27.08.1919
Neðri deild: 47. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í C-deild Alþingistíðinda. (2983)

53. mál, læknishérað í Ólafsfirði

Frsm. (Einar Jónsson):

Jeg lofaði að leggja ekki út í kappræður um mál þetta, og það skal jeg efna. Háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) byrjaði á því, að þetta væri fyrsta beiðnin um lækni, sem ráðið væri til að fella. Þetta er ekki fullkomlega rjett, því að ýmsir meðnefndarmenn mínir ráðast á fleiri slíkar beiðnir, sem fyrir þinginu liggja nú. Hitt er rjett, að nefndin öll hefir lagst á móti þessu frv. að eins. — Einn háttv. nefndarmaður hefir lagst á móti þeim öllum, hinir fjórir orðið samferða um eitt (Hólshjerað), og skiftar skoðanir frekar um Bakkahjerað og Árnesshjerað. Það, sem fyrir mjer vakti, var einkum það, að óviðkunnanlegt væri og gagnslaust að vera að stofna embætti, þar sem engir væru til að skipa í þau, að minsta kostir engir, sem þau vildu þiggja; þannig hefir verið um ýms útkjálkalæknishjeruð, sem áður hafa verið stofnuð, að þau eru læknislaus enn í dag, og eins er jeg hræddur um að fara mundi um Ólafsfjörð, að þangað fengist enginn læknir að sinni, þótt þar yrði stofnað læknishjerað. Það er að vísu rjett hjá hv. þm. (St. St.), að þetta getur breyst til batnaðar, ef laun læknanna verða bætt, en þó því að eins, að mennirnir sjeu til í embættin, en á því mun misbrestur nú. Það liggur og í augum uppi, að útgjöld verða því meiri, því meir sem embættum fjölgar, og laun hækkuð jafnframt. Það ætti því að fara varlega í að hrófa upp embættum ótakmarkað. Það er bæði vinsælla og heppilegra að gera það smátt og smátt, eftir því sem þjóðinni vex fiskur um hrygg. Hins vegar mun það rjett, að þessir hjeraðsbúar hafi eins mikla þörf á lækni eins og ýmsir aðrir, sem um lækni biðja. Hv. þm. (St. St.) gaf það í skyn, að fleiri en 600 manns mundu leita læknisins í Ólafsfirði, með því að fólk úr nærsveitum ætti hægra með að leita til hans en síns núverandi læknis. Má vel vera, að svo sje, en það yrði þá á kostnað annars læknis, og gæti svo farið, að hann sæi sjer ekki fært að þjóna því embætti, er hann nú situr í, en leitaði burtu, eða segði af sjer, og mundu stafa vandræði af læknisleysi í því hjeraði, líkt og í Ólafsfirði nú; og hverju er þá bættara?

Annars tók hv. þm. (St. St.) rólega undirtektum nefndarinnar, eins og hans var von og vísa; en nefndinni þótti rjettara að láta hv. deild skera úr málinu en svæfa það, svo flutnm. og öðrum, er kynnu að vera því hlyntir, gæfist kostur á að greiða því atkv.