08.08.1919
Neðri deild: 28. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í C-deild Alþingistíðinda. (2937)

73. mál, bifreiðar

Pjetur Jónsson:

Þetta mál gekk umr.-laust í gegnum 2. umr., og bjóst jeg því ekki við, að farið væri að gera neitt veður út úr því við 3. umr., en svo er nú orðið. Við frv., eins og háttv. Ed. hefir afgreitt það, hefir nú komið fram brtt. frá háttv. þm. Borgf. (P. O.), þar sem 18 ára aldurstakmarkið á að falla burtu. Ef sú brtt. verður samþ., finst mjer ekkert vera orðið eftir af frv. Í upphafi var í frv. einungis þessi undanþága, um aldurstakmark á þeim, sem stjórnuðu prívatbílum. Það munar engu, hvort aldurstakmarkið hið almenna skuli heldur vera 20 eða 21 ár. Væri því miklu hreinlegra að fella frv. algerlega. Fyrir mitt leyti finst mjer breyting Ed., um 18 ára aldurstakmark fyrir þá, sem stjórna „prívat“-bifreiðum, mjög eðlileg, og sje jeg enga ástæðu til þess að beita sjer á móti henni. Mjer finst sem sje ekki nema sjálfsagt, að úr því að nú á að fara að leggja háan skatt á bifreiðar, þá sjeu eigendurnir látnir um það, hvort þeir vilja heldur hálsbrjóta sig með 20 ára mann við stjórn eða 18 ára. (P. O.: Já, en þeir mega ekki hálsbrjóta aðra). Mjer er kunnugt um, að einstakir efnaðir menn hjer í bænum hafa fengið sjer bifreiðar, sem þeir nota eingöngu fyrir sig og fjölskyldu sína. Nú hafa synir þeirra ef til vill ekki náð 20 ára aldri, og álít jeg það stökustu meinbægni að banna þeim að láta þá stjórna bifreiðunum af þeim sökum, ef þeir trúa þeim sjálfir til þess. Tel heldur eigi 18 ára unglinga þeim mun ófærari til að stjórna bíl en 20 ára. En ef einhver brýtur af sjer með ólöglegri keyrslu, þá er ekki nema sjálfsagt að taka ökuleyfið af honum, hvort sem hann er gamall eða ungur.