22.08.1919
Neðri deild: 42. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í C-deild Alþingistíðinda. (2962)

83. mál, hvíldartími háseta

Sigurður Stefánsson:

Eins og menn munu hafa komist að raun um við 1. umr. þessa máls, þá get jeg ekki felt mig við þetta frv., eða þá stefnu, sem það er vaxið frá. Jeg færði rök fyrir mínu máli þá, en þau voru tekin óstint upp fyrir mjer af háttv. flm. þessa frv. (J. B.) Jeg get nú tekið undir með háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), að mjer finst liggja of lítil gögn fyrir þinginu viðvíkjandi þessu máli. Hjer er um mikið nýmæli að ræða, sem getur með tímanum gripið ekki svo lítið inn í aðrar atvinnugreinar þessa lands en hjer er farið fram á, og þegar slík nýmæli eru á ferðinni, þá ættu flm. þeirra að sjá skyldu sína í því, að sem ríkust rök væru fyrir hendi til stuðnings þeim. Hjer eru engin slík gögn, nema ef vera ættu ræður háttv. flm. (J. B.), en jeg efast um, að hann sje kunnugur þessu máli fremur öðrum, og sömuleiðis efast jeg um, að eins margir hásetar standi að baki þessa máls og í veðri er látið vaka. Jeg hefi að vísu heyrt, að einstakir menn, sem jeg vil ekki nefna hjer í salnum, og jeg vil helst aldrei nefna, hafi hóað saman nokkrum hásetum á fund, þar sem þessi hvíldartími hafi verið samþyktur, en hversu þessir hásetar hafa verið margir, um það liggur ekkert fyrir þinginu. Hitt þykist jeg vita, að jafnathugull maður og háttv. flm. (J. B.) er hefði látið öll nægileg gögn liggja fyrir, hefðu þau verið til. Þetta hafa allir þm. álitið sjer skylt, en ekki er þetta hvað skyldast, er um svona nýmæli er að ræða.

Jeg hefi að vísu heyrt því haldið fram, að þessi alda væri runnin frá hásetum, en jeg efast um, að hún sje runnin frá meiri hl. háseta á íslenskum botnvörpungum. Sá efi er bygður á því, að mjer er kunnugt um, að allur fjöldi þessara manna eru gagnheiðarlegir menn, sem vilja bjarga sjer eftir föngum og telja því ekki eftir sjer að vinna sjálfum sjer og öðrum til gagns. Og svo er líka guði fyrir að þakka, að íslenskir verkamenn eru ekki enn orðnir svo spiltir, að þeir öfundist yfir hverjum þeim gróða, sem vinnuveitendurnir, og þá sjerstaklega botnvörpueigendurnir, vinna sjer inn með dugnaði sínum og framsýni. Jeg þykist því vera að bera óhróður af hinum íslensku sjómönnum, og næstum ósæmilegan áburð, er jeg segi, að þessi alda sje ekki runnin frá þeim. Hitt er aftur á móti víst, að á síðustu tímum hefir þjóðfjelagið okkar orðið fyrir því böli, að þeir menn hafa komið fram í því, sem jeg tel að alda sú sje runnin frá. Það eru þeir menn, sem sjá ofsjónum yfir og öfundast út af hverjum eyri, sem dugnaðar- og framkvæmdamaðurinn vinnur sjer inn.

Katla gaus í fyrra haust. Því gosi fylgdi eyðilegging og óáran. Þó var öskufallið úr því gosi ekki eins eitrað fyrir búfjárhaga og slægjulönd bænda og út leit fyrir í fyrstu. Hjer er annað Kötluhlaup á ferðinni með eitraðra öskufalli fyrir atvinnuvegi landsins. Í því öskufalli eru eitraðar og banvænar sóttkveikjur í mannamyndum, er eitra og spilla á allan hátt þjóðfjelaginu með því að ala á ófriði, öfund og rógi milli atvinnuveganna og kveikja ófrið milli vinnuveitenda og verkamanna. Þetta er því hörmulegra, sem vinnuveitendur og verkamenn hjer á landi hafa hingað til lifað í sátt og samlyndi. Þessir fyrnefndu eiturgerlar eru nú að reyna að spilla þessu góða samlyndi með því að kveikja úlfúð og hatur milli þessara manna, og ein tilraun þeirra er það frv., sem nú liggur fyrir. Jeg held, að Alþingi Íslendinga eigi ekki að láta sig henda það glapræði, að ljá þessari óheillastefnu nokkurt fylgi, sem segja má, að sje orsök þess, að öll siðmenning og þjóðfjelagsskipun heimsins leikur svo að segja á reiðiskjálfi. Þessi orð mín má ekki skilja svo, að mjer detti í hug að lá verkamönnum í umheiminum allar kröfur sínar um bætt kjör sín. Svo mikill mannvinur þykist jeg vera, að jeg ann öllum mönnum þess, að þeim líði sem best. Það er líka full ástæða til samtaka og baráttu verkamanna, þar sem þeir eru kúgaðir af miskunarlausum auðkýfingum og samvinnuhringum, er reyna að halda öllu í járngreipum harðstjórnar auðvaldsins. En hjer á landi er engu slíku til að dreifa. Hjer eru engir auðkýfingar eða öreigalýður. Hitt er annað mál, að þessi ófriður milli vinnuveitenda og verkamanna, sem vakinn er að ástæðulausu af óhlutvöndum mönnum, getur óðar en varir smitað út frá sjer til allra atvinnuvega landsins, þeim til tjóns og bölvunar, og það því fljótar, ef löggjafarvaldið ljær slíkum frv. sem þessu liðsinni sitt. Með því styður það þær kröfur, sem samkvæmt landsháttum og öllum kringumstæðum geta ekki orðið til annars en að skaða atvinnuvegi vora, bæði til lands og sjávar. Krafan um lögákveðna hvíldartíma, hvort heldur er á sjó eða landi, á alls ekki við ástandið hjá okkur. Það er alt öðru máli að gegna með iðnaðarlönd, þar sem verkamennirnir hafa reglubundinn vinnutíma í verksmiðjum. Þar geta slíkar kröfur átt heima, vinnuveitendum og verkamönnum að skaðlausu. Hjer á landi er aftur á móti bjargræðistíminn svo stuttur og takmarkaður af völdum náttúrunnar, bæði sökum veðurfars og landshátta, að svo má segja, að hver stundin sje dýrmæt. Það er öllum kunnugt, að það geta ekki að eins verið dagar og vikur, sem sjómönnum er ómögulegt að bjarga sjer, heldur geta það verið mánuðir. Og sama má segja um bóndann um heyskapartímann, er óþurkar ganga. Það liggur því opið fyrir mönnum, að ekki má á nokkurn hátt leggja stein í götu þessara atvinnuvega, með lögskipuðum og fastákveðnum vinnutíma, því af slíkum fyrirmælum getur leitt í mörgum tilfellum stórtjón bæði fyrir vinnuveitendur og verkamenn. Væri aftur á móti svo ástandið hjer á landi, að hjer væri öreiga verkalýður og harðdrægir vinnuveitendur, sem þjökuðu á allan hátt kjörum verkamanna, þá væri öðru máli að gegna, en hver vill reyna að telja háttv. deild trú um að svo sje? Við höfum þvert á móti dæmin deginum ljósari um það, að það eru verkamennirnir, sem algerlega ráða öllu kaupgjaldi, og mjer dettur ekki í hug að áfellast þá fyrir að hafa komið ár sinni svo fyrir borð. Jeg mundi miklu fremur telja þá menn að minni, ef þeir reyndu ekki að bjarga sjer í dýrtíðinni með því að heimta hærra kaup af vinnuveitendum. Það er blátt áfram skylda þeirra við sig og sína, til þess að geta lifað. En þetta, sem hjer er sýnt fram á, sýnir, að hjer er engin hætta á ferðum fyrir verkalýðinn. Nú er kaupgjaldið orðið svo hátt, að vinnuveitendur horfa fram í ókomna tímann með töluverðum ótta fyrir því, að atvinnuvegirnir geti ekki borið sig með hinum sívaxandi kaupkröfum. Jeg vil skjóta því til háttv. landbænda, sem sæti eiga hjer á þingi, hvort verkkaupið nú upp á síðkastið sje ekki orðið svo hátt, að ekki sje annað fyrirsjáanlegt en að landbúnaðurinn fái ekki undir því risið og verði að gefast upp í baráttunni fyrir tilverunni.

Þegar svona er ástatt með aðalatvinnuvegi landsins, þá þykir mjer varhugavert að koma með slíkt frv. sem þetta; það gerir ekkert gagn, en getur hins vegar orðið til skaða og gert ástandið verra en það er. Frumkvöðlar þessa máls eru, eins og jeg hefi áður sagt, ekki verkamenn alment, heldur þessir mannvesalingar, sem þykjast sjá drauga auðvaldsins og vofur örbyrgðarinnar hjer á landi og etja þessum óvættum saman, sem hvergi eru til nema í þeirra eigin ímyndun. Það er engum vafa undirorpið, að slíkir menn vinna verkalýðnum meira tjón en gagn. Jeg minnist að hafa heyrt það, að það hafi verið einhverjir af þessum hefðarmönnum, sem komu af stað hásetaverkfallinu fræga vorið 1916. Hásetarnir ljetu glepjast af fortölum þeirra, gengu af skipunum, og útvegurinn stöðvaðist um tíma. Og útgerðarmennirnir biðu ekki einir skaða af þessu tiltæki, heldur urðu þessir vesalingar, sem ljetu glepjast, fyrir stórtjóni og hurfu svo aftur um borð eftir að hafa setið hálfan mánuð iðjulausir í landi um hábjargræðistímann. En hitt er óvíst, að þeir hafi verið foringjunum þakklátir fyrir tiltækið.

Ef jeg hefði verið í flokki þeirra manna, sem komu verkfallinu af stað, hefði mjer þótt heiðarlegra að sitja í skammarkróki öfundar og heimsku heldur en látar framar á mjer kræla í nokkurri verkamannahreyfingu.

Því fer fjarri, að jeg sjái nokkra þörf á slíku frv. sem þessu, og því síður, að nokkur vissa sje fengin fyrir því, að það hafi meiri hluta háseta að baki sjer. Það er ofurhægt að hóa saman nokkrum verkamönnum, hvort heldur er til sjávar eða sveita, og telja þeim trú um ófrelsi og áþján, sem þeir ættu við að búa, og fá þá til að samþykkja áskorun til þingsins; en að verkalýðurinn sje alment svo skyni skroppinn, að láta glepjast af slíkum fortölum óhlutvandra manna, því neita jeg alveg.

Og eitt er víst, hvað sem gert verður við frv. hjer á þinginu, að ef þessi krafa um 8 st. svefn væri borin undir alþjóðaratkvæði, mundi mikill meiri hluti þjóðarinnar ekki að eins samþ. 8 st. svefn fyrir forvígismenn þessa fáránlega frv., heldur 24 st. svefn. Meðan þeir svæfu, gerðu þeir þó engum mein, manngreyin.