22.08.1919
Neðri deild: 42. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í C-deild Alþingistíðinda. (2961)

83. mál, hvíldartími háseta

Gísli Sveinsson:

Það hefir heyrst, ef ekki innan þings, þá utan þess, að þessi krafa væri upprunnin frá stefnu þeirri, sem talsvert hefir bólað á í heiminum á þessum síðustu og verstu tímum, og nefnd hefir verið „Bolshevismi“. En þessi skoðun sýnist ekki á rökum bygð vegna þess, að krafan um allsherjar 8 stunda skifting er miklu eldri en stefna Bolshevikka. Hefir sú krafa að forminu til verið gerð af öðrum flokki manna, sem nefna sig Sósialista, eins og kunnugt er, og eru þeir til í öllum löndum. Telja þeir rjett, að unnið sje 8 stundir, sofið 8 stundir og hvílt sig að öðru leyti, eða notið lífsins og þess lystisemda, eftir innræti sínu, 8 stundir á sólarhring hverjum. Um Bolshevismann er aftur það að segja, að áhangendur hans eru ekki að hafa fyrir því að biðja um slíka hluti, heldur taka þeir vafalaust 24 stunda hvíldartíma, ef þeim býður svo við að horfa. En þótt nú ekki verði sagt, að krafa þessi sje í anda Bolshevikka, þá er ekki þar með gefið, að hún sje þar fyrir rjett eða á rökum bygð. Ber þá sjerstaklega eins að gæta, og það er, að háttv. flm. frv. (J. B.) hefir ekki enn skýrt frá því, frá hverjum, eða eftir ósk hverra, þessi krafa væri gerð. (J. B.: Jeg skýrði frá því í dag síðast). Já, mjer er kunnugt um, að háttv. þm. (J. B.) sagði, að hásetar hefðu óskað þessa. Og mjer er sömuleiðis kunnugt um, að tillaga kom fram um það á þingmálafundi hjer í bænum, að hásetar skyldu sofa 8 stundir samfleytt, hvorki meira nje minna (!!), en á slíku er ekki takandi neitt verulegt mark, fremur en mörgu öðru, sem samþ. er á slíkum fundum hjer í Reykjavík. Nei, það, sem vantar upplýsingar um, er, að þetta komi frá meiri hluta háseta á botnvörpungunum. Háttv. frsm. (J. B.) hefir sagt, að þetta hafi verið samþ. á hásetafjelagsfundi; væri að vísu nokkuð byggjandi á slíku, ef ekki vantaði upplýsingar um, hversu margir hásetar hefðu verið á fundi, og hversu margir af þeim, sem á fundi voru, hafi greitt atkvæði með þessari tillögu, ásamt því, um hversu marga háseta á botnvörpungum sje yfirleitt að gera. Fundur þessi var líka haldinn rjett fyrir þing, en þá veit jeg ekki betur en að flestir hásetar hafi verið á sjó. Ákjósanlegast hefði verið, að til leiðbeiningar okkur hjer hefði legið frammi á lestrarsal skýrsla um, hversu margir hásetar óskuðu þessa, því annars gætu menn hugsað, að þessi ósk, eins og oft vill við brenna, væri ekki borin fram af sjómönnum, heldur af þeim flokki manna, sem þeir nefna „landkrabba“, er oft hafa viljað spila foringja fyrir þeim og nefna sig forvígismenn sjómanna, þótt þeir hafi aldrei á sjó komið og verði sjóveikir við að horfa út á sjóinn.

Það er víst fyllilega rjett skilið hjá hæstv. forsætisráðh., að 1. gr. frv. beri að skilja „absolut“. Ef líka nokkur meining á að vera í frv., þá verður krafan um 8 stunda hvíld að vera „absolut“. En með brtt. háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) er málið í raun rjettri komið í sama horf og það var áður. í brtt. stendur sem sje, að skylt skuli vera að veita hásetum 6 stunda hvíld, „nema öðruvísi sje um samið.“ Með öðrum orðum er þarna gert ráð fyrir, að hægt sje að koma sjer saman um og binda það samningum, að lagaákvæðið skuli ekki gilda.

Nú er mjer kunnugt um, að svo mikil er eftirspurnin eftir atvinnu á botnvörpungum, að fólkið mundi þjóta úr sveitunum til að komast að, ef ekki gengi saman og hásetar legðu niður vinnu. Afleiðingin af þessu er sú, að altaf mun vera hægt að semja við háseta um, að þeir noti sjer ekki þetta leyfi, en það er sama og að lögin hefðu aldrei verið samþ. Ef nú aftur á móti það hefði verið uppi á teningnum, að hásetar hefðu getað boðið byrginn og verið þeim sterkari, þá hefðu þeir getað samið um þetta við útgerðarmennina án þess nokkur lög þyrftu til, og þá óþarft að setja lög um það. Þess vegna sje jeg heldur ekki þörf á að rífast um svo meinlaust frv., sem þetta er orðið með brtt. háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). Jeg fæ nú ekki sjeð þá hættu, sem af því stafi, þótt hásetar fái 6 st. hvíld, ekki einu sinni 6 stunda svefn. Jeg sje ekki betur en að skipstjórar geti gefið þeim einnar stundar hvíld í senn, 3. hvern tíma t. d., og það getur verið, að hásetar felli sig við slíkt, eins og fulltrúar þeirra hjer virðast gera. Nei, það sem máli skiftir er, hvort ástæða sje til að samþ. frv. með „absolut“ skyldu um 8 stunda hvíld, eða hvort ekki sje betra að láta slíkt verða samningsatriði milli háseta og skipstjóra.

Nú hafa ekki næg gögn komið fram um það, að nauðsynlegt sje að semja lög um þetta, og sje jeg því ekki annað en að allir geti verið sammála um, að ekki beri að semja slík lög. Það væri þá helst hæstv. forsætisráðh., sem er 2. þm. Reykv. og telur sig því fulltrúa sjómanna, er ekki gæti verið sammála okkur hinum um þetta. Ef því þessi stefna er í anda Bolshevikka, þá er líka hæstv. forsætisráðh. Bolshevikki, en ekki að eins jafnaðarmaður, og má það vist heita merkilegt.

Það, sem enn fremur gerir það að verkum, að ekki þýðir að setja svona lög, er, að hásetarnir eiga líka síns hagnaðar að gæta í þessu, því að þess meira sem þeir fiska og vinna, því meiri gróði fyrir þá, enda hefi jeg heyrt merka háseta hafa þau orð um þetta frv., að sjómönnum væri það mjög svo á móti skapi. Háttv. flm. þessa máls (J. B.), sem annars fór mjög hóflega í málið í ræðu sinni, gat þess, að það væri ósköp þægilegt að sitja í hægindastól og skipa fyrir um vinnu, en þess mætti líka geta, að þeir, sem skipa fyrir um vinnu á botnvörpungunum, sitja ekki í hægindastól á landi uppi. Jeg veit sem sje ekki betur, en að það sjeu skipstjórarnir, sem vinnunni stjórna á botnvörpungunum, en svo langt er ekki komið enn, að þeir geti setið í landi og stjórnað vinnunni þaðan.

En þótt svo sje nú, sem jeg greindi, þá tel jeg frv., ef breytingin verður samþykt á því, orðið svo meinlaust, að jeg get vel verið með því og greitt því atkvæði.