08.08.1919
Neðri deild: 28. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í C-deild Alþingistíðinda. (2943)

73. mál, bifreiðar

Björn R. Stefánsson:

Jeg verð að taka undir með ýmsum öðrum háttv. þm. um það, að mjer finst breyting sú á frv., sem hjer um ræðir, svo smávægileg, ef 18 ára aldurstakmarkið verður felt, að mjer finst þá engin ástæða til þess, að frv. nái fram að ganga. Ef farið væri að eiga við að breyta lögum þessum, þá hefði verið miklu rjettara að snúa sjer að því, að gera prófið miklu strangara heldur en það er. Jeg heyri hvarvetna talað um, að kröfurnar, sem gerðar eru til bifreiðastjóra, er próf ætla að taka, sjeu mjög lítilvægar. Ef prófið væri gert fullkomnara, þá sje jeg ekki neitt á móti því, að aldurstakmarkið verði fært niður í 18 ár, því að jeg veit, að athugulir unglingar, þótt ekki sjeu nema 18 ára, geta verið engu ófærari að stjórna bifreið heldur en þeir, sem eldri eru að áratali. Jeg tel miklu meiri tryggingu í því, að lögð sje áhersla á kunnáttu og æfingu en aldur, og álít nauðsynlegt, að þær kröfur sjeu hertar frá því, sem nú er. En nú við 3. umr. er orðið of seint að koma með þær breytingar á þessu frv. og gildandi lögum, sem einar dygðu til að koma málinu í viðunanlegt horf.