22.08.1919
Neðri deild: 42. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í C-deild Alþingistíðinda. (2958)

83. mál, hvíldartími háseta

Björn R. Stefánsson:

Þó að jeg sje einn af hv. nefndarmönnum, kemst jeg ekki hjá því, að segja nokkur orð, því, satt að segja, líkar mjer hvorki meiri nje minni hl. nefndarinnar vel. Jeg hefi að vísu skrifað undir álit hv. meiri hl. nefndarinnar, af því að jeg var honum sammála um niðurstöðu málsins. En aftur á móti var jeg ekki ánægður með dagskrána. Mjer fanst, satt að segja, ekki ástæða til að taka málaleitun, sem svo hóglega var fram borin, jafnhörkulega og gert er. Þar sem því er slegið föstu með dagskránni, að ekki sje ástæða til þess að slaka neitt til, eða gera neinar ákvarðanir í málinu. Jeg tel, að eins og málið horfir við, þá sje það lítt rannsakað. Sjálfur hefi jeg ekki átt kost á að rannsaka það til hlítar, því jeg þekki það lítið af eigin reynd. Því hefði jeg látið mjer nægja, ef sagt hefði verið í dagskránni: „fremur en við annan veiðiskap“, í staðinn fyrir „nje við annan veiðiskap“. Þar með er ekki sagt, að ekki væri ástæða til að rannsaka alt spursmálið nánar. Jeg held, að ekki sje meiri ástæða til þess með botnvörpuskipin fremur en önnur skip. Hásetar á þeim standa að því leyti betur að vígi en aðrir sjómenn, að þeir hafa með sjer reglubundinn fjelagsskap, með föstu skipulagi, „Hásetafjelagið“, og geta því með samtökum sett útgerðarmönnum þau skilyrði, er þeir telja nauðsynlegt. Öðru máli er að gegna með þá, sem stunda síldarvinnu og mótorbátaveiði. Þeir eru oftast sinn úr hverri áttinni, og eru menn af mörgum stjettum, og ættu því mun óhægar með að gera þær ráðstafanir, sem þyrfti, til þess að þeim væri trygður nægur hvíldartími eða önnur nauðsynleg þægindi. Þess vegna var jeg mótfallinn, og taldi fjarstæðu, að fara að setja lög um botnvörpuskipin ein saman. Jeg lít svo á, að slík lög væru hjegómi einn saman, ef þau næðu ekki til vinnu við annan veiðiskap, þar sem þörf á þeim er þó bersýnilega enn brýnni. Ef nokkur sanngirni ætti að vera í þeim, þyrfti að gera mjög víðtækar undantekningar. Segjum t. d., að nú hefðu hásetar vakað í samfleytt 16 stundir, og skipið væri í rúmsjó, eða á einhverjum hættulegum stöðvum nærri landi, en þá skylli á óveður alt í einu. Þá væri óhjákvæmilegt, að þeir hjeldu áfram að vaka, enda brýtur þar nauðsyn lög, en lagabrot væri það samt, ef þeir færu þá ekki að sofa.

Satt að segja efast jeg um, að þessara laga, sem hjer um ræðir, sje eins mikil þörf og sagt er. Jeg hefi að minsta kosti hvergi sjeð þau gögn hjá háttv. nefnd, sem sýni, að þetta sje einróma vilji sjómanna sjálfra. Skoðanir þeirra í þessu máli geta verið misjafnar. Sannar það, að jeg hefi talað við fleiri en einn háseta, sem kváðu sig móti þessu, af því að þeir álitu, að slík lög yrðu algerlega þýðingarlaus, og að setja lög, sem lífsnauðsyn getur verið að brjóta annanhvern dag, er dálítið kátlegt, finst mjer, þegar þá engin undanþága er veitt frá því að fylgja þeim, þó svona standi á.

En þó að svo væri, að ástæða væri til þess fyrir löggjafarvaldið að setja eða fyrirskipa, að sett sje reglugerð um þetta efni, þá er málið ekki svo undirbúið nú, að jeg geti sjeð, að nein minsta átylla sje til þess að samþ. frv. þetta.

Jeg er því samþ. aðalniðurstöðu hv. meiri hl. á því, að rjett sje að fella frv. Og jeg get ekki sjeð, að það sje til neins, að vera að eyða tíma þingsins með því að velta máli þessu lengur fyrir sjer.