14.07.1919
Neðri deild: 7. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í C-deild Alþingistíðinda. (2977)

53. mál, læknishérað í Ólafsfirði

Magnús Pjetursson:

Jeg ætla ekki að fara að lengja umr., og vil síst af öllu þreyta háttv. 2. þm. Rang. (E. J.). Jeg vildi að eins skjóta því til allsherjarnefndar til athugunar, að ef þessi mál eiga að ná fram að ganga, eitt eða fleiri, eða ef nefndinni dytti í hug að mæla fram með einhverju þeirra, þá hefir það enga þýðingu fyr en búið er að ákveða um launaskipunina. Ef það mál fer illa, er alveg tilgangslaust að láta slík mál ná fram að ganga, því þá er það víst, að engin von er til þess, að læknar fáist í ný hjeruð, en þvert á móti mikil vissa fyrir, að fleiri en færri af þeim, sem nú hafa lækni, verði óskipuð.

Annars má jeg fyrir hönd stjettarbræðra minna gleðjast yfir því, að þessi frv. eru fram komin, einmitt nú á þessu þingi, því þau hljóta að bera vott um það, að flytjendur þeirra, að minsta kosti, ætli sjer að launa læknana þannig, að þeim verði vel líft, í hvaða krók eða afkima lands sem þeir kunna að verða settir.

Að endingu vil jeg benda hv. nefnd á að athuga í sambandi við þessi frv. staðhætti og læknaþörf um land alt, því jeg er sannfærður um, að þá myndi það koma í ljós, að bæta þyrfti við að minsta kosti 10–20 nýjum hjeruðum, ef sum þessara frumvarpa teljast eiga rjett á sjer.