27.08.1919
Neðri deild: 47. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í C-deild Alþingistíðinda. (2981)

53. mál, læknishérað í Ólafsfirði

Frsm. (Einar Jónsson):

Þetta mál er ekki mikið nje margbrotið og því óþarfi að halda langa ræðu um það. Allsherjarnefnd barst frv. um stofnun nýs læknishjeraðs í Ólafsfirði, en sá sjer ekki fært að mæla með því, að svo yrði gert. Henni hafa borist málaleitanir um stofnun fleiri nýrra læknishjeraða, en þetta er eina hjeraðið, sem hún hefir öll orðið sammála um að ráða frá að læknishjerað væri stofnað í. Jeg býst við, að hv. flm. frv. (St. St.) muni þykja það leitt, að allsherjarnefnd hefir ekki getað mælt með því, að frv. hans yrði samþ., og hún kannast við, að erfiðleikar muni vera á að ná í lækni í hjeraði þessu, en svo er víðar hjer á landi, og þó ekki alstaðar bætt úr. En margir hv. þingdm. munu kunnugir, hvernig þarna hagar til, og skal jeg því ekki fara langt út í þá hlið málsins. En þess skal jeg geta, að þótt nefndin sæi sjer ekki fært að mæla með því, að frv. yrði samþ., þá leggur hún hins vegar ekki mikla áherslu á, hvernig málið fer í þinginu. Mun að vísu greiða atkv. á móti því, samkvæmt afstöðu þeirri, er hún hefir tekið, en leggur það að öðru leyti undir úrskurð hv. deildar, án allrar íhlutunar í kappræðum frá minni hálfu sem framsm.