17.07.1919
Neðri deild: 9. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í B-deild Alþingistíðinda. (291)

33. mál, tollalög

Bjarni Jónsson:

Jeg skil ekki, að beðið sje með eftirvæntingu næsta máls, þar sem menn sýna svo mikinn áhuga í þessu máli. með ýmsum getsökum hver í annars garð.

Það er ekki rjett, að háttv. þm. Borg. (P. O.) vilji engan tekjuauka, þar sem hann vill koma á piparsveinaskatti, en þess var ekki rjett getið hjá honum, að Englendingar hefðu orðið fyrstir manna til þess að koma á slíkum skatti.

Hjer á Íslandi er það svo, að samkvæmt gildandi lögum gjalda piparsveinar, sem hafa 2000 kr. í árslaun, 900 kr. í skatt á ári.

Hugsanlegt væri það líka, að sá skattur næði til piparmeyja, og ef þær hljóta þann titil með sextán ára aldri, þá mundi það verða drjúgur tekjuauki.

Mjer kemur ekki til hugar að fara að mæla á móti frv. þessu, enda mundi það þýðingarlaust, þar sem það er fyrir löngu viðurkent rjettmætt hjer að leggja hærri tolla á heilsuspillandi vörur, og hlýtur sú hugsun að liggja á bak við, að gjaldþol manna aukist við það að spilla heilsu sinni.