nema á einn veg, enda hefir nú reynslan skorið úr, illu heilli að því er afleiðingar sóttarinnar snertir, en góðu heilli að því er varnirnar snertir.

En hitt vona jeg, að flestir muni, að veiki þessi var þegar alræmd undir nafninu „Spanska veikin“, löngu áður en hún kom hingað og löngu áður en háttv. þm. Dala. (B. J.) ferðaðist um hafið, eins og hann sagði.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) virtist hafa mesta stoð í því, að háttv. þm. Stranda. (M. P.) mótmælti því, að landlæknir hefði ekki gert alt, sem í hans valdi stóð, til þess að verja landið gegn veikinni. Kvað hann, hv. þm. Stranda. (M. P.), vera skjallegar sannanir fyrir þessu.

Skjallegar sannanir eru að vísu góðar, svo framarlega sem þau skjöl eru ekki fölsuð. Og jeg efast ekki um, að hans skjöl sjeu ófölsuð, en þrátt fyrir það eru þau harla lítils virði.

Hann segir sjálfur frá, að þau hafi ekki komið fyr en 14.–15. nóv.

En það muna nú fleiri en læknar, hvað þá hafði á dagana drifið. Hjer í Reykjavík var fjöldi manna dauður, og úti um land var þegar í byrjun nóv. hafist handa til varnar, bæði af mjer og öðrum.

En til eru skjallegar sannanir fyrir því, að landlæknir lagðist þá á móti því, bæði í ræðu og riti, að varist yrði. Var hann bæði móti því að verja landið, og eins taldi hann það í fyrstu ókleift og óþarft að verjast innanlands. Það þarf ekki annað en leggja á borðið fyrir framan háttv. þm. Stranda. (M. P.), auk þess, sem áður er talið, dagblað frá byrjun nóv., þar sem í eru skrif landlæknis, og telur hann það þar hjegómamál eitt að hugsa til varnar gegn veikinni. Og yfirleitt voru þau skrif hneykslanleg, eins og á stóð.

En um miðjan nóv. er svo komið, að landlæknir er kominn að þeirri niðurstöðu, eins og allir vita, að eitthvað verði að gera.

Það er heldur engin furða, eins og þá var komið. Hitt hefði verið meiri furða, ef hann hefði þá lagst á móti því, þegar háttv. þm. (M. P.) átti viðtal við hann um málið.

En löngu fyr hafði jeg, að sumu leyti á eigin ábyrgð, byrjað á vörnum við vestur- og austurhluta Skaftafellssýslu, að vestan, eins og kunnugt er, við Jökulsá á Sólheimasandi. Að austanverðu var það meira að segja gert gegn mótmælum frá stjórn og landlækni. Á Norðurlandi var seinna einnig byrjað að verja frá Húnavatnssýslu. En á Austfjörðum var eftir sem áður engin trygging gegn því, að veikin bærist í land af skipum. Þess vegna setti jeg vörnina einnig við Lónsheiði, — gegn mótmælum stjórnarráðsins, enda fjekk jeg andmæli þess gegn aðgerðum mínum, en ljet þá auðvitað svo búið standa, sem heppnaðist vel. Og það var aðalatriðið.