21.07.1919
Efri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í C-deild Alþingistíðinda. (2913)

73. mál, bifreiðar

Halldór Steinsson:

Jeg er ekki samþ. þessu frv., aðallega af því, að með því eru gerðar misjafnar kröfur til þeirra manna, sem stýra flutningabifreiðum, og þeirra, sem stýra „privat“-bifreiðum. Ef óhætt er að fela 18 ára gömlum manni að stýra „privat“-bifreið fullri af fólki, þá fæ jeg ekki sjeð annað en að fela megi sömu mönnum að stýra öðrum bifreiðum. Jeg gæti ef til vill fallist á, að aldurstakmarkið væri lækkað, en hitt get jeg ekki felt mig við, að undanþágur sjeu veittar þeim, er stýra „privat“-bifreiðum.

Málið er þess vert, að því sje vísað til nefndar, og vona jeg, að væntanleg nefnd athugi þetta atriði.