01.08.1919
Neðri deild: 23. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í C-deild Alþingistíðinda. (2906)

106. mál, sóttvarnaráð

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg skal ekki deila við háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) um það, hvort rjett hafi verið að halda uppi vörn gegn veikinni, því að jeg er þar á sama máli og hann.

En sami háttv. þm. (G. Sv.) kannaðist við það, að stjórnin hefði í ráðstöfunum sínum farið eftir lögum og að það hefði verið beint lagabrot, ef hún hefði ákveðið sóttvarnir gegn tillögum landlæknis. Hins vegar er það öllum vitanlegt, að stjórnin hraðaði sóttvarnarráðstöfunum jafnskjótt og landlæknir fjelst á þær, og var þeim haldið uppi með mikilli festu, og hefir því heldur ekki verið mótmælt. Það er alveg rjett, að háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) gekk vel fram í sínu hjeraði með sóttvarnir, enda heimilaði stjórnarráðið honum að halda þeim uppi, að því undanskildu, að stjórnarráðið sá ekki ástæðu til þess að greiða sóttvarnirnar á Lónsheiði úr landssjóði, því landssjóður hjelt uppi sóttvörnum fyrir austan heiðina. Yfir höfuð hjelt stjórnarráðið þeirri reglu, að greiða ekki fyrir sóttvarnir þar sem eins stóð á, enda hefði það verið meiningarlaust.

En jeg skal taka það fram, að eftir að hræðslan við veikina hafði gagntekið fólkið, komu hinar óskiljanlegustu beiðnir um sóttvarnir á ýmsum stöðum, er lágu innan hins sóttkvíaða svæðis, eða milli heilbrigðra staða, þar sem um enga hættu var að ræða. Það sýndi sig nú, að sóttvarnir þær, er stjórnarráðið heimilaði, komu að fullum notum innan hins sóttkvíaða svæðis. Og eins er það og viðurkent, að hjálp sú, er landsstjórnin annaðist um, kom að ómetanlegu gagni. Mjer er skylt að votta það, að embættismennirnir í stjórnarráðinu voru allir mjög samhentir um að reyna að flýta fyrir hjálpseminni úti um sveitirnar, og var oft unnið óspart af þeim, sem á fótum voru og vinnufærir reyndust. Sjálfur vann jeg í rúminu eftir að jeg lagðist veikur, hafði „telefóninn“ við rúmstokkinn.

Hv. þm. Stranda (M. P.) talaði mikið um það, að stjórnarráðið hefði átt að snúa sjer beint til læknanna, í stað sýslumannanna. Þar til er því að svara, að landlæknir stóð í stöðugu sambandi við læknana, en stjórnarráðið sneri sjer til sýslumannanna, en á þeim hvíldi þó mest um allar framkvæmdir á sóttvarnarráðstöfunum. Auk þess ber þess að gæta, að símasamband var svo ófullkomið út um landið, bæði sökum veikinda landssímafólksins hjer og úti um landið, að mjög örðugt var að fá símasamband nema þangað, sem allra nauðsynlegast var, en sýslumennirnir ráðfært sig aftur við hjeraðslæknana.

En það, sem jeg skoða sem mesta trygging fyrir því, að stjórnarráðið hafi gert það, sem það gat, og að fólkið hafi fundið það, er, hversu lítið ámæli það hefir hlotið fyrir afskifti sín af veikinni. Jafnvel hefi jeg verið „hringdur upp“ úr ótal stöðum hjer nærlendis, til þess eins, að þakka mjer fyrir aðgerðir og dugnað stjórnarráðsins og hversu það hefði verið fljótt til þess að hjálpa. Auðvitað má segja sem svo, að stjórnarráðinu sje ekki þakkandi þetta, en þess má þó geta, sem gert er. Jeg vísa því öllum ákúrum frá mjer og stjórnarráðinu út af þessu máli, og get sýnt með enn þá fastari rökum en þeim, sem jeg nú hefi fært, að stjórnarráðið gerði skyldu sína. Þau rök liggja í skjölum og skeytum, snertandi þetta mál, í stjórnarráðinu.