01.08.1919
Neðri deild: 23. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í C-deild Alþingistíðinda. (2908)

106. mál, sóttvarnaráð

Pjetur Ottesen:

Jeg skal ekki tefja lengi umræðurnar, en það var út af ræðu hæstv. forsætisráðherra (J. M.), að jeg vildi gera nokkrar athugasemdir.

Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) ljet sem sje svo um mælt, að örðugt hefði verið fyrir aðra en lækna að dæma um það, hvað veikin væri hættuleg, og heilbrigðisstjórninni væri það mikið til afsökunar, hvað lítið hefði verið gert til varnar útbreiðslu veikinnar í öðrum löndum. En fyrst er nú það, að annarsstaðar var töluvert gert til þess að hefta útbreiðslu veikinnar, t. d. var lokað skólum og samkomuhúsum í Kaupmannahöfn, en svo er aðstaða okkar öll, lega landsins, samgöngur o. fl., ekkert sambærilegt við það, sem annarsstaðar er. En eins og jeg tók fram í fyrri ræðu minni, voru fregnirnar, sem komnar voru um eðli og gang veikinnar í Kaupmannahöfn, nægilega berorðar til þess að sýna og fullvissa menn um, hver voði væri á ferðinni, og að tekið væri mjög alvarlega í taumana og gerð tilraun til þess að sporna við því, að veikin bærist hingað. Sömuleiðis get jeg skýrt frá því, að um líkt leyti og frjettirnar bárust frá Kaupmannahöfn, kom fregn frá New York um það, að samskonar drepsótt æddi þar eins og logi yfir akur. Þar sem nú aðalsiglingar til landsins voru frá þessum stöðum, þá sje jeg ekki annað en að full ástæða sje til að ávíta harðlega aðgerðaleysi þeirra, sem með þessi mál áttu að fara. Þetta sá öll alþýða manna hjer og heimtaði, að hafist væri handa, og er því hæpið að gera lítið úr áliti hennar, því hún hefir reynst miklu glöggskygnari á það, sem gera hefði átt, heldur en sá, sem þetta mál heyrði undir sjerstaklega, sem sje landlæknir.

Þá mintist hæstv. forsætisráðherra (J. M.) á það, að allháværar óánægjuraddir hefðu látið til sín heyra erlendis, t. d. í Danmörku, út af afskiftum eða afskiftaleysi hins opinbera af drepsóttinni; þetta mun rjett vera — en hvað skyldi þá hjer, þar sem ekkert var gert fyr en komið var í óefni. En eftir því, sem jeg hefi heyrt, þá hafa aðalásakanirnar annarsstaðar farið í þá átt, að ávíta hið opinbera fyrir, hversu illa það hefði verið við því búið að taka á móti veikinni, hvað sjúkrahús og hjúkrun snerti, líkt og þegar bæjarstjórninni hjer var legið á hálsi fyrir það að hafa leigt út sóttvarnarhúsið, án þess að hafa nokkurt annað hús í þess stað, sem hægt væri að einangra sjúka menn í.